Mótorhjólaferð Hallgríms Guðsteinssonar vélstjóra á framandi slóðir
Hallgrímur Guðsteinsson var sólbrúnn, eins og Íslendingur sem er nýkominn úr sólinni á Spáni, þegar blaðamaður Skessuhorns hitti hann að máli í Dularfullu búðinni á Akranesi. En Hallgrímur fann ekki sólina á Spáni, eins og holskefla af Íslendingum gerði um páskana. Hann fann sólina í Kambódíu í tíu daga mótorhjólaferð í byrjun mars. „Það var hugmynd að kíkja í einhverja ferð þarna austur frá,“ segir Hallgrímur með brosi á vör. Hann var einn í hópi níu manna úr mótorhjólaklúbbnum Sober Riders MC sem fór í ferðina til Kambódíu. Félagarnir keyptu ferðapakka af tælensku fyrirtæki, sem heitir Big Bike Tours og skipuleggur ferðir sem þessar fyrir erlenda ferðamenn.Bræðralag á hjólum
Hallgrímur er menntaður vélstjóri en starfar sem vélvirki á verkstæði Norðuráls á Grundartanga.Áður var hann sjómaður og svo er hann einnig áhugatónlistarmaður og spilar á bassa. Hann er nýlega fluttur á Akranes og kann vel við sig. Hann er einn af nokkrum félögum sem stofnuðu íslenska grein
af mótorhjólaklúbbnum Sober Riders MC, eða Edrú knapar, fyrir þrettán árum. Félagskapurinn er
líflegur mótorhjólaklúbbur tileinkaður edrúmennsku. Höfuðstöðvar klúbbsins eru í Arizona í Bandaríkjunum, en hann var fyrst stofnaður þar árið 1994. Hallgrímur hefur farið í tvær mótorhjólaferðir til Bandaríkjanna til að heimsækja aðrar greinar Sober Riders MC. Á hverju ári eru haldnar hátíðir, eða „Run“, hjá mismunandi greinum Sober Riders MC. „Ég hef tvisvar tekið þátt í Run Sober Riders MC í San Diego. Það er gaman að kynnast bræðrum í Bandaríkjunum,“ segir Hallgrímur. Á Íslandi er haldið Run einu sinni á ári,það síðasta var í Borgarfirðinum.
Hvert Run ber nafn og það íslenska heitir „Run to the Midnight Sun“. „Það voru hátt í tuttugu bræður frá Bandaríkjunum á síðusta Run okkar hér á Íslandi. Við erum allir bræður í klúbbnum. Meira að segja konur. Það eru konur í klúbbnum, en þær eru bræður.“ Með í för til Kambódíu var einmitt einn af bandarískum bræðrum hans, en samskipti milli klúbbanna eru góð.
Vel skipulögð ferð
Hugmyndin að því að fara eitthvert annað en til Bandaríkjanna í mótorhjólaferð kviknaði af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi langaði félagana á Íslandi að reyna eitthvað nýtt. Í öðru lagi var æskilegt að fara á ódýrara svæði en áður hafði verið farið á. „Við skoðuðum helling af túrum þarna niður frá og enduðum á Big Bike Tours. Þeir eru með marga túra um Laos, Kambódíu og Víetnam. En viðenduðum á að taka Kambódíutúrinn og ætluðum að enda á því að sjá kappakstur í Tælandi.“ Ekkert varð þó úr því að horfa kappakstur þar sem dagsetningin var færð og þeir misstu af kappakstrinum. „Það kom þó ekki að sök, þar sem við höfðum þá þegar farið í tíu daga frábæra mótorhjólaferð um Kambódíu. Þetta var vel skipulagður túr þar sem allt var innifalið. Við þurftum ekki einu sinni að borga bensín á hjólin. Það var allt innifalið.“
Beint af bakvakt til Tælands
„Ég var nýstiginn upp úr fótbroti. Ég tvíbrotnaði á fætinum í júní á síðasta ári í mótorhjólaslysi ogvar eiginlega ekki alveg búinn að stíga upp úr því,“ segir Hallgrímur og bætir við að hann hafi verið á báðum áttum um hvort hann ætti yfir höfuð að fara í ferðina. „En ég var búinn að borga staðfestingargjald og í einhverjum æsingi keypti ég flugfarið líka,“ segir hann hlæjandi. Það var því ekki aftur snúið. Þar sem Hallgrímur og félagar hans voru með trússbíl gat hann tekið allt með sem hann gæti vantað, óþarft var að gera ráð fyrir því koma öllu fyrir á hjólinu. Kvöldið fyrir ferðina var hann á bakvakt í Norðuráli. „Ég gerði ekki ráð fyrir að neitt myndi gerast á þeirri vakt og hafði samið við vinnufélaga að leysa mig af. En svo varð ekkert úr því,“ segir hann. Þá um nóttina voru tvö útköll og Hallgrímur mætti ósofinn á Keflavíkurflugvöll um morguninn. „Ég var sem betur fer búinn að pakka. Ég kom af bakvakt, henti afganginum í tösku og keyrði út á Keflavíkurflugvöll.“ Fyrsta flugið var til Helsinki í Finnlandi. Flugið milli Íslands og Finnlands er um þrír tímar. Næsta flug var frá Helsinki til Bangkok og það var öllu lengra, eða tíu tímar. „Ég svaf það flug samt alveg af mér.
Ég var svo þreyttur eftir að hafa unnið alla nóttina og búinn að vaka í meira en sólarhring.“
Aðlögunartími í Bangkok
Félagarnir eyddu nokkrum dögum í Bangkok. „Það var mjög gott að fá smá tíma til að aðlagast hitanum. Það var alltaf um 25-30 stiga hiti og rakt.“ Eftir aðlögun var haldið niður að strönd Tælands til borgar sem heitir Pattaya. Þaðan var jafnframt lagt af stað í ferðina til Kambódíu. Hjólað var meðfram strönd Kambódíu, upp til Phnom Penh, höfuðborgar Kambódíu, og þaðan til Siem Reap, síðan yfir landamærin til Tælands, gegnum Bankok og endað á byrjunarreit í Pattaya.Fátækt land
„Það var ævintýralegt að fara yfir landamærin til Kambódíu. Ég held að hver og einn okkar hafi þurft að skrifa undir fimm eyðublöð,“ segir hann hlæjandi. „Að fara með hjól á milli Kambódíu og Tælands er mikið mál.“ Á leið inn í Kambódíu buðust innfæddir til að aðstoða við útfyllingu skjalanna og báðu um vegabréfin þeirra til að geta aðstoðað, gegn vægu gjaldi. Félagarnir voru mjög óöruggir að afhenda ókunnugum vegabréfin, enda um dýrmæta pappíra að ræða. „Okkur var sagt að afhenda bara vegabréfin. Það væri einfaldast. En þarna vorum við aðeins farnir að kynnast því að að þarna eru allir heiðarlegir,“ segir hann. Allt fór farsællega fram og allir fengu vegabréfin heil til baka. Hans upplifun af Tælandi er góð. „En þar var vinstri umferð,“ segir hann og hlær. Hann segir að vinstri umferðin hafi ekki truflað þá mikið. „En svo kom maður yfir til Kambódíu og þar er hægri umferð en engar umferðarreglur.“ Honum hafi líka þótt nóg um sóðaskapinn í landinu. „Það var ótrúleg mengun og rusl. Það vantar innviði til að takast á við allt þetta umbúðaflóð sem er í dag.“Ferðin var góð að sögn Hallgríms. Hótelin voru öll í hæsta gæðaflokki, skipulag til fyrirmyndar og fólkið í landinu vinalegt. Það var þó nokkuð frábrugðið Íslandi, eins og við er að búast. Fyrsta kvöldið í Kambódíu fundu þeir fljótt fyrir því. Á fyrsta hótelinu fór rafmagnið af um kvöldið. Sama gerðist á veitingastaðnum sem þeir borðuðu á. Litlir díselmótorar voru á víð og dreif um borgir og bæi og knúðu litla drykkjarkæla. Flest hótelin voru svo með varaaflstöð.
Fræðst um land og þjóð
Á ferðalaginu var gert ráð fyrir því að fólk myndi vilja skoða eitthvað á leiðinni. Til dæmis var stoppað á safninu The Killing Fields, þar sem fjöldamorða Rauðu Khmeranna er minnst. „Maður gengur um og sér hauskúpur og aftökustaðinn. Maður var bara alveg í sjokki eftir að sjá þetta. Gaurinn [Pol Pot] drap tæplega einn þriðja af sinni eigin þjóð!“ Kambódía er fræg fyrir fjöldamorðRauðu Khmeranna á áttunda áratug síðustu aldar, en líka fyrir musterin í Angkor Wat. Hallgrímur og félagar hans stoppuðu þar líka til að skoða. „Þessi þjóð er rík, þótt hún sé fátæk. Hún á þessi musteri inni í skóginum.“ Musterin eru talin vera þau mikilfenglegustu á jörðinni, með mörg hundruð mustera á sama stað, þar sem nú er nútímabærinn Siem Reap. „Við vorum þarna í heilan dag sem var tæplega lágmark. Sumir eru þarna í mánuði!“ Musterin eru byggð í kringum tólftu öld og tilheyrðu fyrst hindúatrú en breyttust svo í búddamusteri með tímanum og trúbreytingum í Kambódíu. Á einhverjum tímapunkti gleymdust þau og skógurinn endurheimti svæðið og musterin hurfu í gróður. Nú er unniðað því að hreinsa burt gróðurinn og það er blússandi ferðamannaiðnaður í kringum Angkor Wat núna. Aðalmusterið á þó að standa með gróðrinum, enda er það ekki síður áhugavert fyrir ferðamenn að sjá mátt náttúrunnar í verki.
Ný upplifun og önnur væntanleg
Hallgrímur er ánægður með ferðina. Hún var góð og skemmtileg upplifun og í fyrsta sinn sem hann ferðast til Asíu. Félagarnir í klúbbnum eru þegar byrjaðir að skipuleggja næstu ferð og hyggjast fara með sama fyrirtæki í mótorhjólaferð um Laos eftir eitt og hálft ár.
klj
Skessuhorn
25.4.2018
Timarit.is
Skessuhorn
25.4.2018
Timarit.is