FJÖLMARGIR Hafnfirðingar þekkja Hjördísi Guðbjörnsdóttur, sem nú er að láta af störfum sem skólastjóri Engidalsskóla.
Þar hefur hún ráðið ríkjum í 28 ár og annast uppfræðslu hjá nokkrum kynslóðum Hafnfirðinga. Þar áður kenndi hún við Öldutúnsskóla og hefur samtals varið 43 árum ævi sinnar í uppfræðslu ungdómsins. „Það er betra að hætta í fullu fjöri en að lognast út af í starfi. Þetta er erfitt og andlega slítandi starf og mér finnst þetta orðið gott,“ segir Hjördís.
Það eru ávallt tímamót þegar vinnustaður er yfirgefinn í síðasta sinn en það er hugur í Hjördísi, sem hélt upp á sextugsafmælið fyrir þremur árum með því að taka mótorhjólapróf. „Börnin voru farin að heiman og ég var orðinn sjálfs míns herra og ákvað að láta gamlan draum rætast.“ Þá um haustið hafði hún keypt splunkunýtt Yamaha 535 sem hún gaf sjálfri sér í jólagjöf. Það var látið standa inni í forstofu skreytt jólaljósum yfir hátíðina. „Ég hef engan bílskúr þannig að ég sagði við yngsta strákinn minn að það væri von á pakka með sendibíl og bað hann um að hjálpa sendibílstjóranum að koma honum inn í hús. Pakkinn ætti að fara inn í forstofuherbergið. Drengurinn tók síðan á móti mótorhjólinu og varð þá að orði að oft hefði hún mamma þótt skrýtin en aldrei eins og nú.“ Núna nýtur Hjördís þess að fara í stuttar ferðir innanbæjar á hjólinu íklædd níðsterkum mótorhjólagalla úr kevlar og innfæddir þekkja vart aftur gamla skólastjórann sinn.
„Ég held að fólki finnist þetta dálítið broslegt. Mig hafði alltaf langað til þess að prófa mótorhjólasportið. Ætli ástæðan sé ekki sú að ég er spennufíkill að eðlisfari. Kannski að það sé einsdæmi að skólameistari taki upp slíka iðju á gamalsaldri,“ segir Hjördís og hlær. „Ég hef áhyggjur af ungum mönnum á mótorhjólum sem keyra eins og brjálæðingar, en þetta er skemmtileg íþrótt ef varlega er farið. Ég samþykkti aldrei að synir mínir þreyttu mótorhjólapróf. En nú ræð ég engu lengur og einn sona minna var núna að taka sitt próf. Það eru allir farnir að heiman og ég hef engin völd lengur. Ég held samt að foreldrar séu ekki spenntir fyrir því að börn þeirra taki mótorhjólapróf í ljósi allra þeirra slysa sem verða. Þetta horfir öðruvísi við með eldra fólk sem verður frekar stöðvað fyrir of hægan akstur heldur en hraðan.“ Hjördís hjólar mest um helgar og bara í góðu veðri. Hún velur að fara í hjólaferðir snemma morguns eða um kvöldmatarleytið þegar umferðin er sem minnst. Engu að síður er hún í þeim hópi hjólamanna sem hafa dottið. „Það var í einni af mínum fyrstu ferðum á hjólinu að stór jeppi ók í veg fyrir mig á umferðarljósum. Sem betur fer var ég á hægri ferð og náði að stöðva snögglega en ég missti hjólið yfir á vinstri hliðina. Ég slasaðist ekki en ég fékk byltuna,“ segir Hjördís.
gugu@mbl.is
Morgunblaðið
4.09.2006