1.4.17

Aron meðal þeirra bestu í heimi

 



Aron meðal þeirra bestu í heimi


-Endaði í 7. sæti í vélhjólakeppni þrátt fyrir að hafa ekki æft í sjö ár


Grindvíkingurinn Aron Ómarsson mætti sterkur til leiks í vélhjólakeppni „Enduro“, sem fram fór í Rúmeníu um helgína, en um er að ræða fimm daga keppni sem fram fer í Karpatíufjöllunum.


Aron lagði línurnar strax á fyrsta degi með því að vinna svokallaða „Prolog“ keppni, en sú keppni er innanbæjar á götum Sibiu áður en keppt er í fjóra daga í fjöllunum. Aron vann keppnina í Sibiu.

Eftir Prolog keppnina tóku svo við fjórir dagar af erfiðasta fjallarallí í heimi, en Aron keyrði allt að 200 kílómetra á dag, í um sex klukkustundir í einu og fékk eingöngu um 20 mínútur á hverjum degi til þess að næra sig.


Vegna smávægilegra vandræða með hjólið, sem kostuðu Aron mikinn tíma, endaði hann í 7. sæti á mótinu. Þess má geta að Aron hefur ekki hjólað í sjö ár, en hann hafði einungis æft í hálft ár af krafti fyrir keppnina.
Víkurfréttir 
https://www.vf.is/ithrottir/aron-medal-theirra-bestu-i-heimi

29.3.17

Tíufélagar í sjálboðavinnu á Mótorhjólasafninu

Tíumeðlimir eru duglegir að mæta og halda áfram að byggja upp þetta glæsilega safn á Akureyri.

Allir sem tóku þátt eiga hrós skilið og safnið verður glæsilegra með hverju árinu..
Enn er þó nokkuð eftir en með samstilltu átaki klárum við safnið...

Myndband frá Gissuri

10.3.17

Ók eins og „brjálæðingur“ um götur Akureyrar

Lögreglunni á Akureyri bárust tilkynningar undir morgun um mann, sem æki á ofsahraða vítt og breitt um bæinn á mótorhjóli.

Lögreglan fór að leita hans en þegar hún sá aksturslagið á honum var ekki tekin áhætta á að reyna að aka í veg fyrir hann eða elta hann vegna hættu á að hann færi sjálfum sér eða örðum að voða, og hvarf hann út í náttmyrkrið.

Lögreglumaður, sem fréttastofan ræddi við, sagði að hann hafi ekið „eins og brjálæðingur,“ auk þess sem hálka var hér og þar á götum bæjarins þegar þetta gerðist. Brátt vöknuðu grunsemdir um hver hann væri og var hann handtekinn í morgun þegar hann var á leið í vinnu.

Hann er nú í vörslu lögreglu og verður yfirheyrður í dag, en lögregla er meðal annars að afla sér efnis úr eftirlitsmyndavélum til að greina nánar athæfi mannsins. Ekki liggur enn fyrir hvort hann var undir áhrifum áfengis eða annarra fíkniefna.
Frétt af visir.is

Góður Fundur hjá Tíunni og Söxum

Skemmtilegur fundur hjá tíunni og Saxar Mc á miðvikudaginn var.


Skoðaðar voru myndir af Landsmótum síðustu ára endilega kíkið inn á saxar.123.is ef þú misstir af fundinum. :) :) :)

8.3.17

Fundur

Félagsfundur í kvöld klukkan 20 í húsnæði Saxar Mc hlakka til að sjá sem flesta. Bakkelsið klárt fyrir kvöldið.

Ætlar þú ekki að mæta

27.2.17

Kæri félagsmaður




Nú er kominn sá tími að greiðsluseðillinn fer að birtast í heimabankanum þínum . Í ár langar mig að biðja ykkur um að láta mig vita, ef þú kæri félagsmaður ætlar ekki að greiða árgjaldið.

2017 er árið okkar, þar sem við ætlum að greiða þennan yndislega seðill, því tilgangur og markmið Tíunnar, er einfaldlega að efla samskipti og félagsanda bifhjólafólks.

Tían er nefnilega ég og þú, því ekki viljum við láta þessi samtök niður falla. Legg ég eindregið til að þú greiðir seðillinn í ár. Því mín von er að Tían verði sterkari og samheldnari um ókomin ár,

Í ár ætlum við að láta eins og hálfvitar

Með von í hjarta
Kv. Sigga Dagný, gjaldkeri Tíunnar
sigridurdagny@simnet.is

21.2.17

Koma svo 😃 kaffi á könnunni og jafnvel góð tónlist í útvarpinu 😃

Vinnukvöld annað kvöld, miðvikudaginn 22 feb. kl. 20-22. Næg verkefni við allra hæfi, þrif, málning, ofl. ofl. Mætum galvösk og tökum til hendinni. Mæting hefur hingað til verið til fyrirmyndar þótt við misstum aðeins dampinn síðasta miðvikudag. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af efri hæðinni.

19.1.17

Hærri tollar á mótorhjól vegna nautakjötsbanns

Bandaríkin vilja hækka tolla á mótorhjólum frá Evrópusambandinu til að mótmæla banni Evrópusambandsins á nautakjöti sem inniheldur vaxtarhormón. Bannið myndi ná til fjölda vöruflokka, meðal annars mótorhjóla af stærðinni 51-500 rúmsentimetrar.



Wayne Allard, forseti AMA sem er Ameríska Mótorhjólasambandið segir að það sé engin rökrétt tenging milli nautakjöts og mótorhjóla. “Það er fáránlegt að láta sér detta þetta í hug” segir hann og bætir við að verndartollar eigi aðeins við innan tiltekins málaflokks, í þessu tilfelli landbúnaðarvara.

Dolf Willigers, aðalritari FEMA sem er Evrópska Mótorhjólasambandið hefur áhyggjur af hugsanlegu banni og að það geti leitt til minna framboðs á minni gerðum mótorhjóla, einnig í Evrópu. “Dæmigert svar Evrópusambandsins yrði svo að hækka tolla á mótorhjól frá Bandaríkjunum þannig að enginn hefði efni á þeim lengur” sagði Dolf. Árið 2015 seldi Harley-Davidson 37.000 mótorhjól í Evrópu svo líklegt er að það hefði mikil áhrif á mótorhjólaframleiðandann.

bifhjol.is

1.1.17

Frá Stjórn



Stjórn Tíunnar óskar ykkur öllum árs og friðar með þökk fyrir samveruna á árinu 

😎Hlökkum til að hitta ykkur öll á nýju ári 🤘L&R


Stjórn Tíunnar

23.12.16

Jólakveðja frá Stjórn

Óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári 🎄

Megi 2017 færa ykkur skemmtilega hjólatúra og sólina í fangið 😎

Stjórn Tíunnar

6.10.16

Leðurklæddir ljúflingar

 Pólskir mótorhjólakappar í Unknown Bikers láta gott af sér leiða.  Fluttu til Íslands til að vinna og segja gott að búa á Íslandi.


Félagar í mótorhjólaklúbbnum Unknown Bikers eru allir frá Póllandi og búsettir á Íslandi en segja það þó alls ekki skilyrði fyrir inngöngu í klúbbinn að vera pólskur að uppruna, heldur séu allir velkomnir.
 Í hópnum er mótorhjólafólk af Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu, frá Akranesi, Ísafirði og víðar. Flestir hafa þeir ekið hringinn í kringum Ísland og sumir oftar en einu sinni. 
Blaðamaður Víkurfrétta hitti þá Arkadiusz Zarzycki, Tomasz Losiewicz, Damian Geriak, Wociech Julkiewicz og Marcin Dobrzynski á kaffihúsi á dögunum. Eins og mótorhjólaköppum er von og vísa voru þeir klæddir í leður frá toppi til táar og nokkrum kaffihúsagestum brá örlítið í brún við að sjá þá hópast inn á kaffihúsið.

Unknown Bikers mótorhjólaklúbbar eru starfræktir víða um heim en sá fyrsti var stofnaður í  Bandaríkjunum. „Við erum nú bara venjuleg fólk og keyrum saman, höldum partý og spjöllum,“ útskýrir Damien. Þeir hafa einnig látið gott af sér leiða og á dögunum gáfu þeir leikskólanum Hjallatúni bækur á pólsku til að nota við móðurmálskennslu barna af pólskum uppruna. Einn félagi þeirra úr klúbbnum er alvarlega veikur og hafa þeir stutt við bakið á honum og fjölskyldu hans.

Mun lægri laun í Póllandi

Allir fluttu félagarnir til Íslands vegna vinnu og hafa dvalið hér mis lengi. Þeir segja erfitt að fá góða, vel launaða vinnu í Póllandi og því hafi þeir ákveðið að flytja til Íslands með fjölskyldum sínum. „Í stórum bæjum og borgum í Póllandi er ástandið betra en á minni stöðum er þetta erfitt.
Pólland er öðruvísi og mikil skriffinnska og háir skattar sem fylgja því að ráða fólk til vinnu,“ segir Marcin. Arek bætir við að fyrir vinnu í eina klukkustund í Póllandi geti hann keypt þrjá lítra af bensíni en á Íslandi tíu lítra.
Þeir eru allir sammála um að hafa ekki aðeins flutt til Íslands til að vinna heldur líka til að njóta lífsins. Þeir sakna Póllands og fara þangað í heimsókn að minnsta kosti einu sinni á ári. Þeir eru sammála um að gott sé að búa á Íslandi og segja lítið mál að bindast þeim innfæddu vinarböndum.
Stundum hitta þeir félaga úr ýmsum öðrum mótorhjólaklúbbum. Pólland nýtur sífellt meiri vinsælda
sem áfangastaður íslenskra ferðamanna og stundum þegar félagar Unknown Bikers ferðast þangað eru fleiri Íslendingar um borð í flugvélunum en Pólverjar. Þeir leggja áherslu á að Pólland sé fallegt land þar sem margt er að skoða.

Hjóla um allt Ísland

Síðasta sumar fóru nokkrir meðlimir Unknown Bikers hringinn í kringum Ísland og óku þá 2430 kílómetra á einni viku. Eins og áður sagði býr einn meðlimanna á Ísafirði og kíktu þeir í
heimsókn til hans í leiðinni. Af uppáhalds stöðum á Íslandi nefna þeir Aldeyjarfoss, Barnafossa, Egilsstaði og Raufarhöfn. Þeir hafa allir átt mótorhjól síðan á unglingsárum. Marcin kom með sitt
hjól með sér með Norrænu þegar hann flutti til Íslands fyrir rúmlega þremur árum. „Það er svo gaman að vera á mótorhjóli, bara að hjóla eitthvert. Stundum á ég ekki bíl en ég á alltaf mótorhjól,“ segir hann. Arek á tvö mótorhjól á Íslandi og tvö í Póllandi. Þegar Wojtek seldi mótorhjólið sitt eitt sinn grét dóttir hans sig í svefn, svo ljóst er að mótorhjólin eru meira en bara farartæki hjá Unknown Bikers og þeirra nánustu.


Víkurfréttir 6.10.2016

5.10.16

Heimsmótabók Guinness hefur staðfest heimsmetið (2016)


Í keng á pínulitlu mótorhjóli

Ævintýrakonan Sigríður Ýr hyggur á heimsmet

Sigríður Ýr Unnarsdóttir ætlar að hefja meistaranám í Háskóla Íslands í byrjun september, en fyrst ætlar hún að setja heimsmet í ekinni vegalengd á svokölluðu pocket-mótorhjóli. „Ég veit ekkert um mótorhjól, en hugmyndin var bara svo fyndin og skemmtileg að ég og bandarískur vinur minn ákváðum að sækja um til heimsmetabókar Guinness að fá að setja þetta met,“ segir hún við DV.

Sigríður er gefin fyrir ævintýri, en vinur hennar og mótorhjólafélagi, Mike Reid, er að hennar sögn enn meiri ævintýramaður. „Nýlega fórum við þvert yfir Bandaríkin á mótorhjóli og svo aftur til baka, og söfnuðum dágóðri fjárhæð fyrir góðgerðarsamtök, og í lok ferðarinnar datt okkur heimsmetið í hug.“ Í ljós kom að heimsmetið á pocket-hjóli væri sennilega mögulegt að slá.

Sigríður Ýr hefur þó aldrei svo mikið sem sest á svona smámótorhjól. „Þetta er pínulítið hjól, passar kannski fyrir 8 ára barn, svo að maður þarf að sitja á því með hnén upp að öxlum. Það kemur sér vel að hafa stundað jóga um árabil, því að við munum sitja á hjólunum í allt að 10 tíma á dag.“ Með í för verður þriðji aðilinn sem hefur góða þekkingu á hjólunum.  

Sigríður Ýr

Víðast hvar er harðbannað að aka á svona smáhjólum á venjulegum umferðargötum. „Við ákváðum að hjóla í gegnum nokkur miðríki Bandaríkjanna, nánar tiltekið frá Ohio og niður til Nýju-Mexíkó. Lögin reyndust nægilega sveigjanleg þar.“ Ferðin hefst þann 5. september með fallhlífarstökki í Ohio og svo munu þremenningarnir hoppa upp á hjólin og leggja í 2.500 kílómetra ferðalag sem endar á mótorhjólasýningu í Nýju-Mexíkó þar sem tekið verður á móti þeim með pomp og prakt.

Lokaundirbúningur stendur nú yfir, en Sigríður flýgur utan á laugardaginn.

DV 27.8 2016

 

 

__________________________________________________________________________________________________________

„Hafði aldrei séð svona hjól“

Hinn 5. sept­em­ber mun Sig­ríður Ýr Unn­ars­dótt­ir hefja 2.500 kíló­metra langt ferðalag á svo­kölluðu Pocket Bike-mótor­hjóli, sem er mótor­hjól í barna­stærð. Mark­miðið er að kom­ast í heims­meta­bók Guinn­ess fyr­ir að ferðast lengstu vega­lengd­ina á Pocket Bike-hjóli.

„Hug­mynd­in vaknaði í byrj­un sum­ars, við Michael fór­um fyrst í hring­ferð um Banda­rík­in á mótor­hjóli og við erum að reyna að finna leiðir til þess að hitt­ast og gera eitt­hvað skemmti­legt í leiðinni. Þessi ferð gekk svo ótrú­lega vel að við fór­um strax að skoða hvað við gæt­um gert næst,“ seg­ir Sig­ríður, sem mun ferðast með Michael Reid, kær­asta sín­um, og Chris Fabre, sem er mótor­hjóla­sér­fræðing­ur hóps­ins.

„Chris vinn­ur hjá Triumph-umboðinu í Phila­delp­hia. Við leituðum til þess með styrkt­ar­beiðni og það endaði á því að senda starfs­mann til að ferðast með okk­ur. Hann er í raun­inni hjóla­meist­ar­inn.“

Áður en Sig­ríður fór hring­ferðina um Banda­rík­in með Michael í byrj­un sum­ars hafði hún aldrei sest á mótor­hjól. „Ég hafði aldrei á æv­inni séð svona Pocket Bike-hjól sem ég ætla að setja heims­met á,“ seg­ir Sig­ríður.

Byrja í fall­hlíf­ar­stökki

Ferðalagið mun hefjast með fall­hlíf­ar­stökki á fræg­asta stökksvæði Banda­ríkj­anna, Start Skydi­ving, í Ohio. Þaðan verður haldið gegn­um miðhluta Banda­ríkj­anna og er enda­stöðin á Gold­en Asp­en-mótor­hjóla­sýn­ing­unni í Nýju Mexí­kó. Ferðin mun taka 12 daga og áætl­ar Sig­ríður að koma í mark ásamt föru­naut­um sín­um 15. sept­em­ber.

Nú­ver­andi heims­met var sett 8. ág­úst 2009 þegar Ryan Gal­braith og Chris Stin­son óku 718 kíló­metra. Því var upp­haf­legt mark­mið Sig­ríðar og Michaels að fara 800 kíló­metra, en í ljósi þess að til­raun var gerð að heims­met­inu árið 2014 þar sem ekn­ir voru 2.264 kíló­metr­ar ákváðu þau að hjóla 2.500 kíló­metra, ef svo skyldi vera að Guinn­ess staðfesti heims­met­stilraun­ina árið 2014, en það hef­ur ekki enn verið gert. „Það var bara ekki búið að staðfesta öll gögn­in úr þeim til­raun­um og ég veit ekki hvort það á ein­fald­lega eft­ir að staðfesta þau eða hvort eitt­hvert skil­yrði var ekki upp­fyllt,“ seg­ir Sig­ríður.

Þurfa alls kon­ar búnað

[caption id="attachment_7661" align="alignright" width="300"] Þau eru af minni gerðinni, pocket­bike mótor­hjól­in.

Það er ekki hlaupið að því að setja heims­met. Sig­ríður Ýr og ferðafé­lag­ar henn­ar þurfa að upp­fylla ýmis skil­yrði sem Guinn­ess set­ur til þess að heims­met­stilraun­in telj­ist gild.Taka þarf upp í að minnsta kosti fimm mín­út­ur af hverj­um klukku­tíma sem þau keyra. Til þess þarf úti­vist­ar­mynda­vél á öll hjól­in. Einnig þarf fylgd­ar­bíl með upp­töku­tæki. Sig­ríður, Michael og Chris þurfa þar að auki að vera með GPS- staðsetn­ing­ar­tæki á sér.

Þessi út­búnaður er ekki ódýr og því hafa ferðalang­arn­ir sett upp styrkt­arsíðu á gofundme.com, þar sem fólki er boðið að heita á þríeykið áður en þau halda í þessa 12 daga ferð í gegn­um níu ríki í hjarta Banda­ríkj­anna, frá Ohio til New Mex­ico.

MBL.  17.8.2016

__________________________________________________________________________________________________________

Sigríður Ýr heimsmethafi:
Ég hefði aldrei trúað því
Heimsmótabók Guinness hefur staðfest heimsmetið

 

„Ég hefði aldrei trúað því að ég gæti orðið heimsmeistari,“ segir Sigríður Ýr Unnarsdóttir á Facebook. Þar greinir hún frá því að Heimsmetabók Guinness hafi staðfest heimsmet sem hún setti á svokölluðu „pocketbike“ mótorhjóli. Hún ferðaðist 2.500 kílómetra á hjólinu, lengra en nokkur annar hefur gert.

DV ræddi við Sigríði fyrst í ágúst, þegar skipulagning stóð yfir og svo fyrr í vikunni þegar hún var búin að hjóla 2300 kílómetra ásamt tveimur vinum sínum. Mike Reid og Chris Fabre. Pocketbike-hjól eru afar smá mótorhjól en á þeim ferðuðust þremenningarnir í 12 daga. „Við keyrðum að meðaltali í átta klukkustundir á dag og meðalhraðinn var 55 kílómetrar á klukkustund. Það kom sér vel að ég hef bakgrunn úr jóga enda líkamsstaðan frekar óþægileg á hjólunum. Hnén voru nánast upp að öxlum,“ sagði Sigríður Ýr við DV.

Nú hefur heimsmetið verið staðfest. „Segja má að allur tilfinningaskalinn hafi komið fram, hlátur, grátur, vonleysi, gleði og allt þar á milli.“ Hún segist varla trúa því enn að þetta hafi tekist. „Þetta sannar að hver sem er getur orðið hvað sem er, á meðan maður er tilbúinn að vinna fyrir því.“

Hún hvetur fólk til að láta drauma sína rætast, sama hvernig fólk bregst við hugmyndunum. „Ég fékk alls konar mis gáfulegar athugasemdir í upphafi en ég lærði að láta það ekki á mig fá og gefa mig alla í þetta. Þetta var ótrúlega erfitt en í leiðinni gífurlega lærdómsríkt og ég mun búa að þessari lífsreynslu alla ævi.“            DV

FRÉTTIR    5.10.2016   DV