1.2.00

Hjón í Vélhjólafélagi gamlingja endursmíða mótorhjól:

Erum að gera upp Harley '31

Einar Ragnarsson er í Vélhjólafélagi gamlingja sem er félagsskapur þeirra sem aka á gömlum mótorhjólum og menn eru 34. Hann hefur ásamt konu sinni, Dagnýju Hlöðversdóttur, talsvert fengist við að gera upp gömul mótorhjól..


„Við höfum eitthvað komið nálægt þessu. Við erum búin að gera upp eina fjóra Harleya," segir Einar og á þar að sjálfsögðu við þá nafntoguðu mótorhjólategund, Harley Davidson.
„Við erum reyndar búin að selja þá alla aftur, en við erum með ein sex eða sjö gömul hjól sem við eigum eftir að gera upp. Elsta hjólið sem ég hef átt við er '31- módel af Harley. Ég held að elsta hjólið sem búið er að gera upp og sést hér á gótum sé af árgerðinni 1938, en það er breskt af gerðinni Ariel."
- Hvað um varahluti í svo gömul hjól? 
„Þetta er til víða, en það tekur bara tíma að finna þetta hér og þar um heiminn. Það er mest til af breskum hjólum og gott að fá í þau varahluti. Það er líka mikill áhugi í Bretlandi og þeir virðast halda þessu lengi við og framleiða enn varahluti í gömul hjól."
- Eru þá ekki víða til hjól á háaloftum og í skúrum sem eru að grotna niður?
„Eflaust eitthvað, annars er orðinn svo mikill áhugi á að gera þetta upp að ekki liggur mikið af þessu. Menn eru að sanka að sér hjólum til að gera upp. Maður er þó alltaf að heyra sögur af einhverjum gullgripum sem hefur verið fargað."
 - Hvað ertu að gera upp núna?
 „Það er Harley '31 og það er verið að sprauta á því tankinn, bretti og annað. Konan mín á reyndar þetta hjól. Svo er ég líka með BSA 1945 módel."
 -HKr.
DV
1.2.2000

26.1.00

Tætt um ísinn á mótorhjólum

 
Vinsælt að þeysa á Leirtjörn og Hafravatni

Ísakstur á mótorhjólum er vaxandi grein vetraríþrótta hér á landi og kunnugir telja að um 30% aukning hafi orðið á ári í þessu sporti síðastliðin fjögur ár. 
Reynir Jónsson er einn þeirra kappa sem stundar akstur á ís. Hann er búinn að koma sér upp nýju Kawasaki KX 250 mótorhjóli. Hann segir að líklega séu um 60 manns sem stundi þetta sport í dag á Reykjavíkursvæðinu. „Við höfum mest verið á Leirtjörn og Hafravatni að undanförnu. 
Um fyrri helgi voru 30 manns á laugardegi og 20 manns á sunnudegi." Reynir segist hins vegar ekkert nota mótorhjólið á götunum heldur einungis utan vega. 
Auk þess að vera á vötnum nýta menn harðfenni þegar það gefst. Mótorhjólamenn hafa keppt sín á milli við Reykjavík, á Pllinum á Akureyri, Mývatni og víðar. 
Eins og gefur að skilja dugar ekki að vera á venjulegum sumardekkjum í ísakstri. Flestir nota svokölluð Trelleborg-dekk sem eru með ílímdum karbídnöglum sem standa 1 sentímetra út úr dekkjunum. Þeir alhörðustu skrúfa einfaldlega skrúfur í dekkin, kannski 1.200 skrúfur í hvert dekk. -HKr.