26.11.06

Evrópu á milli á þrítugum þristi 2006

Í 33 stiga hita í Monte Carlo í ágústhita aftur á leið norður /ljósmynd Hjörtur

Margur Íslendingurinn lætur sig dreyma um að komast einhvern tíma ævinnar á nyrsta odda Evrópu. En að aka þangað á þrjátíu ára gömlu mótorhjóli dettur fáum í hug, hvað þá að framkvæma það. En það er einmitt það sem Hjörtur Jónasson gerði – og gott betur því hann ók líka alla leið suður að miðjarðarhafi og aftur norður. Hann sagði Auðuni Arnórsyni ferðasöguna.

Löngunin til að líta nyrsta odda Evrópu, Nordkap í Noregi, togar sterkt í margan ferðafíkil nútímans. En færri vita að talsvert á fjórða hundrað ár eru liðin síðan sú löngun dró fyrsta ferðamanninn á þennan afskekkta tanga langt norðan heimskautsbaugs. Það var Ítalinn Francesco Negri (1624- 1698). Honum fannst sérkennilegt að Evrópumenn hans samtíma skyldu í öllu landafunda- og landkönnunaræðinu sinna því eins lítið og raun bar vitni að kanna eigin heimsálfu. Hann lagði land undir fót (bókstaflega) árið 1663 og komst um haustið 1664 til Nordkap. Heim kominn til Ítalíu skrifaði hann lært rit um ferð sína sem kom út árið 1700, að honum látnum. Hann er talinn fyrstur manna hafa heimsótt nyrsta odda Evrópu sem ferðama.

     Liðlega 340 árum síðar lét Hjörtur Jónasson, farskipastýrimaður uppi á Íslandi og áhugamaður til margra ára um klassísk bresk mótorhjól, draum sinn um að ferðast norður til Nordkap verða að veruleika. Og gott betur en það. Hann ók þangað frá Danmörku og síðan sem leið lá suður eftir álfunni, um Eystrasaltslöndin og Pólland alla leið til upprunaslóða Francesco Negri á Adríahafsströnd Ítalíu. Þar með var ferðalaginu reyndar ekki lokið því hann ók aftur norður til Danmerkur, samtals rúmlega 10.000 kílómetra leið.

767 kílómetrar á dag

    Og farkosturinn var ekki af verri endanum: Triumph Trident árgerð 1975. Triumph „Þristurinn“ (nafnið Trident vísar til þriggja strokka vélarinnar) var síðasta hjólið sem hinar fornfrægu Triumph-verksmiðjur þróuðu áður en þær þurftu að játa sig sigraðar fyrir japönsku samkeppninni fáeinum árum síðar. Það má því segja að farkosturinn hafi fengið það í þrítugsafmælisgjöf að vera stýrt þessa tíu þúsund kílómetra eftir þjóðvegum Evrópu, yfir álfuna endilanga. 
    Hjörtur segir sig lengi hafa dreymt um að fara þessa leið og loks látið verða af því sumarið 2005. „Ég var búinn að ganga með þetta í maganum lengi en eiginlegur undirbúningur fór ekki í gang fyrr en um vorið, þannig séð á síðustu stundu,“ segir hann. „Vélin í hjólinu var tekin upp og hjólið allt yfirfarið – ég safnaði saman varahlutum og viðlegubúnaði, en eins og nærri má geta þarf að hugsa það vel hvað maður tekur með sér í svona ferð.“ 
    Auk viðlegubúnaðar, varahluta og vista þurfti hann að hafa með sér föt bæði fyrir hita og kulda.
„Hitinn fór niður í þrjár gráður norður við Nordkap en upp í 38 gráður þar sem ég lenti í hitabylgju á leiðinni í gegnum Slóvakíu. Það reyndist líka alveg nauðsynlegt að hafa regngalla meðferðis,“ segir Hjörtur. 
   Ferðaáætlunin var á þessa leið: Hjólið var sent með fragtskipi frá Reykjavík til Árósa með nokkrum fyrirvara, en þaðan var síðan lagt upp í ferðina þann 22. júlí. Áætlunin var að þeysa norður til Nordkap á þremur dögum, þ.e. beint strik norður eftir Svíþjóð og Norður-Finnlandi áður en ekið var inn í Noreg á síðasta kaflanum að nyrsta odda álfunnar. Hjörtur útskýrir að það hefði verið miklu seinfarnara að fara í gegnum Noreg alla leiðina. „
    Áætlunin var að vera kominn til Rimini sunnudaginn 31. júlí en þar beið fjölskyldan og hálfsmánaðar afslöppun. Áætlunin stóðst – ég var kominn í hádeginu þann dag upp að hótelinu þar,“ segir Hjörtur glettinn á svip, enda þýðir það að hann ók 7.289 km vegalengd á níu og hálfum sólarhring. Sem er 767 km að meðaltali á sólhring.

Nauðsveigt framhjá hreindýrum


Það sem rak á eftir honum fyrstu dagana var líka rigningin, sem dundi á honum nánast látlaust frá því hann lagði af stað frá Danmörku – með því að hraða sér í gegnum hana vonaðist hann til að komast út úr henni – en varð ekki kápan úr því klæðinu: það rigndi meira og minna alla leiðina til Nordkap og þaðan til Helsinki. Þar norður frá gekk á með skúrum en það hellirigndi á leiðinni suður í gegnum finnsku skógana. 
    „Úrhellið var þannig að ég ók framhjá mörgum bílum stopp í útskotum frá malbikuðum þjóðveginum þar sem rúðuþurrkurnar höfðu ekki undan. Ég varð auðvitað holdvotur í gegnum allt, en þar sem þetta var hlý rigning kom það lítið að sök. Ég valdi að minnsta kosti frekar að keyra sem hraðast í gegn um þetta, enda orðinn leiður á að pakka saman rennblautum útilegubúnaði,“ segir Hjörtur. Hann bætir við að ekki hefði verið nóg með að hann sjálfur varð votur inn að beini heldur fylltust líka stefnuljósin af vatni! Loftkældri Triumph-vélinni varð þó ekki meint af. 
     „Hættulegast var þó að á vegunum þarna norður frá stukku hreindýr gjarnan fyrirvaralaust upp á veginn, en það er yfirleitt mjög erfitt að koma auga á þau fyrir skóginum. Einu sinni munaði mjög mjóu, ég hefði getað gripið í hornin á einu hreindýrinu sem ég þurfti að nauðsveigja framhjá – og var þá kominn yfir á öfugan vegarhelming,“ segir Hjörtur. „Þá var gott að vera með „ABS“ – Antique Brake System,“ bætir hann við kíminn.  
    

Ekið um gamla sovétvegi.


Úrhellið var mest á leiðinni í gegnum skógana í Suður-Finnlandi en það stytti upp þegar til Helsinki var komið – „þar fór ég beint í ferju yfir til Tallinn í Eistlandi,“ heldur Hjörtur ferðasögunni áfram. „Þar var komin heiðríkja og sól.“ En mestu viðbrigðin við að koma yfir í Eystrasaltslöndin – sem voru hluti af Sovétríkjunum frá seinni heimsstyrjöldinni til ársins 1991 – voru vegakerfið. „Það er hræðilegt ástand á því víða ennþá. Það eru alls staðar framkvæmdir í gangi við endurnýjun og betrumbætur veganna eftir áratuga viðhaldsskort. Sem flýtir ekki för ferðalangs,“ segir hann. Það hafi hins vegar ekki reynst neitt vandamál að rata. „Enda var ég með þokkaleg kort og GPS-tæki.“ 

Í trukkaumferð í 15 sm hjólförum

Þegar Hjörtur ók í gegn um löndin þar eystra varð hann var við að framförunum er misskipt. „Í dreifbýlinu er eins og tíminn hafi staðið í stað.“ Á nýlögðum hraðbrautarspotta í Litháen rakst hann aftur á móti á nokkra stráka á dýrum nýjum kappakstursmótorhjólum að leika sér, spóla í hringi og spyrna á ofsahraða, með hraðbrautina sem einkaleikvöll. 
    Næsti áfangi var frá Kaunas í Litháen til Krakár í Suður-Póllandi. Það reyndist ekkert mál að komast yfir landamærin inn í Pólland. En það reyndi mjög á demparana í hjólinu að skrölta yfir pólsku þjóðvegina; þeir voru í afleitu ásigkomulagi,“ segir Hjörtur. „Á leiðinni flæktist ég inn í miðborg Varsjár, inn í mitt öngþveitið. Það tók svolítið á taugarnar, enda komst ég að því að umferðarmenningin í Póllandi er ekki ósvipuð því sem hún er á Íslandi – menn leggja mikið á sig til að komast bíllengd fram fyrir náungann og gefa enga sénsa. Svo er mikil vörubílaumferð á þessum vondu vegum. Hjölförin eru 10-15 sm djúp sem getur verið mjög hættulegt mótorhjólum. Ég prísaði mig sælan að það skyldi ekki rigna þar!“

Hitabylgja í Tatrafjöllum

Eftir þessa taugatrekkjandi reið eftir þjóðvegum Póllands hvíldist Hjörtur eina nótt á tjaldstæði í Kraká. „Þar fór þetta að verða skemmtilegra – vegirnir orðnir góðir og landslagið fjölbreyttara,“ segir hann. Leiðin yfir Tatrafjöllin, milli Póllands og Slóvakíu, var sérstaklega falleg. Næsti áfangi lá frá Kraká til Kärnten í suðurhluta Austurríkis. „Það var skollin á hitabylgja þarna og ég ók frá Kraká til Bratislava í Slóvakíu í yfir 30 stiga hita. Leiðin lá í gegnum fjallaþorp og fallega náttúru. Þarna í fjöllunum í Slóvakíu tók ég smákrók til að kíkja á bæinn Ruzomberok (sem eitt sinn hét Rosenberg upp á þýsku).“ Svo lá leiðin til Bratislava, sem er niðri á sléttunni við Dóná, um 60 km fráVín. 
     „Mér fannst ég vera aftur kominn yfir í menninguna þegar ég var kominn til Austurríkis,“ segir Hjörtur. „Ég var kominn suður fyrir borgina Graz sunnarlega í Austurríki þegar myrkur skall á og ég fann mér þægilegan grasbala til að sofa í, enda veðrið gott,“ segir Hjörtur. 
     

Hringnum lokað

     Tveimur og hálfri viku síðar var aftur haldið af stað áleiðis norður eftir, en í þetta sinn vestar. „Ég ók þvert yfir fjöllin í Toskana, í gegnum Flórens til Pisa. Þaðan meðfram ítölsku Rívíerunni, í gegnum Genúa og gisti í San Remo. Þaðan ók ég áfram eftir frönsku Rívíerunni, um Mónakó og Nice og sveigði síðan upp í frönsku Alpana hjá Grasse,“ segir hann. „Þetta er skemmtileg leið þarna norður eftir, í vesturjaðri Alpanna í Suðaustur-Frakklandi. Ég tjaldaði í litlum bæ sunnan við Grenoble.“ Þaðan lá leiðin til Genf í Sviss. Þar var byrjað að rigna aftur. 

„Ég ók í gegnum Sviss einmitt þegar allra mest úrkoman var þar í ágúst, aurskriður og tjón. Ég ætlaði að drífa mig í gegnum rigningarsvæðið en það reyndist endast alveg norður eftir öllu Þýskalandi. Þegar ég var kominn í gegnum Sviss yfir landamærin að Þýskalandi valdi ég að fylgja þjóðvegi B3 norður eftir. Hann liggur þvert norður eftir öllu landinu og er fjórföld hraðbraut á köflum.
     “ B3-þjóðvegurinn endaði norður við Stade. „Ég tók svo ferju yfir Saxelfi frá Wissenhafen til Glückstadt, en þar með var ég kominn langleiðina til Danmerkur. Næsti áfangastaður var Álaborg á Norður-Jótlandi. Hjólið fór svo aftur í skip í Árósum. Og ég flaug heim. Heildarkílómetrafjöldinn var 10.126,“ segir Hjörtur, ánægður með að hafa látið drauminn rætast. 
   
   Spurður um kostnaðinn við ferðalagið segir Hjörtur að vissulega hafi hann verið töluverður, en hann hafi ekki nennt að standa í því að leita styrktaraðila og því borgað allt úr eigin vasa. 
    En hvernig var ástandið á þrjátíu ára gömlum vélfáknum eftir þessa maraþon-yfirreið? „Hjólið stóðst þessa prófraun með prýði,“ segir Hjörtur. Ekkert gaf sig. Vélin var farin að leka smá olíu undir restina, annað ekki. Í Finnlandi varð það óhapp að hjólið lagðist fullklyfjað á hliðina þegar til stóð að smyrja keðjuna. Það olli ekki neinum teljandi skemmdum en það var hins vegar ekki hlaupið að því fyrir einn mann að ná hjólinu aftur á réttan kjöl með allar klyfjarnar. Á köflum, í umferðarteppum í miklum hita, svo sem í Suður-Frakklandi, fór ekki hjá því að loftkæld vélin hitnaði meira en góðu hófi gegndi. En enski öldungurinn lét það ekki á sig fá og skilaði knapa sínum heilum á leiðarenda.
Fréttablaðið 26.11.2006

24.11.06

MSÍ stofnað innan vébanda ÍSÍ

Keppni Nú eiga mótorhjóla- og vélsleðamenn sitt samband innan ÍSÍ.

Á tólfta þúsund mótorhjóla og snjósleða á skrá hérlendis og fjölgar stöðugt


STOFNDAGUR Mótorhjóla-og Snjósleðasambands Íslands (MSÍ), er í dag, 24. nóvember. Með stofnun sambandsins er brugðist við þörf til að koma íþróttagreininni á jafnréttisgrundvöll gagnvart öðrum íþróttum. Jafnframt veitist íslenskum keppendum í fyrsta sinn tækifæri til að keppa fyrir sitt heimaland. MSÍ hefur þegar verið samþykkt af Alþjóða mótorhjóla- og vélsleðasambandinu (FIM).
    Saga mótorhjólsins á Íslandi spannar yfir 100 ár en það var í október 1940 sem fyrsta keppnin í þolakstri á mótorhjólum var haldin. Breska hernámsliðið sem hélt keppnina. Fyrstu heimildir af íslenskum mótorhjólaklúbbum sem stóðu að keppnishaldi eru frá 1960. Það er síðan ekki fyrr en Vélhjólaíþróttaklúbburinn (VÍK) er stofnaður 1978 sem keppni í mótorhjólaíþróttum festir sig í sessi. Frá árinu 1979 hefur verið haldið Íslandsmót í motocrossi og frá 1998 í enduro (þolakstri). Árið 1997 fékk VÍK aðild að Íþróttabandalagi Reykjavíkur og varð þar með viðurkenndur aðili að ÍSÍ. Síðan þá hefur mótorhjólum til keppnisnotkunar og mótorhjólaíþróttafélögum fjölgað mjög mikið í landinu. Þau eru nú 17 talsins og dreifast jafnt í kringum allt landið. Félögin hafa flest hver einnig snjósleðaíþróttir á sinni könnu, en vinsældir þeirra hafa einnig verið að aukast í seinni tíð. 

    „Það var löngu orðið tímabært að stofna sérsamband fyrir þessar íþróttagreinar,“ segir Aron Reynisson, í undirbúningsnefnd sérsambandins. „Það er mikið verk óunnið í hagsmunabaráttu þessara íþróttagreina. Aðstöðuleysi hefur lengi verið vandamál með tilheyrandi aukaverkunum. Einnig hafa skráningar og tryggingamál verið í ólestri. Þar að auki er mikil vakning fyrir þessum íþróttum sem fjölskyldusporti fyrir almenning og er mikil fjölgun í yngri hópunum undanfarin ár eftirtektaverð. Lagaramminn sem snýr að iðkun barna undir 12 ára aldri er löngu úreltur og úrbóta er þörf,“ sagði Aron ennfremur. Í dag eru yfir 5.600 skráð mótorhjól og álíka margir vélsleðar í notkun í landinu. Hópurinn sem stundar þessa íþrótt er því stór og má geta þess að á fjölmennustu vélhjólaíþróttakeppni landsins sem haldin er á Kirkjubæjarklaustri hvert ár, tóku yfir 400 manns þátt á þessu ári. Áhorfendur voru þar einnig yfir tvö þúsund. 
 
Eftir Njál Gunnlaugsson