19.1.00

Dekk fyrir ísinn

 

Bæta við myndatexta

ÍSDEKK eru af ýmsum stærðum og gerðum. 

Í stuttu máli má skipta nagladekkjunum í tvennt; þau sem menn kaupa fullbúin og flestir nota og svo hin sem eru heimasmíðuð og oft æði skrautleg og gróf en gefa þeim mun meira grip á ísnum.

 Menn hafa ýmsar kenningar um hvernig best sé að búa til ísdekk en uppskriftin að ekta íslensku skrúfudekki samanstendur í grófum dráttum af heilum haug af stálboltum, 600–700 stykkjum sem þegar upp er staðið geta þyngt dekk um næstum 1,5 kíló! 

Venjulega eru miðlungshörð kubbadekk notuð til verksins og þar sem venjulegt kubbadekk hefur nærri 200 kubba og í stærstu kubbana eru oftast settir tveir stálboltar er ekki óeðlilegt að 350 bolta taki að negla hvert dekk. Svo er borvélin notuð til að bora lítið gat áður en boltarnir eru skrúfaðir í og festir með ró í annan endann. Ekki er óalgengt að menn lími boltana fasta í dekkin því oft eru átökin í akstrinum ansi mikil. 

Heimasmíðuð dekk eru ekki eins algeng á ísnum og þau sem maður kaupir tilbúin úti í næstu mótorhjólabúð enda er ansi tímafrekt að útbúa slíkt dekk. 

Tilbúin dekk (oftast Michelin og Trelleborg) hafa ekki eins stóra nagla en eru fantagóð og endast mönnum yfirleitt í nokkur ár. Það lætur nærri að verð á slíkum dekkjum sé nærri 60 þúsundum fyrir parið sem er ekki svo langt frá því sem kostar að búa til heimatilbúið skrúfudekk þegar allt er talið (efniskostnaður, vinna og bjór). 

Að lokum má svo nefna ísnáladekkin en þau hafa langar grannar nálar sem gefa geysilega mikið grip á ísnum og þyngja dekkin ekki mikið. Þegar ég segi mikið grip meina ég að það er svipað og þegar við ökum á góðu malbiki að sumri. Þessi dekk eru mjög algeng í keppnum en þola ekki akstur í möl og grjóti. ÞK