21.4.78

Fullgildur í róadrace hvar sem er í Evrópu

Bílablaðið Rabbar stuttlega við Gustaf Þórarinsson

Að þessu sinni er ekki sagt frá neinu ákveðnu mótorhjóli, heldur mótorhjólakappa. Sá heitir Gústaf Þórarinsson og hefur verið búsettur í Svíþjóð í tæp fjögur ár. Hans helzta frístundaiðja er að keppa á mótorhjólum. 

Síðan Gustaf fluttist til svíþjóðar hefur hann æft og æft, og ernú svo komið að hann keppir opinberlega á hjóli sínu - sem er Yamaha 125. Og upp á vasann hefur hann skilríki, sem sanna að hann sé löglegur keppandi í Road Raceing hvar sem er í Evróopu.
Er bílablaðið hitt Gustaf að máli fyrir stuttu sagði hann sínar ekki sléttar. Í síðustu keppni hafði hann náð bezta startinu og haldið foristunni lengst framan af,- eða þar til bremsurnar fóru í lás að framan, svo að hann varð að hætta keppni.  Þetta kvað Gustaf geta komið fyrir, þegar ekki eru til nógir peningar til að skipta um það, sem farið er að slitna eða sjá á að einhverju leyti.
Bílablaðið bað Gustaf Þórarinssin að lýsa í stuttu máli hjólinum, sem hann ekur á.

Gustaf ekur á gulu og rauðu hjóli sem er rækilga merkt Íslenska fánanum á báðum hliðum. Auk þess hefur hann látið sauma fánann í búning sinn. - Þó Gústaf hafi sænsk keppnisréttindi , þá ekur hann sem íslendingur.


Gustaf Þórarinsson


"Hjólið, sem ég nota" sagði Gustaf, "er smíðað sem keppnis hjól, og verður því að vera sem léttast, - vegur ekki nema 80 kg. Það er af Yamaha gerð 125cc og fimm gíra. Það er hægt að þenja þetta hjól hátt í 200kílómetra hraða á beinni braut, svo að það er ekkert grín að detta á hausinn í hita leiksins."

Bílablaðið 1977
8.10.77

Íslandsmeistaramótið í sandspyrnu 1977

Útbúnaðurinn annar en almennt gerist.

ÞAÐ er óhætt að segja að pinninn hafi verið pískaður á fyrsta íslandsmeistaramótinu í sandspyrnu sem fram fór í landi Hrauns í Ölfusi um helgina. 

Þegar blaðamann og ljósmyndara Mbl. bar að garði á sandeyrunum þar eystra voru menn að lokaprófa farkostina í nágrenni keppnisbrautarinnar. Kváðu þaðan miklar drunur og sandstrókarnir stóðu langt og lengi aftur úr jeppunum, fólksbílunum og mótorhjólunum sem þar voru. Í öllum hamaganginum hafa margir bensínlítrarnir áreiðanlega brunnið.


Mót þetta var haldið af Kvartmíluklúbbnum. Hefur sá félagsskapur reyndar haldið sams konar mót tvisvar áður á þessum stað, en nú var haldið íslandsmeistaramót í fyrsta sinn. Kvartmíluklúbbnum hefur nýlega áskotnazt fullkominn rafeinda- og fótóselluútbúnaður sem notaður er við svipaðar keppnir á erlendri grund, og sögðu framámenn klúbbsins að tvímælingar væru nú miklu nákvæmari en áður, og reyndar eins nákvæmar og þær nokkru sinni gætu orðið. Að erlendri fyrirmynd var brautin höfð 91.44 metrar, þ.e. 100 enskir yardar. Áður hefur hún verið 100 metrar og teljast þeir tímar sem nú náðust því vera íslandsmet. 

Talsverður mannfjöldi horfði á keppnina, eða hátt á annað þúsund manns.

Keppt var í þremur flokkum i sandspyrnunni, jeppaflokki, fólksbílaflokki og í mótorhjólaflokki. Sex jeppar, sex fólksbílar og níu mótorhjól tóku þátt í keppninni. Fyrst fengu menn að fara eina æfingaferð í brautinni til að kynnast hinum nýja útbúnaði en notað var svonefnt „jólatré" til að ræsa bílana, en það er sérstök ljósaröð á láréttu statífi. 
Síðan tók alvaran við, og fóru menn brautina tvisvar í undankeppninni. Fram var haldið þar til þeir leiddu saman hesta sína, sem tveimur beztu tímunum höfðu náð í undanrásunum. Í öllum átökunum sem keppninni fylgdi var tættur upp mikill sandur og kraftmestu farartækin jusu honum yfir áhorfendur sem stóðu um 20 metra fyrir aftan rásmarkið.

Þátttakendur í sandspyrnukeppninni lögðu greinilega mikið í fararskjóta sína svo að þeir næðu sem beztum árangri í keppninni. Voru tryllitækin því nokkuð öðruvisi útlits en hinn almenni vegfarandi á að venjast. Á jeppunum og fólksbílunum voru t.d. mjög breið dekk, felgan var í mörgum tilfellum helmingi breiðari en gerist á þjóðvegunum.
Þá höfðu sumir, sérstaklega jeppaeigendurnir, brallað ýmislegt í vélum sínum og þannig aukið kraft og snerpu fararskjótanna verulega. Í fólksbilaflokknum fór einna mest fyrir bifreið af Triumph-gerð, en hjóla- og vélarútbúnaður hennar er mörgum framandi. 

Úrslitin í keppninni urðu þau að Hafsteinn Hafsteinsson sigraði í jeppaflokki á 6.38 sekúndum. Ók hann Jeep árgerð '73, en sú bifreið er með 401 rúmsentimetra AMC vél. 
Annar varð Helgi Agústsson á 6.91 sek. Jeepster, árgerð '67 og með 350 rúmsentimetra Chevrolet vél. 

Í fólksbílaflokknum sigraði Hjörleifur Hilmarsson á Chevy Nova bifreið á 7.43 sekúndum. Vél þess farkosts er 350 rúmsentimétrar. 
Annar varð Kristinn Kristinsson á Triumph á 7.70 sekúndum, en vélin í þeirri bifreið er 289 rúmsentimetrar.
 
Í mótorhjólaflokknum varð Pétur Þorgrímsson skarpastur á 6.35 sekúndum. Ók hann á Montesa Cappra hjóli. 
Annar varð Jón Ö. Valsson á Suzuki 370 á tímanum 6.39 sekúndum. —
ágás. 
MBL 8 okt 1977