 |
| Hjörtur L. Jónsson og Ólafur í ísakstri. |
Hjörtur Jónsson er einn af elstu
meðlimum Sniglanna. „Ég er
snigill númer 56, kom inn á fyrsta
árinu, haustið 1984, og búinn að
vera þar síðan. Ég var aðlaður rétt
fyrir aldamótin, ’97 minnir mig.
Var þá gerður að heiðursfélaga
fyrir vel unnin störf fyrir félagið.
Ég hef verið mikið í ýmsum viðburðastjórnum, sá um landsmót,
sá um tíu ára afmæli Sniglanna,
á sínum tíma héldu þeir kvartmílukeppnir og Enduro-keppnir,
ég sá um þetta allt saman. Ég hef
verið mikið í skipulagningu og
viðburðastjórnun af ýmsu tagi og
þess háttar.“
Áhugi Hjartar kviknaði eftir
kynni hans af skellinöðrum. „Ég
keyrði fyrst skellinöðru ’72, tólf
ára gamall. Svo eignast ég skellinöðru ’76 og síðan ’83 hef ég alltaf
átt eitt eða fleiri mótorhjól. Þetta
var alltaf draumur, maður sá þetta
í blöðum og fannst þetta spennandi. En mér er sagt að þegar ég var
smágutti, 3-4 ára, þá hafi ég grátið
af hræðslu þegar þetta keyrði fram
hjá.“
Er eitthvað sem stendur upp úr
eða er sérstaklega eftirminnilegt?

„Vonda minningin kemur oft
fyrst upp í hugann, þegar maður
missti fyrsta mótorhjólafélagann
í mótorhjólaslysi. Það situr lengst
og er erfiðast að vinna í. Af öllum
viðburðunum, þá var það ekki
beint tengt Sniglunum en þegar
mótorhjól á Íslandi áttu aldarafmæli árið 2005 var haldin stór
hátíð á Sauðárkróki, Hundrað ára
afmæli mótorhjólsins. Ég skipulagði hana og fékk til liðs við mig
þrettán mótorhjólaklúbba til að
standa að hátíðinni. Það er eitt af
því sem gefur mér alltaf gæsahúð
vegna þess hvað allt tókst vel, fyrir
utan veðrið, það var hundleiðinlegt. Hátíðin fór með eindæmum
vel fram og ekki einn einasti maður tekinn með fíkniefni eða brennivín eða fyrir hraðakstur.“
Dregið hefur verulega úr alvarlegum mótorhjólaslysum undanfarinn áratug og nefnir Hjörtur
nokkur atriði sem hafa haft áhrif.
„Fyrstu tíu ár Snigla létust fimmtán í mótorhjólaslysum en næstu
tíu ár létust aðeins sjö. En það má
þakka því að gallarnir eru betri,
hjólin betri, með betri bremsum
og svoleiðis. Þetta eru alltaf
að verða öruggari og öruggari
farartæki. Svo er skítakuldi hér,
hávaðarok og ausandi rigning og
allir mótorhjólamenn eiga svo
góða galla þannig að ef þeir fljúga
á hausinn þá eru þeir ágætlega
varðir.“
Prestur eða morðingi
Það ríkir mikil virðing milli
mótorhjólamanna. „Mótorhjólamaður er alltaf mótorhjólamaður,
þegar ég mæti honum þá veifa ég
honum. Það er mikil virðing borin
fyrir samherjanum, við heilsum
alltaf. Þetta er svona úti um allan
heim, þú veist ekkert hvort þú ert
að mæta prestinum eða fjöldamorðingjanum.“
Þá er lífsgleðin áberandi. „Það
eru allir glaðir, það er enginn í fýlu.
Þú hittir aldrei mótorhjólamann í
fýlu. Mótorhjólafólk laðast hvert
að öðru, líkur sækir líkan heim.
Það er svo mikil vinátta í þessu
samfélagi og samheldni, ef það
bilar hjá einum þá hjálpast allir að
við að koma honum áfram svo að
allir komist heim.“
Hjörtur hefur líka starfað sem
leiðsögumaður. „Hálendi Íslands
er stærsta paradísin af þeim öllum.
Það er það skemmtilegasta sem
ég geri. Ég hef verið leiðsögumaður með túristum í fimmtán ár
fyrir fyrirtæki sem leigir út hjól.
Þekktasti maðurinn er væntanlega gítarleikarinn í Guns N' Roses,
Richard Fortus. Við erum vinir á
Facebook, ég fékk vinabeiðni og
var ekki alveg að kveikja. Þetta
eru 150 túristar sem ég er búinn að
taka hringinn í kringum landið.“
Óhætt er að fullyrða að
Sniglarnir hafi mótað líf Hjartar
sem kynntist konu sinni í samtökunum. „Það var á landshátíð
Sniglanna árið 1987 í Húnaveri
sem við duttum saman. Við vorum
búin að þekkjast lengi. Hún er
númer 248.“
Fyrsta ferðin endaði ofan í skurði
Sonur Hjartar, Ólafur Hjartarson,
er 23 ára og segja má að hann hafi
alist upp innan um mótorhjól.

„Fjölskyldan hefur alltaf verið
í þessu, ég hef aldrei munað eftir
öðru. Ég hef örugglega farið á
mótorhjól þegar ég verið 2-3 ára en
ég keyrði fyrst á sex ára afmælisdaginn minn. Það endaði ofan í
skurði og ég fékk ör á kinnina.“
Ólafur var með eina ósk þegar
hann gekk til liðs við Sniglana. „Ég
bað sérstaklega um að númerið
mitt myndi enda á 56, af því að
það er númerið hjá pabba. Það eru
2.400 manns á milli okkar.“
Móðurafi Ólafs hjólar líka enn
reglulega, orðinn 76 ára. „Foreldrar
mínir kynntumst í gegnum Sniglana og svo er afi minn líka með hjól,
honum datt það í hug þegar hann
var sextugur. Hann var á skellinöðru í gamla daga, þroskaðist upp
úr því en keypti sér svo Harley.“
Feðgarnir Hjörtur og Ólafur
hafa átt margar gæðastundir á
hjólunum. „Ég hjóla allt árið, legg götuhjólinu kannski í nóvember
en ég tek þá út torfæruhjólið og þá
förum við pabbi að keyra á ís, eins
og á Hafravatni og upp í fjöll.“
Líkt og margir, nefnir Ólafur
einnig frelsið sem helsta aðdráttaraflið. „Það er bara frelsið, það tala
allir um þetta frelsi og svo er þetta
persónulega bara drullugaman.“
Fréttablaðið 5. MAÍ 2020