8.10.77

Íslandsmeistaramótið í sandspyrnu 1977

Útbúnaðurinn annar en almennt gerist.

ÞAÐ er óhætt að segja að pinninn hafi verið pískaður á fyrsta íslandsmeistaramótinu í sandspyrnu sem fram fór í landi Hrauns í Ölfusi um helgina. 

Þegar blaðamann og ljósmyndara Mbl. bar að garði á sandeyrunum þar eystra voru menn að lokaprófa farkostina í nágrenni keppnisbrautarinnar. Kváðu þaðan miklar drunur og sandstrókarnir stóðu langt og lengi aftur úr jeppunum, fólksbílunum og mótorhjólunum sem þar voru. Í öllum hamaganginum hafa margir bensínlítrarnir áreiðanlega brunnið.


Mót þetta var haldið af Kvartmíluklúbbnum. Hefur sá félagsskapur reyndar haldið sams konar mót tvisvar áður á þessum stað, en nú var haldið íslandsmeistaramót í fyrsta sinn. Kvartmíluklúbbnum hefur nýlega áskotnazt fullkominn rafeinda- og fótóselluútbúnaður sem notaður er við svipaðar keppnir á erlendri grund, og sögðu framámenn klúbbsins að tvímælingar væru nú miklu nákvæmari en áður, og reyndar eins nákvæmar og þær nokkru sinni gætu orðið. Að erlendri fyrirmynd var brautin höfð 91.44 metrar, þ.e. 100 enskir yardar. Áður hefur hún verið 100 metrar og teljast þeir tímar sem nú náðust því vera íslandsmet. 

Talsverður mannfjöldi horfði á keppnina, eða hátt á annað þúsund manns.

Keppt var í þremur flokkum i sandspyrnunni, jeppaflokki, fólksbílaflokki og í mótorhjólaflokki. Sex jeppar, sex fólksbílar og níu mótorhjól tóku þátt í keppninni. Fyrst fengu menn að fara eina æfingaferð í brautinni til að kynnast hinum nýja útbúnaði en notað var svonefnt „jólatré" til að ræsa bílana, en það er sérstök ljósaröð á láréttu statífi. 
Síðan tók alvaran við, og fóru menn brautina tvisvar í undankeppninni. Fram var haldið þar til þeir leiddu saman hesta sína, sem tveimur beztu tímunum höfðu náð í undanrásunum. Í öllum átökunum sem keppninni fylgdi var tættur upp mikill sandur og kraftmestu farartækin jusu honum yfir áhorfendur sem stóðu um 20 metra fyrir aftan rásmarkið.

Þátttakendur í sandspyrnukeppninni lögðu greinilega mikið í fararskjóta sína svo að þeir næðu sem beztum árangri í keppninni. Voru tryllitækin því nokkuð öðruvisi útlits en hinn almenni vegfarandi á að venjast. Á jeppunum og fólksbílunum voru t.d. mjög breið dekk, felgan var í mörgum tilfellum helmingi breiðari en gerist á þjóðvegunum.
Þá höfðu sumir, sérstaklega jeppaeigendurnir, brallað ýmislegt í vélum sínum og þannig aukið kraft og snerpu fararskjótanna verulega. Í fólksbilaflokknum fór einna mest fyrir bifreið af Triumph-gerð, en hjóla- og vélarútbúnaður hennar er mörgum framandi. 

Úrslitin í keppninni urðu þau að Hafsteinn Hafsteinsson sigraði í jeppaflokki á 6.38 sekúndum. Ók hann Jeep árgerð '73, en sú bifreið er með 401 rúmsentimetra AMC vél. 
Annar varð Helgi Agústsson á 6.91 sek. Jeepster, árgerð '67 og með 350 rúmsentimetra Chevrolet vél. 

Í fólksbílaflokknum sigraði Hjörleifur Hilmarsson á Chevy Nova bifreið á 7.43 sekúndum. Vél þess farkosts er 350 rúmsentimétrar. 
Annar varð Kristinn Kristinsson á Triumph á 7.70 sekúndum, en vélin í þeirri bifreið er 289 rúmsentimetrar.
 
Í mótorhjólaflokknum varð Pétur Þorgrímsson skarpastur á 6.35 sekúndum. Ók hann á Montesa Cappra hjóli. 
Annar varð Jón Ö. Valsson á Suzuki 370 á tímanum 6.39 sekúndum. —
ágás. 
MBL 8 okt 1977