2.2.00

Grímur Jónsson safnar gömlum mótorhjólum:

Menningarverðmæti fólgin í gömlum hjólum


Ég hef alltaf verið mikill safnari í mér og gömul mótorhjól eru bara einn angi af þvi. Það hefur hins vantað á að timinn sé nægur til að gera hjólin upp og lagfæra þau," segir Grímur Jónsson sem á merkilegt safn gamalla mótorhjóla.

 Eitt merkilegasta hjólið i safni Gríms er Henderson-hjól frá 1919. Hjólið eignaðist Grímur fyrir 30 árum en segist enn eiga langt í land með að gera það ökufært. „Þetta er skemmtilegt hjól og mér finnst líklegt að ég sé þriðji eigandinn að því. Það var nú tilviljun að ég rakst á það á sínum tíma hjá honum Inga í ruslinu. Hann fór á því um allar sveitir þegar hann vann sem rafvirki á sumrin. Sá sem átti hjólið fyrstur og flutti það hingað til lands var hins vegar maður að nafni Ingólfur Espholin," segir Grímur.
Meðal annarra merkra gripa í safni Gríms má nefna BSA frá 1946, Ariel frá 1945, Sarolan frá 1950 og Royal Enfield frá 1937. „Þetta eru forverarnir og auðvitað eru fólgin ákveðin menningarverðmæti í þeim. Ég er ansi hræddur um að margir góðir gripir hafi lent á haugunum í áranna rás," segir Grímur. Hvenær hið merka Henderson-mótorhjól Gríms kemst á götuna er óráðið. „Að gera upp forngripi sem þessa kostar mikla yfirlegu og það fer mikill tími í að útvega varahluti. Ég stefni á að klára Henderson-inn en hvenær það verður get ég ekki sagt um," segir Grímur Jónsson.
DV
1 febrúar  2000

es. 2020
Þess má geta að Henderson hjólið náði Grímur að klára og það án vafa merkilegasta mótorhjólið á Mótorhjólasafninu á Akureyri