2.2.00

Grímur Jónsson safnar gömlum mótorhjólum:

Menningarverðmæti fólgin í gömlum hjólum


Ég hef alltaf verið mikill safnari í mér og gömul mótorhjól eru bara einn angi af þvi. Það hefur hins vantað á að timinn sé nægur til að gera hjólin upp og lagfæra þau," segir Grímur Jónsson sem á merkilegt safn gamalla mótorhjóla.

 Eitt merkilegasta hjólið i safni Gríms er Henderson-hjól frá 1919. Hjólið eignaðist Grímur fyrir 30 árum en segist enn eiga langt í land með að gera það ökufært. „Þetta er skemmtilegt hjól og mér finnst líklegt að ég sé þriðji eigandinn að því. Það var nú tilviljun að ég rakst á það á sínum tíma hjá honum Inga í ruslinu. Hann fór á því um allar sveitir þegar hann vann sem rafvirki á sumrin. Sá sem átti hjólið fyrstur og flutti það hingað til lands var hins vegar maður að nafni Ingólfur Espholin," segir Grímur.
Meðal annarra merkra gripa í safni Gríms má nefna BSA frá 1946, Ariel frá 1945, Sarolan frá 1950 og Royal Enfield frá 1937. „Þetta eru forverarnir og auðvitað eru fólgin ákveðin menningarverðmæti í þeim. Ég er ansi hræddur um að margir góðir gripir hafi lent á haugunum í áranna rás," segir Grímur. Hvenær hið merka Henderson-mótorhjól Gríms kemst á götuna er óráðið. „Að gera upp forngripi sem þessa kostar mikla yfirlegu og það fer mikill tími í að útvega varahluti. Ég stefni á að klára Henderson-inn en hvenær það verður get ég ekki sagt um," segir Grímur Jónsson.
DV
1 febrúar  2000

es. 2020
Þess má geta að Henderson hjólið náði Grímur að klára og það án vafa merkilegasta mótorhjólið á Mótorhjólasafninu á Akureyri 

1.2.00

Hjón í Vélhjólafélagi gamlingja endursmíða mótorhjól:

Erum að gera upp Harley '31

Einar Ragnarsson er í Vélhjólafélagi gamlingja sem er félagsskapur þeirra sem aka á gömlum mótorhjólum og menn eru 34. Hann hefur ásamt konu sinni, Dagnýju Hlöðversdóttur, talsvert fengist við að gera upp gömul mótorhjól..


„Við höfum eitthvað komið nálægt þessu. Við erum búin að gera upp eina fjóra Harleya," segir Einar og á þar að sjálfsögðu við þá nafntoguðu mótorhjólategund, Harley Davidson.
„Við erum reyndar búin að selja þá alla aftur, en við erum með ein sex eða sjö gömul hjól sem við eigum eftir að gera upp. Elsta hjólið sem ég hef átt við er '31- módel af Harley. Ég held að elsta hjólið sem búið er að gera upp og sést hér á gótum sé af árgerðinni 1938, en það er breskt af gerðinni Ariel."
- Hvað um varahluti í svo gömul hjól? 
„Þetta er til víða, en það tekur bara tíma að finna þetta hér og þar um heiminn. Það er mest til af breskum hjólum og gott að fá í þau varahluti. Það er líka mikill áhugi í Bretlandi og þeir virðast halda þessu lengi við og framleiða enn varahluti í gömul hjól."
- Eru þá ekki víða til hjól á háaloftum og í skúrum sem eru að grotna niður?
„Eflaust eitthvað, annars er orðinn svo mikill áhugi á að gera þetta upp að ekki liggur mikið af þessu. Menn eru að sanka að sér hjólum til að gera upp. Maður er þó alltaf að heyra sögur af einhverjum gullgripum sem hefur verið fargað."
 - Hvað ertu að gera upp núna?
 „Það er Harley '31 og það er verið að sprauta á því tankinn, bretti og annað. Konan mín á reyndar þetta hjól. Svo er ég líka með BSA 1945 módel."
 -HKr.
DV
1.2.2000