19.1.17

Hærri tollar á mótorhjól vegna nautakjötsbanns

Bandaríkin vilja hækka tolla á mótorhjólum frá Evrópusambandinu til að mótmæla banni Evrópusambandsins á nautakjöti sem inniheldur vaxtarhormón. Bannið myndi ná til fjölda vöruflokka, meðal annars mótorhjóla af stærðinni 51-500 rúmsentimetrar.



Wayne Allard, forseti AMA sem er Ameríska Mótorhjólasambandið segir að það sé engin rökrétt tenging milli nautakjöts og mótorhjóla. “Það er fáránlegt að láta sér detta þetta í hug” segir hann og bætir við að verndartollar eigi aðeins við innan tiltekins málaflokks, í þessu tilfelli landbúnaðarvara.

Dolf Willigers, aðalritari FEMA sem er Evrópska Mótorhjólasambandið hefur áhyggjur af hugsanlegu banni og að það geti leitt til minna framboðs á minni gerðum mótorhjóla, einnig í Evrópu. “Dæmigert svar Evrópusambandsins yrði svo að hækka tolla á mótorhjól frá Bandaríkjunum þannig að enginn hefði efni á þeim lengur” sagði Dolf. Árið 2015 seldi Harley-Davidson 37.000 mótorhjól í Evrópu svo líklegt er að það hefði mikil áhrif á mótorhjólaframleiðandann.

bifhjol.is

1.1.17

Frá Stjórn



Stjórn Tíunnar óskar ykkur öllum árs og friðar með þökk fyrir samveruna á árinu 

😎Hlökkum til að hitta ykkur öll á nýju ári 🤘L&R


Stjórn Tíunnar

23.12.16

Jólakveðja frá Stjórn

Óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári 🎄

Megi 2017 færa ykkur skemmtilega hjólatúra og sólina í fangið 😎

Stjórn Tíunnar

6.10.16

Leðurklæddir ljúflingar

 Pólskir mótorhjólakappar í Unknown Bikers láta gott af sér leiða.  Fluttu til Íslands til að vinna og segja gott að búa á Íslandi.


Félagar í mótorhjólaklúbbnum Unknown Bikers eru allir frá Póllandi og búsettir á Íslandi en segja það þó alls ekki skilyrði fyrir inngöngu í klúbbinn að vera pólskur að uppruna, heldur séu allir velkomnir.
 Í hópnum er mótorhjólafólk af Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu, frá Akranesi, Ísafirði og víðar. Flestir hafa þeir ekið hringinn í kringum Ísland og sumir oftar en einu sinni. 
Blaðamaður Víkurfrétta hitti þá Arkadiusz Zarzycki, Tomasz Losiewicz, Damian Geriak, Wociech Julkiewicz og Marcin Dobrzynski á kaffihúsi á dögunum. Eins og mótorhjólaköppum er von og vísa voru þeir klæddir í leður frá toppi til táar og nokkrum kaffihúsagestum brá örlítið í brún við að sjá þá hópast inn á kaffihúsið.

Unknown Bikers mótorhjólaklúbbar eru starfræktir víða um heim en sá fyrsti var stofnaður í  Bandaríkjunum. „Við erum nú bara venjuleg fólk og keyrum saman, höldum partý og spjöllum,“ útskýrir Damien. Þeir hafa einnig látið gott af sér leiða og á dögunum gáfu þeir leikskólanum Hjallatúni bækur á pólsku til að nota við móðurmálskennslu barna af pólskum uppruna. Einn félagi þeirra úr klúbbnum er alvarlega veikur og hafa þeir stutt við bakið á honum og fjölskyldu hans.

Mun lægri laun í Póllandi

Allir fluttu félagarnir til Íslands vegna vinnu og hafa dvalið hér mis lengi. Þeir segja erfitt að fá góða, vel launaða vinnu í Póllandi og því hafi þeir ákveðið að flytja til Íslands með fjölskyldum sínum. „Í stórum bæjum og borgum í Póllandi er ástandið betra en á minni stöðum er þetta erfitt.
Pólland er öðruvísi og mikil skriffinnska og háir skattar sem fylgja því að ráða fólk til vinnu,“ segir Marcin. Arek bætir við að fyrir vinnu í eina klukkustund í Póllandi geti hann keypt þrjá lítra af bensíni en á Íslandi tíu lítra.
Þeir eru allir sammála um að hafa ekki aðeins flutt til Íslands til að vinna heldur líka til að njóta lífsins. Þeir sakna Póllands og fara þangað í heimsókn að minnsta kosti einu sinni á ári. Þeir eru sammála um að gott sé að búa á Íslandi og segja lítið mál að bindast þeim innfæddu vinarböndum.
Stundum hitta þeir félaga úr ýmsum öðrum mótorhjólaklúbbum. Pólland nýtur sífellt meiri vinsælda
sem áfangastaður íslenskra ferðamanna og stundum þegar félagar Unknown Bikers ferðast þangað eru fleiri Íslendingar um borð í flugvélunum en Pólverjar. Þeir leggja áherslu á að Pólland sé fallegt land þar sem margt er að skoða.

Hjóla um allt Ísland

Síðasta sumar fóru nokkrir meðlimir Unknown Bikers hringinn í kringum Ísland og óku þá 2430 kílómetra á einni viku. Eins og áður sagði býr einn meðlimanna á Ísafirði og kíktu þeir í
heimsókn til hans í leiðinni. Af uppáhalds stöðum á Íslandi nefna þeir Aldeyjarfoss, Barnafossa, Egilsstaði og Raufarhöfn. Þeir hafa allir átt mótorhjól síðan á unglingsárum. Marcin kom með sitt
hjól með sér með Norrænu þegar hann flutti til Íslands fyrir rúmlega þremur árum. „Það er svo gaman að vera á mótorhjóli, bara að hjóla eitthvert. Stundum á ég ekki bíl en ég á alltaf mótorhjól,“ segir hann. Arek á tvö mótorhjól á Íslandi og tvö í Póllandi. Þegar Wojtek seldi mótorhjólið sitt eitt sinn grét dóttir hans sig í svefn, svo ljóst er að mótorhjólin eru meira en bara farartæki hjá Unknown Bikers og þeirra nánustu.


Víkurfréttir 6.10.2016

5.10.16

Heimsmótabók Guinness hefur staðfest heimsmetið (2016)


Í keng á pínulitlu mótorhjóli

Ævintýrakonan Sigríður Ýr hyggur á heimsmet

Sigríður Ýr Unnarsdóttir ætlar að hefja meistaranám í Háskóla Íslands í byrjun september, en fyrst ætlar hún að setja heimsmet í ekinni vegalengd á svokölluðu pocket-mótorhjóli. „Ég veit ekkert um mótorhjól, en hugmyndin var bara svo fyndin og skemmtileg að ég og bandarískur vinur minn ákváðum að sækja um til heimsmetabókar Guinness að fá að setja þetta met,“ segir hún við DV.

Sigríður er gefin fyrir ævintýri, en vinur hennar og mótorhjólafélagi, Mike Reid, er að hennar sögn enn meiri ævintýramaður. „Nýlega fórum við þvert yfir Bandaríkin á mótorhjóli og svo aftur til baka, og söfnuðum dágóðri fjárhæð fyrir góðgerðarsamtök, og í lok ferðarinnar datt okkur heimsmetið í hug.“ Í ljós kom að heimsmetið á pocket-hjóli væri sennilega mögulegt að slá.

Sigríður Ýr hefur þó aldrei svo mikið sem sest á svona smámótorhjól. „Þetta er pínulítið hjól, passar kannski fyrir 8 ára barn, svo að maður þarf að sitja á því með hnén upp að öxlum. Það kemur sér vel að hafa stundað jóga um árabil, því að við munum sitja á hjólunum í allt að 10 tíma á dag.“ Með í för verður þriðji aðilinn sem hefur góða þekkingu á hjólunum.  

Sigríður Ýr

Víðast hvar er harðbannað að aka á svona smáhjólum á venjulegum umferðargötum. „Við ákváðum að hjóla í gegnum nokkur miðríki Bandaríkjanna, nánar tiltekið frá Ohio og niður til Nýju-Mexíkó. Lögin reyndust nægilega sveigjanleg þar.“ Ferðin hefst þann 5. september með fallhlífarstökki í Ohio og svo munu þremenningarnir hoppa upp á hjólin og leggja í 2.500 kílómetra ferðalag sem endar á mótorhjólasýningu í Nýju-Mexíkó þar sem tekið verður á móti þeim með pomp og prakt.

Lokaundirbúningur stendur nú yfir, en Sigríður flýgur utan á laugardaginn.

DV 27.8 2016

 

 

__________________________________________________________________________________________________________

„Hafði aldrei séð svona hjól“

Hinn 5. sept­em­ber mun Sig­ríður Ýr Unn­ars­dótt­ir hefja 2.500 kíló­metra langt ferðalag á svo­kölluðu Pocket Bike-mótor­hjóli, sem er mótor­hjól í barna­stærð. Mark­miðið er að kom­ast í heims­meta­bók Guinn­ess fyr­ir að ferðast lengstu vega­lengd­ina á Pocket Bike-hjóli.

„Hug­mynd­in vaknaði í byrj­un sum­ars, við Michael fór­um fyrst í hring­ferð um Banda­rík­in á mótor­hjóli og við erum að reyna að finna leiðir til þess að hitt­ast og gera eitt­hvað skemmti­legt í leiðinni. Þessi ferð gekk svo ótrú­lega vel að við fór­um strax að skoða hvað við gæt­um gert næst,“ seg­ir Sig­ríður, sem mun ferðast með Michael Reid, kær­asta sín­um, og Chris Fabre, sem er mótor­hjóla­sér­fræðing­ur hóps­ins.

„Chris vinn­ur hjá Triumph-umboðinu í Phila­delp­hia. Við leituðum til þess með styrkt­ar­beiðni og það endaði á því að senda starfs­mann til að ferðast með okk­ur. Hann er í raun­inni hjóla­meist­ar­inn.“

Áður en Sig­ríður fór hring­ferðina um Banda­rík­in með Michael í byrj­un sum­ars hafði hún aldrei sest á mótor­hjól. „Ég hafði aldrei á æv­inni séð svona Pocket Bike-hjól sem ég ætla að setja heims­met á,“ seg­ir Sig­ríður.

Byrja í fall­hlíf­ar­stökki

Ferðalagið mun hefjast með fall­hlíf­ar­stökki á fræg­asta stökksvæði Banda­ríkj­anna, Start Skydi­ving, í Ohio. Þaðan verður haldið gegn­um miðhluta Banda­ríkj­anna og er enda­stöðin á Gold­en Asp­en-mótor­hjóla­sýn­ing­unni í Nýju Mexí­kó. Ferðin mun taka 12 daga og áætl­ar Sig­ríður að koma í mark ásamt föru­naut­um sín­um 15. sept­em­ber.

Nú­ver­andi heims­met var sett 8. ág­úst 2009 þegar Ryan Gal­braith og Chris Stin­son óku 718 kíló­metra. Því var upp­haf­legt mark­mið Sig­ríðar og Michaels að fara 800 kíló­metra, en í ljósi þess að til­raun var gerð að heims­met­inu árið 2014 þar sem ekn­ir voru 2.264 kíló­metr­ar ákváðu þau að hjóla 2.500 kíló­metra, ef svo skyldi vera að Guinn­ess staðfesti heims­met­stilraun­ina árið 2014, en það hef­ur ekki enn verið gert. „Það var bara ekki búið að staðfesta öll gögn­in úr þeim til­raun­um og ég veit ekki hvort það á ein­fald­lega eft­ir að staðfesta þau eða hvort eitt­hvert skil­yrði var ekki upp­fyllt,“ seg­ir Sig­ríður.

Þurfa alls kon­ar búnað

[caption id="attachment_7661" align="alignright" width="300"] Þau eru af minni gerðinni, pocket­bike mótor­hjól­in.

Það er ekki hlaupið að því að setja heims­met. Sig­ríður Ýr og ferðafé­lag­ar henn­ar þurfa að upp­fylla ýmis skil­yrði sem Guinn­ess set­ur til þess að heims­met­stilraun­in telj­ist gild.Taka þarf upp í að minnsta kosti fimm mín­út­ur af hverj­um klukku­tíma sem þau keyra. Til þess þarf úti­vist­ar­mynda­vél á öll hjól­in. Einnig þarf fylgd­ar­bíl með upp­töku­tæki. Sig­ríður, Michael og Chris þurfa þar að auki að vera með GPS- staðsetn­ing­ar­tæki á sér.

Þessi út­búnaður er ekki ódýr og því hafa ferðalang­arn­ir sett upp styrkt­arsíðu á gofundme.com, þar sem fólki er boðið að heita á þríeykið áður en þau halda í þessa 12 daga ferð í gegn­um níu ríki í hjarta Banda­ríkj­anna, frá Ohio til New Mex­ico.

MBL.  17.8.2016

__________________________________________________________________________________________________________

Sigríður Ýr heimsmethafi:
Ég hefði aldrei trúað því
Heimsmótabók Guinness hefur staðfest heimsmetið

 

„Ég hefði aldrei trúað því að ég gæti orðið heimsmeistari,“ segir Sigríður Ýr Unnarsdóttir á Facebook. Þar greinir hún frá því að Heimsmetabók Guinness hafi staðfest heimsmet sem hún setti á svokölluðu „pocketbike“ mótorhjóli. Hún ferðaðist 2.500 kílómetra á hjólinu, lengra en nokkur annar hefur gert.

DV ræddi við Sigríði fyrst í ágúst, þegar skipulagning stóð yfir og svo fyrr í vikunni þegar hún var búin að hjóla 2300 kílómetra ásamt tveimur vinum sínum. Mike Reid og Chris Fabre. Pocketbike-hjól eru afar smá mótorhjól en á þeim ferðuðust þremenningarnir í 12 daga. „Við keyrðum að meðaltali í átta klukkustundir á dag og meðalhraðinn var 55 kílómetrar á klukkustund. Það kom sér vel að ég hef bakgrunn úr jóga enda líkamsstaðan frekar óþægileg á hjólunum. Hnén voru nánast upp að öxlum,“ sagði Sigríður Ýr við DV.

Nú hefur heimsmetið verið staðfest. „Segja má að allur tilfinningaskalinn hafi komið fram, hlátur, grátur, vonleysi, gleði og allt þar á milli.“ Hún segist varla trúa því enn að þetta hafi tekist. „Þetta sannar að hver sem er getur orðið hvað sem er, á meðan maður er tilbúinn að vinna fyrir því.“

Hún hvetur fólk til að láta drauma sína rætast, sama hvernig fólk bregst við hugmyndunum. „Ég fékk alls konar mis gáfulegar athugasemdir í upphafi en ég lærði að láta það ekki á mig fá og gefa mig alla í þetta. Þetta var ótrúlega erfitt en í leiðinni gífurlega lærdómsríkt og ég mun búa að þessari lífsreynslu alla ævi.“            DV

FRÉTTIR    5.10.2016   DV


1.9.16

Bifhjólaklúbbar Suðurnesja

MÓTORHJÓLAÁHUGI HEFUR MARGFALDAST

Öryggismál og grillaðar pulsur meðal fastra liða. Nærri eitt þúsund hjólskráð á Suðurnesjum


Mikil aukning hefur verið á bifhjólum á Suðurnesjum síðastliðin tíu ár. Árið 2015 voru 905 bifhjól skráð á Suðurnesjum samkvæmt Samgöngustofu en árið 1995 voru aðeins 102 bifhjól skráð. Bifhjólaklúbbar hafa myndast í kjölfarið þar sem einstaklingar sem eiga það sameiginlegt að hafa áhuga á bifhjólum koma saman. Meðal bifhjólaklúbba á Suðurnesjum eru Ernir Bifhjólaklúbbur Suðurnesja, Grindjánar,Sons of Freedom og Lords & Ladies. Þann 27.apríl 2001 komu 46 áhugamenn um mótorhjól saman og stofnuðu Erni Bifhjólaklúbb Suðurnesja. Síðan þá hefur verið gefið út 405 félagsmerki og í dag eru rúmlega hundrað virkir meðlimir. Þó svo að klúbburinn hafi verið stofnaður árið 2001, þá á nafnið Ernir sem bifhjólaklúbbur sér lengri sögu. Á áttunda áratugnum stofnuðu nokkrir gagnfræðinemendur bifhjólaklúbb undir nafninu Ernir. Það mætti því segja að klúbburinn hafi verið endurvakinn árið 2001. Óskar Húnfjörð hefur verið formaður Arna síðastliðið ár og svaraði nokkrum spurningum. 

Hagsmunasamtök með öryggið í fyrirrúmi

„Ernir Bifhjólaklúbbur Suðurnesja eru hagsmunasamtök fyrir bifhjólafólk og leggur mikla áherslu á öryggismál. Klúbburinn er með forvarnardag einu sinni á ári þar sem lögreglan og Brunavarnir fara yfir öryggisreglur og ökuhæfni með félagsmeðlimum. Við erum að reyna að koma af stað nýju átaki að koma félagsmeðlimum í sýnilegri vesti svo auðveldara sé fyrir aðra bílstjóra að sjá okkur. Ég vona að við getum smitað þessa hugsun í aðra klúbba og til annars hjólafólks. Vegna
fjölda skráðra bifhjóla á Íslandi er það ekki síður mikilvægt að bílstjórar verði að gera ráð fyrir því að það séu bifhjól ávallt nálægt í umferðinni og geta verið á hverjum gatnamótum,“ segir Óskar.

Hópdýr 

Starfsemi klúbbsins felur í sér að halda utan um félagsmeðlimi, uppákomur og hefðir ásamt því að vera í forsvari út á við fyrir hönd félaga. Félagsheimili Arnanna er staðsett á Þjóðbraut nr. 722 á Ásbrú og heitir Arnarhreiðrið. Þar hittast félagsmeðlimir og fá sér kaffi eða grillaðar pylsur áður en farið er að hjóla. „Mótorhjólafólk er svona hópdýr eins og við köllum, það er gaman að hjóla saman og hjóla í hópkeyrslu. Við höfum ekki gert það í ár en það hefur í gegnum tíðina verið hefð að hjóla á fimmtudagskvöldum.
Þetta er hlutur sem við erum að reyna að koma í gang aftur en verður örugglega ekki fyrr en næsta sumar,“ segir Óskar. Ernir Bifhjólaklúbbur Suðurnesja er með opinn Facebook hóp þar sem settar eru reglulega inn upplýsingar um væntanlega viðburði og hjólatúra. Þar er einnig hægt að skoða myndir af fyrri viðburðum og ferðum. Til að verða meðlimur í klúbbnum þarf að fylla út umsóknareyðublað sem er á Facebook síðu þeirra og fer umsóknin fyrir stjórn.

Skipulagðar hópkeyrslur 

Ernir stendur fyrir skipulögðum hópkeyrslum við margs konar tilefni. Olíufélög skiptast á að bjóða í pylsupartý á  undan hópkeyrslum. „Mótorhjólafólk er mikið pylsufólk og því það er alltaf byrjað á því að grilla pylsur,“ segir Óskar. Þann 25.júní 2016 var Reykjanesdagur Arna á sama tíma og Sólseturshátíð í Garði. Reykjanesdagur Arna er haldinn í samvinnu við N1 á Ásbrú sem býður hjólafólki upp á pylsur og meðlæti áður en lagt er af stað í hópkeyrslu. Keyrt var í Garðinn og hjólunum stillt upp til sýnis. „Svo er stóri dagurinn okkar Ljósanótt. Þá stendur klúbburinn fyrir hópkeyrslu og þar getum við verið að fá fleiri hundruð hjól. Klúbburinn hefur staðið fyrir hópkeyrslu á Ljósanótt frá upphafi og er allt bifhjólafólk á landinu velkomið. Það er svo mikil stemning þegar svona margir  bifhjólamenn koma saman,“ segir Óskar.

 Hópkeyrsla á Ljósanótt 

Hópkeyrslan á Ljósanótt verður á laugardaginn 3. september. Fyrir þá sem hafa áhuga á að taka þátt í hópkeyrslunni er mæting klukkan  13.00 hjá Olís ÓB bílaplaninu í Njarðvík þar sem að sjálfsögðu verður boðið upp á grillaðar pylsur og meðlæti. Klukkan 14.00 verður tekinn smá upphitunarhringur um Reykjanesið, líklega í Garð, Sandgerði og Keflavík en það fer eftir veðri. Hringurinn endar á Olís ÓB bílaplaninu þar sem hjólunum verður stillt upp áður en lagt er af stað í hópkeyrsluna klukkan 15.00. Keyrt verður í gegnum Keflavík og niður Hafnargötuna og geta allir sem vilja sjá þennann stórkostlega flota af bifhjólum fylgst með. Hópkeyrslan endar á SBK planinu þar sem hjólunum verður stillt upp til sýnis fyrir almenning. Klúbburinn er í samvinnu vð lögregluna og munu þrjú lögreglumótorhjól stjórna umferð í kringum hópkeyrsluna. Hópkeyrslan hefur ætíð verið skemmtilegur liður af Ljósanótt og hvetur Ernir almenning til að mæta og fylgjast með.

Grindjánar

Bifhjólaklúbburinn Grindjánar var stofnaður 28. ágúst 2006 í Grindavík. Hjónin Hrafnhildur Björgvinsdóttir og Davíð Friðriksson eru tvö af stofnmeðlimum Grindjána og hafa verið að hjóla í tugi ára. Hrafnhildur Björgvinsdóttir formaður Grindjána svaraði nokkrum spurningum.
Hrafnhildur hefur verið formaður frá stofnun klúbbsins og hjólað í 20 ár. „Maðurinn minn var byrjaður að hjóla. Ég var eiginlega á móti mótorhjólum en fór einu sinni með honum og þá var ekki aftur snúið. Við fluttum til Grindavíkur árið 2003 og keyptum okkur aftur bifhjól 2006. Við gengum fyrst í Erni en svo langaði okkur að stofna klúbb á þessu svæði. Við fórum hér út og sáum fólk sem var að hjóla og buðum þeim að koma sem höfðu áhuga á að stofna klúbb heim til okkar 28. ágúst 2006,“ segir Hrafnhildur. Þann dag komu saman ellefu einstaklingar og var bifhjólaklúbburinn Grindjánar þar með stofnaður. Af þessum ellefu stofnfélögum eru ennþá fimm í klúbbnum og eru Grindjánar 36 talsins í dag. Mest hafa verið 50 í klúbbnum, en þau eru með þak yfir meðlimafjölda að ekki eru teknir inn fleiri en 50 félagar. Þegar aðsóknin var sem mest var biðlisti. Gefin hafa verið
út 97 félagsmerki. Félagsmeðlimir Grindjána eru af öllum aldri, yngsti meðlimur er 20 ára og elsti 70 ára.

Hittast í Virkinu 

Á hverjum þriðjudegi klukkan 19.30 hittast Grindjánar í félagsheimilinu þeirra Virkinu og ef veður leyfir er hjólað. Starfsemi klúbbsins felst í því að hittast, hjóla og fara í hjólaferðir. Þau eru búin að fara í ótal ferðir síðan klúbburinn var stofnaður og hægt er að skoða myndir frá sumum ferðanna á Facebook síðu þeirra og heimasíðu þeirra www.grindjanar.com. „Við förum í dagsferðir en einnig er stundum gist. Við fórum fjögur saman hringinn í sumar og á landsmót bifhjólamanna,“ segir  Hrafnhildur og bætir því við að klúbburinn sé virkur allt árið um kring. „Við erum alltaf með fjóra fasta viðburði á veturna. Októberfest er fyrstu helgina í október, Jólagleðin fyrstu helgina í aðventu,
Þorragleði fyrstu helgina í febrúar og aðalfundur í apríl og yfirleitt vorgleði eftir á. Yfir sumartímann er Sjóarinn Síkáti okkar aðalviðburður. Þá stöndum við Grindjánar fyrir hópkeyrslu. Í sumar mættu 187 hjól í hópkeyrsluna, keyrt var í gegnum hátíðarsvæðið og endað fyrir utan Virkið þar sem við buðum öllum upp á pylsur og gos. Seinnipart laugardags og sunnudags  buðum við upp á svokallaða krakkakeyrslu. Þá fá krakkar að sitja aftan á hjólunum okkar á meðan við keyrum stuttan hring á lokuðu svæði. Þetta er í miklu uppáhaldi hjá börnunum. Við erum með fullt af hjálmum, beltum og öðrum öryggisbúnaði fyrir þau,“ segir Hrafnhildur. Aðspurð hvort Grindjánar ætli að taka þátt í hópkeyrslunni á Ljósanótt svarar Hrafnhildur játandi. „Við gerum það yfirleitt alltaf.“

10 ára afmæli Grindjána

 Grindjánar héldu upp á 10 ára afmælið sitt 27. ágúst með glæsibrag. Klúbburinn bauð alla velkomna í tertuhlaðborð og tilheyrandi í Virkinu. Bifhjólaklúbbar og hjólafólk víðsvegar um landið létu sjá sig. Meðal þeirra var hjólamaðurinn Matthías Axelsson sem kom alla leið frá Akureyri. „Hann er sennilega mesti hjólari á landinu, það er enginn sem hjólar jafn mikið og hann,“ sagði Gunnar Hafdal. Meðal þeirra bifhjólaklúbba sem mættu í veisluna voru Sober Riders, Unknown Bikers og Bikers Against Child Abuse. Það skorti ekki félagsmeðlimi frá öðrum bifhjólaklúbbum Suðurnesja, en merki Arna, Lords and Ladies og Sons of Freedom voru sýnileg. „Við erum rosalega ánægð með mætinguna. Við vissum ekki hverju við áttum von á en þetta er alveg æðislegt. Það voru rúmlega hundrað hjól hérna og 180 manns,“ sagði Hrafnhildur formaður Grindjána.
VÍKURFRÉTTIR fimmtudagur 1. september 2016