26.1.00

Tætt um ísinn á mótorhjólum

 
Vinsælt að þeysa á Leirtjörn og Hafravatni

Ísakstur á mótorhjólum er vaxandi grein vetraríþrótta hér á landi og kunnugir telja að um 30% aukning hafi orðið á ári í þessu sporti síðastliðin fjögur ár. 
Reynir Jónsson er einn þeirra kappa sem stundar akstur á ís. Hann er búinn að koma sér upp nýju Kawasaki KX 250 mótorhjóli. Hann segir að líklega séu um 60 manns sem stundi þetta sport í dag á Reykjavíkursvæðinu. „Við höfum mest verið á Leirtjörn og Hafravatni að undanförnu. 
Um fyrri helgi voru 30 manns á laugardegi og 20 manns á sunnudegi." Reynir segist hins vegar ekkert nota mótorhjólið á götunum heldur einungis utan vega. 
Auk þess að vera á vötnum nýta menn harðfenni þegar það gefst. Mótorhjólamenn hafa keppt sín á milli við Reykjavík, á Pllinum á Akureyri, Mývatni og víðar. 
Eins og gefur að skilja dugar ekki að vera á venjulegum sumardekkjum í ísakstri. Flestir nota svokölluð Trelleborg-dekk sem eru með ílímdum karbídnöglum sem standa 1 sentímetra út úr dekkjunum. Þeir alhörðustu skrúfa einfaldlega skrúfur í dekkin, kannski 1.200 skrúfur í hvert dekk. -HKr.