24.11.06

MSÍ stofnað innan vébanda ÍSÍ

Keppni Nú eiga mótorhjóla- og vélsleðamenn sitt samband innan ÍSÍ.

Á tólfta þúsund mótorhjóla og snjósleða á skrá hérlendis og fjölgar stöðugt


STOFNDAGUR Mótorhjóla-og Snjósleðasambands Íslands (MSÍ), er í dag, 24. nóvember. Með stofnun sambandsins er brugðist við þörf til að koma íþróttagreininni á jafnréttisgrundvöll gagnvart öðrum íþróttum. Jafnframt veitist íslenskum keppendum í fyrsta sinn tækifæri til að keppa fyrir sitt heimaland. MSÍ hefur þegar verið samþykkt af Alþjóða mótorhjóla- og vélsleðasambandinu (FIM).
    Saga mótorhjólsins á Íslandi spannar yfir 100 ár en það var í október 1940 sem fyrsta keppnin í þolakstri á mótorhjólum var haldin. Breska hernámsliðið sem hélt keppnina. Fyrstu heimildir af íslenskum mótorhjólaklúbbum sem stóðu að keppnishaldi eru frá 1960. Það er síðan ekki fyrr en Vélhjólaíþróttaklúbburinn (VÍK) er stofnaður 1978 sem keppni í mótorhjólaíþróttum festir sig í sessi. Frá árinu 1979 hefur verið haldið Íslandsmót í motocrossi og frá 1998 í enduro (þolakstri). Árið 1997 fékk VÍK aðild að Íþróttabandalagi Reykjavíkur og varð þar með viðurkenndur aðili að ÍSÍ. Síðan þá hefur mótorhjólum til keppnisnotkunar og mótorhjólaíþróttafélögum fjölgað mjög mikið í landinu. Þau eru nú 17 talsins og dreifast jafnt í kringum allt landið. Félögin hafa flest hver einnig snjósleðaíþróttir á sinni könnu, en vinsældir þeirra hafa einnig verið að aukast í seinni tíð. 

    „Það var löngu orðið tímabært að stofna sérsamband fyrir þessar íþróttagreinar,“ segir Aron Reynisson, í undirbúningsnefnd sérsambandins. „Það er mikið verk óunnið í hagsmunabaráttu þessara íþróttagreina. Aðstöðuleysi hefur lengi verið vandamál með tilheyrandi aukaverkunum. Einnig hafa skráningar og tryggingamál verið í ólestri. Þar að auki er mikil vakning fyrir þessum íþróttum sem fjölskyldusporti fyrir almenning og er mikil fjölgun í yngri hópunum undanfarin ár eftirtektaverð. Lagaramminn sem snýr að iðkun barna undir 12 ára aldri er löngu úreltur og úrbóta er þörf,“ sagði Aron ennfremur. Í dag eru yfir 5.600 skráð mótorhjól og álíka margir vélsleðar í notkun í landinu. Hópurinn sem stundar þessa íþrótt er því stór og má geta þess að á fjölmennustu vélhjólaíþróttakeppni landsins sem haldin er á Kirkjubæjarklaustri hvert ár, tóku yfir 400 manns þátt á þessu ári. Áhorfendur voru þar einnig yfir tvö þúsund. 
 
Eftir Njál Gunnlaugsson