1.4.08

Þúsundkall í bensín og engin stæði

 Hið eina sanna Piaggio Vespa® hjól


Gunnar Hansson leikari svífur um borgina á fagurgrænni vespu. Sannri Vespu Piaggio. „Þetta eru gæðahjól, einu hjólin sem svo sannarlega eru vespur,“ segir Gunnar sem flytur þau inn og selur. „Önnur hjól en af þessari tegund í sama flokki eru svo kölluð scooter-hjól,“ bætir hann við.


„Þetta er lífstíll,“ segir Gunnar Hansson um grænu Piaggio Vespuna sem hann sést þeysast um borgina á. „Ég veit að ég hef sennilega ekki valið besta tímann til að fara í bissness í öllu þessu Evrudjóki sem er búið að vera upp á síðkastið en svo er það að kannski samt tíðarandinn nú sem er einmitt sá heppilegasti til að selja Vespur enda hagkvæmir fararskjótar.“

      Gunnar segir Vespuna hafa verið hannaða af Piaggio fyrirtækinu árið 1946 þegar Ítalskt efnahagslíf hafi verið í sárum. „Það vantaði farartæki sem almenningur hafði efni á að kaupa og reka. Hjólið var hannað árið 1946 og náði strax vinsældum,“ segir Gunnar. 

„Ég er með aðstöðu til að sýna Piaggio-hjólin í versluninni Saltfélaginu auk þess sem ég rek vefsíðu: www.vespur.is þar sem ítarlegar upplýsingar má finna um þær gerðir af hjólum sem eru í boði.“ Gunnar segir þrjár vélarstærðir í boði, 50 kúbik, 125 kúbik og 250 kúbik. 125 kúbika hjólin eru góður kostur fyrir marga enda hafa þau kraft til að halda í við umferðarhraðann, geta farið á 90-100 km hraða á klukkustund. Ég fór í samgönguráðuneytið og niður á Umferðarstofu vegna þeirra hjóla til að koma því í kring að auðvelda fólki að fá próf á þessi hjól. Próf getur fólk nú öðlast á hjólunum sjálfum og þarf ekki að fara á stórt mótorhjól og taka próf á því.“ 

„Það er frábært að fara um borgina og hugsa ekkert um bílastæði og afskaplega hressandi að borga þúsundkall fyrir að fylla á tankinn á næstu bensínstöð!“








Eftir Kristjönu Guðbrandsdóttur
dista@24stundir.is

Erum ósýnileg í umferðinni



 „Vélhjólamenn eru sífellt í varnarakstri“


„Við erum ósýnileg í umferðinni og verðum að gera ráð fyrir því að aðrir ökumenn sjái okkur aldrei,“ segir séra Gunnar Sigurjónsson, Snigill og mótorhjólaprestur, með meiru. „Við viljum virðingu í umferðinni rétt eins og aðrir ökumenn og viljum að umferðarmenningin hér batni.“

„Ég er ryðgaður eftir veturinn,“ segir Gunnar aðspurður um hvort hann sé kominn út á götu með hjólið sitt. „Ég fór reyndar ekki á því í dag, fannst of kalt. En það er gott að hafa umfjöllun um umferðaröryggi og mótorhjól núna þegar við á hjólunum erum að fara á götuna. Þótt hjólin séu í tipp topp standi þá erum við ryðguð eftir veturinn. Ég finn það að minnsta kosti sjálfur.“ Gunnar er meðlimur í Sniglunum og alþjóðlegu bifhjólarótarýsamtökunum IFRM. „Við hjá Sniglunum minnum okkur sjálfa og ökumenn á að við erum nærri því ósýnilegir í umferðinni. Við erum svo litlir í sjónfletinum og svo blekkir sýnin í hliðarspegli og bakspegli. Þú sérð ef til vill mótorhjól í fjarska ef þú lítur einu sinni í spegilinn en svo örskotsstundu seinna er hjólið komið alveg upp að þér. Þess vegna segja Sniglarnir líka: Líttu tvisvar! Sér í lagi ef þú ert að hugsa um að skipta um akrein. Þá er ekki í lagi að keyra upp að hlið mótorhjóls á akreininni þótt það sé nóg pláss til þess. Slíkt býður hættunni heim. Ég þarf þá annaðhvort að gefa í til að losna úr aðstæðunum eða hleypa honum fram úr mér. Í báðum aðstæðum er umferðaröryggi ógnað. Þá tek ég töluvert eftir því að ökumenn bifreiða nota lítið stefnuljós og hleypa ekki inn á akreinar fram fyrir sig. Umferðarmenningin hér á landi er félagslegt vandamál út af fyrir sig.“

Hremmingar á hjólinu

„Ég hef sjálfur lent í slysi á hjólinu. Það var árið 2005 í þungri föstudagsumferð á Kringlumýrarbraut. Í bíl rétt fyrir framan mig var óþolinmóður ökumaður. Hann bremsaði og tók af stað til skiptis mjög ört. Mér fannst hreinlega ekki öruggt að halda mig á sömu akrein og hann og því hugaði ég að því að skipta. Meðan ég lít til einnar áttar nauðhemlar maðurinn, bíllinn fyrir framan mig nær að snarhemla sömuleiðis en ég fell af hjólinu og krambúlerast allur. Ég komst þó á hjólinu á slysavarðstofuna, hef greinilega fengið sársaukaþröskuld konu þá stundina eða verið svona dofinn af sársaukanum.“ Gunnar segist hafa verið þó nokkuð langan tíma að jafna sig af meiðslum sínum og hjólið hafi auðvitað stórskemmst. Það er því kannski ekki að undra að honum finnist ástæða til að blessa ökumenn fyrir sumarið en í Digraneskirkju er haldin mótorhjólamessa hvert ár á öðrum í hvítasunnu. „Tilgangurinn með messunni er að fara með ferðabæn og blessa ökumenn fyrir sumarið. Við þjónum þar fimm mótorhjólaprestar og forstöðumenn, sem allir eiga mótorhjól. Kirkjugestir eru leðurklæddir og á kirkjuplaninu mætumst við öll á fákunum okkar.“


Kristjana Guðbrandsdóttir
 dista@24stundir.is