13.10.10

Óbreytt frá stríðsárunum

Íslenskir áhugamenn um Royal Enfield mótorhjól stofnuðu klúbb, Royal Enfield Club of Iceland, á dögunum. Að sögn Guðmundar Más Ástþórssonar, formanns hins nýstofnaða  klúbbs, er markmið hans að auka veg og vanda þessara bresk/indversku hjóla á Íslandi.

„Svona klúbbar þekkjast víða um Evrópu, þar með talið á Norðurlöndunum, enda eru menn almennt
á því að þarna séu á ferð vönduð mótorhjól, þægileg í alla staði og flott. 
Við sem stöndum að baki klúbbnum þekkjum þetta af eigin  raun þar sem við eigum allir svona
hjól og vildum með klúbbnum hefja þau til vegs og virðingar,“ útskýrir Guðmundur, en ekki er lengra síðan en fjögur ár að áhugi hans á þessari gerð mótorhjóla kviknaði í heimsókn til Indlands. 
„Þetta var alveg einstök lífsreynsla. Við Þóra Guðmundsdóttir, sem höfum staðið fyrir jógaferðum fyrir Íslendinga til Indlands, urðum okkur úti um svona hjól til að ferðast um frá Cophin í Keralahéraðinu í suðri upp eftir til Góa. Ég hafði áður farið nokkrum sinnum til Indlands en þarna á mótorhjólinu upplifði ég enn sterkar á hraðri yfirferð töfra landsins, það fjölbreytilega litróf mannslífs og dýra sem þar búa og fallega náttúru,“ segir Guðmundur sem lagði af stað með litla sem enga reynslu af mótorhjólum en varð sér úti um Royal Enfield mótorhjól í lok ferðar og flutti til Íslands.
Mótorhjól Guðmundar er með 500 kúbika vél, sparneytið og afar meðfærilegt að sögn eigandans sem þykir þó einna mest vert um útlitið en það er nákvæm eftirmynd hjóla frá seinni heimsstyrjöldinnni.  „Indverjarnir tóku við framleiðslu þessara hjóla af hendi Breta árið 1968 og þótti engin sérstök ástæða til að betrumbæta hana, þeim þótti hún einfaldlega svo vel heppnuð. Hjólin er því hægt að fá í lítillega uppfærðum útgáfum eða í sinni upprunalegu mynd,“ sem Guðmundur telur vera eina ástæðuna fyrir vinsældum hjólanna. 
Skömmu eftir heimkomu kynntist Guðmundur fleiri áhugamönnum um Royal Enfield mótorhjól sem varð til þess að klúbburinn varð síðan stofnaður fyrir skemmstu. Áhuginn er að hans sögn eitt helsta skilyrðið fyrir inngöngu. „Við tökum vel á móti áhugasömum og svo er auðvitað gott stefni viðkomandi á að kaupa sér svona hjól.“ Sem stendur eru félagar níu talsins, allt saman menn á besta aldri sem hittast reglulega til að ræða hugðarefnið og skella sér á rúntinn. „Konurnar hafa hins vegar af einhverjum ástæðum haldið sig í skefjum og ég auglýsi bara hér með eftir þeim.“ 
 Ýmislegt er á döfinni hjá klúbbnum, meðal annars fyrirhuguð ferð  til Indlands að sögn Guðmundar. „Við stefnum á að fara saman út eftir svona þrjú til fjögur ár og þá ætla ég að nota tækifærið og sýna félögunum hversu hentugt er að ferðast um á svona hjólum og lenda í spennandi ævintýrum á framandi slóðum.“
roald@frettabladid.is 
Fréttablaðið 13.10.2010

8.9.10

Ferðast á fornum fararskjóta


  •  Færeyingur á ferð um landið á 65 ára mótorhjóli
Færeyingurinn Finn Jespersen hefur alla tíð haft mikinn áhuga á öllu sem viðkemur gömlum mótorhjólum. Þegar hann frétti af því að vinur hans, Hjörtur Jónasson frá Selfossi, hefði keyrt yfir Kjöl á Matchless-mótorhjóli árgerð 1946 fyrir nokkrum árum ákvað Finn að halda á vit ævintýranna á Íslandi á einu þriggja fornhjóla sinna af Nimbus-gerð. Síðastliðna viku hefur Finn því ferðast um landið á 65 ára gömlu mótorhjóli, smíðuðu við lok síðari heimsstyrjaldarinnar.
 Finn á þrjú Nimbus-hjól en hin hjólin tvö sem hann skildi eftir heima í Færeyjum voru smíðuð árin 1936 og 1939 þannig að hjólið sem hann ferðast á í sumar er unglambið í safninu. Finn hefur í mörg ár starfað fyrir Samskip í Kollafirði í Færeyjum þannig að það þarf ekki að koma blaðamanni á óvart hversu góða íslensku hann talar. „Ég hef gaman af því að tala við áhafnirnar. Íslenska og færeyska eru eiginlega sama málið,“ segir hann á kjarnyrtri íslensku. 
Finn kom til landsins á þriðjudag fyrir viku með Norrænu og keyrði frá Seyðisfirði til Vopnafjarðar, kom við í Reykjahlíð við Mývatn og heimsótti Húsavík og Akureyri. Þá var hann í Reykjavík og á Selfossi fyrir helgina auk þess að aka Kjölinn sem var aðaltakmark ferðarinnar. Tók sú ferð tíu tíma. Allt í allt segist hann hafa farið um tvö þúsund kílómetra á hjólinu góða. 

Gömul hjól smíðuð til að endast 

Er ekkert mál að ferðast slíkar vegalengdir á hálfsjötugu mótorhjóli? „Nei, nei, það skiptir engu máli,“ segir Finn glaður í bragði.  „Maður tekur því bara rólega og fer ekki á meira en 60-70 kílómetra hraða. Hjólið er í góðu lagi ennþá!“ Nimbus-hjólin þurfa ekki mikið viðhald að sögn Finns. „Það þarf bara að skipta um olíu við og við,“ segir hann. Hann hefur átt hjólið sem hann ferðast á um landið í sex ár og segir öll hjólin sín þrjú vera eins og ný. „Öll gömul mótorhjól voru vel byggð og til þess að endast. Það er ekki eins og í dag þar sem ný mótorhjól duga kannski í tíu ár og ekki mikið meira en það,“ segir Finn. 
Á ferð sinni um landið fannst Finn mest til sundlauganna koma. „Það er ótrúlegt að sjá þrjátíu stiga heitt vatn úti undir beru lofti. Svo þótti mér merkilegt að sjá öskuna úr gosinu í vor á Akureyri. Í Færeyjum sáum við líka ösku en ekki svona mikla,“ segir Finn sem heldur heim á leið í kvöld með Norrönu. 
Morgunblaðið 08.09.2010Kjartan Kjartansson
kjartan@mbl.is