7.11.06

DAGBÓK DRULLUMALLARA

 


Mikill uppgangur í klifurhjólamennsku


ÍSLANDSHEIMSÓKN klifurhjólameistarans Steve Colley dagana 9.-12. mars vakti mikla lukku.
Fullsetið var á tveggja daga klifurhjólanámskeiði hjá kappanum og börðu nokkur hundruð Íslendingar
Colley augum er haldin var opnunarsýning í JHM sport að Stórhöfða 35 föstudaginn 10. mars en
þar voru sýndar aksturslistir á heimsmælikvarða. Klifurhjólaíþróttin hefur verið á miklu klifri upp vinsældalistann hjá íslenskum ökumönnum enda íþróttin allt í senn krefjandi, skemmtileg og ekki
mjög kostnaðarsöm. Síðast en ekki síst eru klifurhjól umhverfisvænasta mótorsport sem fyrirfinnst  þar sem hljóð og loftmengun er álíka mikil og af garðsláttuvél og hjólin eru mest notuð á grjóti en ekki í gróðri. Einn af þeim sem komu að heimsókn Colley var Jón Magnússon, betur þekktur sem Jón Magg í JHM en hann á einnig sinn þátt í vexti klifurhjólaíþróttarinnar á Íslandi. Hvers vegna hafa vinsældir íþróttarinnar aukist svona mikið að undanförnu? „Ég held að hjólamenn séu að átta sig á einfaldleikanum við klifurhjólaíþróttina. Það er hægt að stunda það í bakgarðinum heima. Íþróttin er líka góð undirstaða bæði fyrir Enduro og Motocross. Jafnvægið verður að vera í lagi.“ Hefurðu hugmynd um hversu margföld aukningin í sölu klifurhjóla er milli ára? „Fyrir rúmu ári voru til tvö nýleg klifurhjól á landinu. Þá var haldin klifurhjólasýning sem ýtti greinilega við mörgum sem hafði  lengi langað að prófa en aldrei þorað. Í dag eru a.m.k. 30-35 hjól á landinu og ég sé fram á að selja öll þau hjól sem koma í hús til mín á þessu ári.“ Hvað kostar að kaupa og eiga klifurhjól í samanburði við önnur mótorhjól? „Nýtt klifurhjól kostar innan við 600 þúsund kr. Skór og hjálmur eru nauðsynlegir fylgihlutir. Hlífðarfatnaður í Enduró eða Motocross dugar skammt því hann er svo
þungur og fyrirferðarmikill. Bensíneyðsla er lítil, yfirleitt um einn lítri á klukkutíma. Slit á dekkjum
og keðju er mun minna en menn eiga að venjast svo að í stuttu máli er þetta miklu ódýrari útgerð en
t.a.m. við Motocrosshjól.“ Viggó Örn Viggósson, stjúpsonur þinn, er einn vinsælasti endúróökumaður  á Íslandi og er þekktur fyrir mikinn styrk og hörku í akstri. Hann virðist hinsvegar eyða mestum tíma í klifurhjólið þessa dagana. Veistu hvers vegna? „Ætli það sé ekki bara vegna
þess hvað það er auðvelt að skreppa á klifurhjól, miklu minna umstang. Klifurhjólið er fyrirferðarlítið og er ekki nema 69 kg. Svo þarf það svo lítið svæði, maður finnur sér erfiða þraut og glímir við hana þangað til maður hefur sigrað hana. Eftir það er maður alveg að springa af mæði og pakkar þá saman og hendist heim sæll og glaður.“ Fullt var á námskeiðinu hjá Colley. Einnig var fjölmenni á sýningunni sem Colley hélt í JHM sport. Áhuginn virðist því töluverður. Er áhuginn bóla eða á klifurhjólið sér framtíð á Íslandi? „Þetta er rétt að byrja og framtíðin er björt. Áhuginn er að aukast
mikið. Stundum finnst mér menn byrja of geyst og ætla sér strax að fara í erfiðustu þrautirnar. Ég held að rétt væri að sjá menn byrja á byrjuninni, það er einföldum jafnvægisæfingum, og ná valdi á  hjólinu. Klifurhjólaíþróttin er fimleikar; ökumaðurinn byrjar þrautina með líkamsæfingu og notar svo hjólið til að hjálpa sér að klára þrautina, en ekki öfugt. Menn verða að gleyma að þeir kunni á mótorhjól þegar þeir byrja í klifrinu. Mótocross eða Enduro taktar duga ekki í því. Hins vegar virkar þetta vel í hina áttina og hjálpar kunnátta á klifurhjóli bæði í Mótocrossi og Enduro. Hver veit,
ætli við eignumst ekki góða ökumenn á þessu sviði næstu 10 árin eða svo.
Morgunblaðið 7 nóv 2006
moto@mbl.is