„Það hefur aldrei staðið til að segja okkar sögu opinberlega en mér er orðið svo misboðið af framgöngu Vegargerðarinnar að ég tel alveg tilefni til þess nú í þeirri von að vekja athygli á hversu illa gengur að fá forsvarsmenn Vegagerðarinnar til að auka öryggi vegfarenda á þeim stöðum þar sem fullt tilefni er til úrbóta.“
Þetta segir Ágúst Þór Pétursson, húsasmíðameistari, bifhjólamaður og vegfarandi, í athyglisverðri grein sem hann skrifar í Morgunblaðið um helgina.
Í grein sinni gagnrýnir hann Vegagerðina og yfirvöld harðlega fyrir að tryggja ekki öryggi vegfarenda betur. Málefnið stendur Ágústi nærri enda missti hann vin sinn og félaga í skelfilegu slysi á síðasta ári.
„Síðasta sunnudaginn í júní 2019 vorum við mótorhjólafélagarnir á ferðalagi ásamt mökum. Þann dag misstum við vin okkar og félaga í hræðilegu slysi sem að hluta til má kenna um slælegum merkingum Vegagerðarinnar við einbreiða brú á Innstrandarvegi, vegur nr. 68, skammt frá vegamótunum inn á Djúpveg sunnan megin við Hólmavík.“
Ágúst segir í grein sinni að þannig hátti að áður en komið er að þessari einbreiðu brú úr austurátt sé blindhæð.
„Frá toppi blindhæðarinnar hallar bæði að blindhæðinni og niður að brúnni og að brúarenda eru ca. 95 metrar frá blindhæðinni sjálfri. Eina merkingin sem gefur til kynna að framundan sé einbreið brú eru tvö vegamerki ásamt upphrópunarmerki. Ekkert um að blindhæð sé þar á milli eða hversu stutt er í brúna frá vegamerkjunum eða blindhæðinni eða önnur tilheyrandi merki, t.d. hraðatakmörkun eins og víða má sjá við einbreiðar brýr. Þegar slysið varð hafði umferð að austanverðu stöðvast við brúna vegna umferðar að vestanverðu og við brúna biðu þrjár bifreiðar auk þeirrar vegalengdar sem var frá fyrsta bíl að brú sem beið við brúarendann að austanverðu. Ef reiknað er með bilum á milli bifreiða má ætla að frá aftasta bíl að blindhæð hafi einungis verið um 20-30 metrar. Við þessar aðstæður kemur félagi okkar akandi að austanverðu yfir blindhæðina og sér því miður aðstæður allt of seint sem endar með þessu skelfilega banaslysi.“
Ágúst kveðst ekki ætla að reyna að lýsa upplifun þeirra sem voru viðstaddir slysið sjálft eða þeirra sem komu að því skömmu síðar. „Það getur hver sem er ímyndað sér angistina og þá ömurlegu lífsreynslu sem það er. Eitthvað sem ekki er hægt að óska sínum versta óvini að upplifa, eigi maður slíkan.“
Ágúst segir að þegar leið frá þessu hörmulega slysi hafi verið haft samband við forsvarsmann Vegagerðarinnar fyrir norðan og hann inntur eftir því hvort ekki mætti koma upp meiri og betri merkingum við blindhæðina. Segir Ágúst að um augljósa slysagildru væri að ræða og þá hefði komið fram að áður hefði komið til sambærilegra aðstæðna sem enduðu með slysi, en þó ekki banaslysi.
„Var rætt um merkingu blindhæðar, hraðatakmörkunarskilti til samræmis við það sem er við margar einbreiðar brýr og krappar beygjur á vegum landsins, og jafnvel blikkljós. Vel var tekið í þessar tillögur og rætt um að leita úrbóta. Meira aðhöfðumst við ekki í þessu máli enda töldum við að eftir slíkt banaslys færi fram rýni og endurskoðun á merkingum með tilliti til öryggis við þessa tilteknu einbreiðu brú.“
Ágúst segir að þennan sama sunnudag á þessu ári, síðasta sunnudag júnímánaðar, hafi hann farið ásamt vinum og fjölskyldu hins látna vinar á slysstað til að setja upp minningarskjöld.
„Þá, okkur til mikilla vonbrigða og ekki síður undrunar, hafði ekkert breyst með merkingar og allar aðstæður þær sömu og árið áður. Það er, nákvæmlega ári síðar hafði ekkert af því sem rætt var um verið framkvæmt til að auka öryggi vegfarenda við þessar slæmu aðstæður sem þarna eru til að fyrirbyggja að slíkt gæti gerst aftur og jafnvel ítrekað. Að nýju var haft samband við Vegagerðina og hvert var svarið? Jú, það hafði ekki fengist fjármagn til frekari merkinga. Öryggi – Framsýni – Þjónusta –Fagmennska, manni verður orðfall. Hvers virði er mannslíf í augum Vegagerðarinnar?“
Ágúst segir að þannig hafi hitt á að þennan sama dag hafi hið sviplega bifhjólaslys orðið á Kjalarnesi sem ætla má að megi rekja til ófullnægjandi öryggis og fagmennsku við vegabætur. „Hvað þarf mörg banaslys í umferðinni til að opna augu þessa fólks sem stjórnar og ber ábyrgð á öryggismálum innan Vegagerðarinnar? Er eitt slys ekki nægjanlegt til að vekja fólk og gera betur?“
Ágúst skorar á stjórnendur Vegagerðarinnar að taka til í eigin ranni og gera allt til að uppfylla einkunnarorð stofnunarinnar – Öryggi – Framsýni – Þjónusta –Fagmennska – svo koma megi í veg fyrir að enn fleiri vegfarendur slasist eða láti lífið.
„Jafnframt skora ég á samgöngumálaráðherra að beita sér fyrir því að tekið verði á öryggismálum innan Vegagerðarinnar með festu og af ábyrgð.“