22.12.10

Á mótorfákum um evrópskar grundir

Hópurinn staddur í Svartaskógi þar sem hitinn var kominn yfir 30 gráður.





Fern hjón frá Suðurnesjum létu gamlan draum verða að veruleika og ferðuðust 3.800 km á mótorhjólum um Evrópu í lok sumars.

 Ferðin tók 23 daga, frá 18. ágúst fram til 10.sept. „Við höfðum farið áður styttri ferð en í þetta skiptið langaði okkur lengri og veglegri ferð,“ sögðu mótorhjólakapparnir í viðtali við Víkurfréttir, þeir Magnús Hafsteinsson, Hrafnhildur Sverrisdóttir, Rúnar Sverrisson, Margrét Ingibergsdóttir, Þórhallur Steinarsson, Oddný Magnúsdóttir, Ólafur Guðbergsson og Björk Árnadóttir. VF hitti hluta hópsins og spurði aðeins út í ferðina.


Hjólin sem hópurinn ferðaðist á voru af gerðinni Honda Goldwing og búin öllum aukahlutum eins og GPS, intercom og talstöðvum svo eitthvað sé nefnt. Það er ekki ókeypis að fara í svona langa hjólaferð en áætlaður ferðakostnaður var 500.000 kr. á hjónin en inni í þeim kostnaði var allur flutningur, bæði á fólki og hjólum, gisting og morgunmatur. Áætlunin stóðst að mestu leyti þó leiðin hafi lengst um 1.300 km.

„Ferðin lengdist aðeins miðað við áætlun. Þegar við sáum eitthvað áhugavert á leiðinni var bara tekinn krókur. Við vorum ekki bundin við eitt né neitt sem var kostur í þessari ferð,“ sagði Þórhallur. „Einnig ákváðum við að vera ekkert merkt neinum klúbbi né auglýsa að við værum frá Íslandi. Við vorum merktir í fyrri ferðinni okkar og þá lentum við í veseni í Danmörku, en þar var mótorhjólaklúbbur sem hélt við værum eitthvað gengi að leita að veseni, en hlógu svo þegar þeir sáu að þetta voru bara nokkrir félagar og alveg meinlausir.“




Voru snemma í undirbúningi

Undirbúningurinn hófst í febrúarmánuði til að ákveða hvert ætti að fara. Hver og einn kom með tillögu um hvað hann vildi sjá og skoða og var á endanum búinn til hringur sem mældist 2.500 km. Þá þurfti að bóka gistingu með geymslu fyrir hjólin, en það er nauðsynlegt að koma hjólunum í skjól. Gistingin var pöntuð með góðum fyrirvara en þessi tími er háanna tími í ferðmennsku um alla Evrópu. Einnig þurfti að koma hjólunum í flutning og varð Samskip fyrir valinu.


Skipulagning ferðarinnar var að mestu leyti lokið í byrjun maí. Júlímánuður fór svo í að yfirfara hjólin. Rúnar, sem oft er nefndur vélstjórinn, sá til þess að allir voru með nýyfirfarin hjól. „Það skiptir miklu máli að vera með allt í góðu standi þegar svona ferð er farin til að minnka líkur á að eitthvað fari úrskeðis. Bremsuklossar, olía, ný dekk, þetta þarf allt að vera í topp standi,“ sagði Rúnar.







Hópurinn fyrir framan innganginn í Swarovski safnið í Austurríki.
Frá vinstri: Þórhallur Steinarsson, Oddný Magnúsdóttir, Hrafnhildur Sverrrisdóttir,
 Rúnar Sverrisson, Margrét Ingibersdóttir, Ólafur Guðbergsson og Björk Árnadóttir.

Úr Víkurfréttum 22 des 2010

21.12.10

BÓKIN BEIÐ EFTIR OKKUR


 Zen og viðhald vélhjóla er sú metsölubók sem oftast var hafnað af forlögum áður en hún loks kom út. 121 sinnum reyndi höfundur hennar, Robert M. Pirsig, og loks í 122. skiptið fékk hann jákvætt svar. 


     Zen og Viðhald vélhjóla var gefin út í Bandaríkjunum árið 1974 og hefur hún verið þýdd á yfir 160 tungumál síðan. Þegar Sigurður Páll Sigurðsson spurði föður sinn, Sigurð A. Magnússon, rithöfund og þýðanda, hvers vegna bókin hefði aldrei verið þýdd yfir á íslensku var fátt um svör. 

    „Ég var staðráðinn í að gefa bókina út hérlendis hvað sem það kostaði,“ segir Sigurður Páll. „Án þess að tala við Eddu eða annað forlag réð ég pabba í vinnu við að þýða hana, en það var ekki erfitt að sannfæra hann þar sem honum þótti bókin ein merkilegasta bók síðustu fjörutíu ára.“

   Bókin fjallar um feðga og góðvini þeirra á mótorhjólaferðalagi frá Miðvesturríkjum Bandaríkjanna vestur til San Francisco. Faðirinn er sögumaðurinn og á meðan á ferðalaginu stendur reynir hann að ná sambandi við einfarann son sinn, oft á klaufalegan hátt.Á sama tíma veltir sögumaðurinn fyrir sér hugtakinu gæðum og fléttar heimspekilegar vangaveltur þýskra miðaldaheimspekinga, grískra heimspekinga, taóista og kristinna fræðimanna inn í ferðasöguna. 

   „Höfundurinn er í tvöfaldri leit. Annars vegar að hinni sönnu Ameríku æsku sinnar, sem hann leitar að gegnum mótorhjólið á kræklóttum hliðarvegum, og hins vegar að raungæðum. Ég verð að segja að þegar maður er búinn að lesa bókina lítur maður lífsgæði öðrum augum.“

    Sjálfur er Sigurður Páll mótorhjólamaður og líkt og faðirinn í bókinni er Sigurður A. mikill fræðimaður. Vaknar þá spurningin hvort samskipti feðganna í bókinni endurspegli á einhvern hátt samband Sigurðar og Sigurðar. „Það er ekkert leyndarmál að faðir minn var ekki drauma föðurímyndin og samskipti okkar voru stirð á fyrri árum. Nú náum við hins vegar vel saman svo það má segja að bókin lýsi ágætlega okkar samskiptum,“ segir Sigurður Páll. „Mér fannst alltaf ótrúlegt að þessi bók hefði ekki komið út fyrr, en þá var mér bent á að þessi bók hefði bara beðið eftir okkur feðgunum. Þetta er bara karma.“ tryggvi@frettabladid.is