31.12.21
25.8.21
Vel heppnað tímaat hjá mótorhjólahópi KK
Það var góð mæting á tímaat mótorhjólahóps Kvartmíluklúbbsins, en tíu hjól tóku þátt á hringakstursbrautinni við Kvartmílubrautina í gær.
Keppendur í tímaati stilla sér upp fyrir myndatöku.
Ljósmynd/B&B Kristinsson
Tímaatið fer þannig fram að brautin er opin fyrir akstur í ákveðinn tíma og er keppendum frjálst að taka eins marga hringi og þeir vilja innan þeirra tímamarka, en tíminn sem farið var eftir var ein klukkustund.
Töluverðar breytingar hafa verið gerðar á brautinni frá því í fyrra, beygjum bætt við og malbikaður nýr veghluti, og var því töluverð eftirvænting eftir niðurstöðunni um besta tíma í brautinni við núverandi aðstæður.
Ármann Guðmundsson kemur út úr beygju. Ljósmynd/B&B Kristinsson
Íslandsmeistarinn fljótastur
Það var reynsluboltinn Ármann Guðmundsson sem átti besta árangur kvöldsins á tímanum 1:26,195 en Ármann átti einnig brautarmetið á brautinni fyrir breytingar er hann tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrra.
Mikið líf á brautinni í sumar
Það hefur verið töluvert líf í hringakstri Kvartmíluklúbbsins í sumar, bæði hjá bílahóp og mótorhólahóp.
Félagarnir Jóhann Sigurjónsson og Árni Þór Jónasson í brautinni í gær.
Ljósmynd/B&B Kristinsson
Einhver nýliðun er alltaf ár frá ári, en kjarninn hefur haldist nokkuð stöðugur og margt um skemmtileg tæki á brautinni, bæði sérútbúin mótorhjól og bíla, ásamt götuskráðum ökutækjum. Brautin er liðlega 2,5 km löng.
mbl | 25.8.2021
https://www.mbl.is/sport/akstur/2021/08/25/vel_heppnad_timaat_hja_motorhjolahopi_kk/
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)