Mótorhjólaferð Hallgríms Guðsteinssonar vélstjóra á framandi slóðir
Hallgrímur Guðsteinsson var sólbrúnn, eins og Íslendingur sem er nýkominn úr sólinni á Spáni, þegar blaðamaður Skessuhorns hitti hann að máli í Dularfullu búðinni á Akranesi. En Hallgrímur fann ekki sólina á Spáni, eins og holskefla af Íslendingum gerði um páskana. Hann fann sólina í Kambódíu í tíu daga mótorhjólaferð í byrjun mars. „Það var hugmynd að kíkja í einhverja ferð þarna austur frá,“ segir Hallgrímur með brosi á vör. Hann var einn í hópi níu manna úr mótorhjólaklúbbnum Sober Riders MC sem fór í ferðina til Kambódíu. Félagarnir keyptu ferðapakka af tælensku fyrirtæki, sem heitir Big Bike Tours og skipuleggur ferðir sem þessar fyrir erlenda ferðamenn.
Bræðralag á hjólum
Hallgrímur er menntaður vélstjóri en starfar sem vélvirki á verkstæði Norðuráls á Grundartanga.
Áður var hann sjómaður og svo er hann einnig áhugatónlistarmaður og spilar á bassa. Hann er nýlega fluttur á Akranes og kann vel við sig. Hann er einn af nokkrum félögum sem stofnuðu íslenska grein
af mótorhjólaklúbbnum Sober Riders MC, eða Edrú knapar, fyrir þrettán árum. Félagskapurinn er
líflegur mótorhjólaklúbbur tileinkaður edrúmennsku. Höfuðstöðvar klúbbsins eru í Arizona í Bandaríkjunum, en hann var fyrst stofnaður þar árið 1994. Hallgrímur hefur farið í tvær mótorhjólaferðir til Bandaríkjanna til að heimsækja aðrar greinar Sober Riders MC. Á hverju ári eru haldnar hátíðir, eða „Run“, hjá mismunandi greinum Sober Riders MC. „Ég hef tvisvar tekið þátt í Run Sober Riders MC í San Diego. Það er gaman að kynnast bræðrum í Bandaríkjunum,“ segir Hallgrímur. Á Íslandi er haldið Run einu sinni á ári,það síðasta var í Borgarfirðinum.
Hvert Run ber nafn og það íslenska heitir „Run to the Midnight Sun“. „Það voru hátt í tuttugu bræður frá Bandaríkjunum á síðusta Run okkar hér á Íslandi. Við erum allir bræður í klúbbnum. Meira að segja konur. Það eru konur í klúbbnum, en þær eru bræður.“ Með í för til Kambódíu var einmitt einn af bandarískum bræðrum hans, en samskipti milli klúbbanna eru góð.
Vel skipulögð ferð
Hugmyndin að því að fara eitthvert annað en til Bandaríkjanna í mótorhjólaferð kviknaði af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi langaði félagana á Íslandi að reyna eitthvað nýtt. Í öðru lagi var æskilegt að fara á ódýrara svæði en áður hafði verið farið á. „Við skoðuðum helling af túrum þarna niður frá og enduðum á Big Bike Tours. Þeir eru með marga túra um Laos, Kambódíu og Víetnam. En við