4.9.06

Hættir sem skólastjóri og byrjar að hjóla


FJÖLMARGIR Hafnfirðingar þekkja Hjördísi Guðbjörnsdóttur, sem nú er að láta af störfum sem skólastjóri Engidalsskóla.
Þar hefur hún ráðið ríkjum í 28 ár og annast uppfræðslu hjá nokkrum kynslóðum Hafnfirðinga. Þar áður kenndi hún við Öldutúnsskóla og hefur samtals varið 43 árum ævi sinnar í uppfræðslu ungdómsins. „Það er betra að hætta í fullu fjöri en að lognast út af í starfi. Þetta er erfitt og andlega slítandi starf og mér finnst þetta orðið gott,“ segir Hjördís.
Það eru ávallt tímamót þegar vinnustaður er yfirgefinn í síðasta sinn en það er hugur í Hjördísi, sem hélt upp á sextugsafmælið fyrir þremur árum með því að taka mótorhjólapróf. „Börnin voru farin að heiman og ég var orðinn sjálfs míns herra og ákvað að láta gamlan draum rætast.“ Þá um haustið hafði hún keypt splunkunýtt Yamaha 535 sem hún gaf sjálfri sér í jólagjöf. Það var látið standa inni í forstofu skreytt jólaljósum yfir hátíðina. „Ég hef engan bílskúr þannig að ég sagði við yngsta strákinn minn að það væri von á pakka með sendibíl og bað hann um að hjálpa sendibílstjóranum að koma honum inn í hús. Pakkinn ætti að  fara inn í forstofuherbergið. Drengurinn tók síðan á móti mótorhjólinu og varð þá að orði að oft hefði hún mamma þótt skrýtin en aldrei eins og nú.“ Núna nýtur Hjördís þess að fara í stuttar ferðir innanbæjar á hjólinu íklædd níðsterkum mótorhjólagalla úr kevlar og innfæddir þekkja vart aftur gamla skólastjórann sinn.
„Ég held að fólki finnist þetta dálítið broslegt. Mig hafði alltaf langað til þess að prófa mótorhjólasportið. Ætli ástæðan sé ekki sú að ég er spennufíkill að eðlisfari. Kannski að það sé einsdæmi að skólameistari taki upp slíka iðju á gamalsaldri,“ segir Hjördís og hlær.  „Ég hef áhyggjur af ungum mönnum á mótorhjólum sem keyra eins og brjálæðingar, en þetta er skemmtileg íþrótt ef varlega er farið. Ég samþykkti aldrei að synir mínir þreyttu mótorhjólapróf. En nú ræð ég engu lengur og einn sona minna var núna að taka sitt próf. Það eru allir farnir að heiman og ég hef engin völd lengur. Ég held samt að foreldrar séu ekki spenntir fyrir því að börn þeirra taki mótorhjólapróf í ljósi allra þeirra slysa sem verða. Þetta horfir öðruvísi við með eldra fólk sem verður frekar stöðvað fyrir of hægan akstur heldur en hraðan.“ Hjördís hjólar mest um helgar og bara í góðu veðri. Hún velur að fara í hjólaferðir snemma morguns eða um kvöldmatarleytið þegar umferðin er sem minnst. Engu að síður er hún í þeim hópi hjólamanna sem hafa dottið. „Það var í einni af mínum fyrstu ferðum á hjólinu að stór jeppi ók í veg fyrir mig á umferðarljósum. Sem betur fer var ég á hægri ferð og náði að stöðva snögglega en ég missti hjólið yfir á vinstri hliðina. Ég slasaðist ekki en ég fékk byltuna,“ segir Hjördís. 
gugu@mbl.is
Morgunblaðið 
4.09.2006

16.8.06

Vegur aðeins 23 kíló

Nýjasta mótorsportið á Íslandi hentar jafnt fullorðnum mótorhjólamönnum, fimm ára krökkum og fimmtugum konum.

 Við fyrstu sýn virðast mini-motohjólin vera hálfgerður brandari, fullorðið fólk sem brunar eftir braut á alltof litlum mótorhjólum sem líta út fyrir að vera smíðuð fyrir fjögurra ára börn. Kristmundur Birgisson segir að þau séu þó að minnsta kosti jafn skemmtileg og stærri mótorhjól.
  „Ég á Hondu CBR 1000-hjól líka, það er ekkert síðra að fara út á litla kvikindinu,“ segir Kristmundur. Til að gefa einhverja hugmynd um hversu lítil mini-motohjólin eru, þá eru aðeins 40 cm frá götu upp í sæti. Þau vega 23 kg með fullan tank af bensíni og komast upp í 60 km hraða. Þau eru ætluð í keppni og eru því á sléttum, mjúkum dekkjum með mikið veggrip. Vélarnar eru 49 rúmsentimetra tvígengisvélar sem toga 4,5 Nm á 15.000 snúningum.
   „Maður þarf enga reynslu af öðrum hjólum til að ráða við þessi. Það getur auðvitað ekki gert annað en að hjálpa, en er ekki nauðsynlegt. Við höfum verið að hjóla niðri við Klettagarða og allir sem hafa komið þangað og viljað prófa hafa fengið að prófa, meira að segja fimmtugar konur sem höfðu gaman af,“ segir Kristmundur sem flutti sjálfur inn fyrsta hjólið fyrir um það bil ári.
  „Þá lenti ég í veseni við tollinn því hjólið var ekki með fastanúmeri og því ekki hægt að skrá það. Ég hafði samband við framleiðandann og bað  hann um að setja fastanúmer á þau og síðan hefur innflutningurinn gengið vel.“ Kristmundur byrjaði í mótorsportinu á stórum amerískum bílum í kringum 1986 og segir mini-moto-hjólin skemmtilegri að mörgu leyti. „Þetta er líka miklu ódýrara og tekur mikið minna pláss í skúrnum. Svo er hægt að henda hjólinu í skottið og fara með það hvert sem er. 
  “ Í sumar verða haldin tvö mót fyrir mini-moto en næsta sumar verður haldin mótaröð undir merkjum GP-Ísland. Til þess að vera löglegur í keppni þarf ökumaður að vera 12 ára eða eldri. Kristmundur segir þó að börn frá 5 ára aldri ráði vel við hjólin. Og það þarf ekki að kosta mjög mikið að byrja í sportinu. „Hjólin kosta 69.000 kr. í vefverslun okkar á fingrafar.is,“ segir Kristmundur. „Svo þarf að vera í góðum galla eða með góðar hlífar og með  þokkalegan hjálm. Maður kemst af með 100.000 krónur sem er ekki mikið í mótorsporti.“
 Kristmundur og félagar hjóla flest góðviðriskvöld á milli Sindra og vélaverkstæðis Heklu í  Klettagörðum. Áhugasömum er bent á að leggja leið sína þangað til að prófa.
einareli@frettabladid.is
Fréttablaðið 16.08.2006