17.9.03

Leðjuslagur í Húsmúla

Einar Sigurðarson tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í enduro

LOKAUMFERÐ Íslandsmeistaramótsins í enduro fór fram nú um helgina í hringiðu haustlægðanna, sem gerði keppendum ekki auðvelt fyrir. 


Strax í prufuhringnum var ljóst að brautin var með því erfiðasta sem gerist í enduro. Íslensk þrautseigja lét þó ekki bugast og var akstursleiðum brautarinnar breytt á stöku stað þar sem tjarnir höfðu myndast í mýrinni. Af þeim 27 keppendum í meistaradeild sem tóku þátt í mótinu kláruðu aðeins 14 ökumenn báðar 90 mínútna umferðirnar, sem verður að teljast talsverð afföll. 

Svíinn Morgan Carlsson, sem m.a. keppti í motocross-keppninni á Álfsnesi þar sem hann lenti í öðru sæti, sagði að þetta væru erfiðustu aðstæður sem hann hefði kynnst í enduro. Þessar erfiðu aðstæður leiddu þó ekki af sér óvænta útkomu í stigaröðun efstu manna til Íslandsmeistaratitils. 


Einar Sigurðarson (KTM) ók jafnt og örugglega og sigraði í fyrri umferð, Haukur Þorsteinsson (Yamaha) hefur bætt sig með hverri keppninni og lenti í öðru sæti og Viggó Örn Viggósson (TM), fyrrum Íslandsmeistari, lenti í þriðja sæti. Viggó Örn náði þó að bæta stöðu sína í seinni umferð og sýndi meistaratakta þar sem hann flaug yfir urð, grjót og leðju, og sigraði Einar með 6,70 mínútna mun. Þessi frábæra frammistaða Viggós dugði þó ekki til að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn frá Einari og lenti hann í öðru sæti en Haukur Þorsteinsson í því þriðja.

 Lokaumferð B-deildar Íslandsmeistaramótsins fór einnig fram á sama stað. Þar var búist við að meiri afföll yrðu á keppendum en rúmlega þeirra keppenda náði að ljúka keppni. Með misjöfnum uppákomum þó, þar sem margir sátu fastir saman í leðju víðs vegar um brautinna. Þór Þorsteinsson (Suzuki), sem ekki hafði keppt í enduro fyrr í sumar, gerði sér lítið fyrir og sigraði en í öðru sæti varð Jóhann Guðjónsson (KTM) og dugði það honum til Íslandsmeistaratitils í ár.


 Þótt veðrið hafi sett strik í reikninginn urðu fjölmargir áhorfendur ekki vonsviknir. Bæði var keppnin æsispennandi og auk þess mikið fyrir augað þar sem keppendur börðust um í leðjunni. Þá gátu áhorfendur sjálfir tekið þátt í atganginum og hjálpað til við að losa hjól og menn úr mýrarleðjunni.

Morgunblaðið  2003

 

12.9.03

Íslandsmótið í þolakstri:

Lokakeppnin við Kolviðarhól

AKSTURSÍÞRÓTTIR Lokakeppnin í þolakstri (Enduro) fer fram á laugardag. Keppt verður á um 10
kílómetra langri braut á og við gömlu túnin í landi Kolviðarhóls. Í Meistaradeild Íslandsmótsins
verður keppt í tveimur umferðum sem hvor um sig stendur yfir í 90 mínútur. Keppendur fá klukkustundar hlé milli umferða en fyrri umferðin hefst um klukkan 10 en sú seinni um klukkan 14.30.
Keppni í Baldursdeild, móti þeirra  sem vilja keppa sér til ánægju, hefst laust fyrir klukkan 13.
Einar Sigurðarson hefur forystu í Meistaradeildinni með 370 stig en Viggó Viggósson hefur 327 stig. Einar og Viggó eru þeir einu sem hafa orðið Íslandsmeistarar í þolakstri síðan keppni um þann titil hófst árið 1998.
Í keppni liða er KTM Racing team efst, Honda Neonsmiðjan er í öðru sæti og Keppnislið JHM Sport í því þriðja. ■