1.9.20

Nýjung í markaðssetningu mótorhjóla.

Hjólin reyndust vel á holóttum og mikið grýttum Kaldadalnum.


Pabbi sem þekktur er undir nafninu Hjörtur Líklegur hefur verið “guide” hjá Reykjavík Motor Center og Biking Viking Flatahrauni 31 Hafnarfirði í nokkur ár. RMC er umboðsaðili fyrir BMW mótorhjól og þar er rekin mótorhjólaleigan Biking Viking í samstarfi við BMW í Þýskalandi. 

Á hverju ári koma ný BMW mótorhjól til landsins og eru hér fá júní fram í september og er þeim þá skilað í BMW mótorhjólaverksmiðjuna. Í ár voru fáir viðskiptavinir sem leigðu hjól þar sem að flestir viðskiptavinirnir koma ýmist frá USA eða Kanada og þau lönd voru lokuð vegna Covid, því stóðu hjólin ónotuð og glæný í Hafnafirði, þá datt eigandanum í hug að bjóða upp á prufuakstur gegn vægu gjaldi á nýjum BMW hjólunum, en hingað til hefur almennt ekki verið hægt að prófa ný mótorhjól á Íslandi fyrr en maður er búin að sérpanta það og borga.
Óvenjuleg nýjung í auglýsingu og markaðssetningu.
Hádegisstopp við Deildartunguhver
Í byrjun ágúst var auglýst á Facebook-síðu Biking Viking að RMC væri að bjóða upp á prufuakstur á BMW 1250 GS og BMW F750 GS, annarsvegar var helgarferð á Snæfellsnes og hins vegar dags ferð í Borgarfjörð og Kaldadal til baka. Pabba vantaði mann í að vera eftirfari í dags ferðina og bauð mér starfið. Var fljótur að segja já og fanst það mikið traust þrátt fyrir að vera ekki nema tuttugu og þriggja ára og jafn hár og Tom Cruise (170cm.), fékk til ferðarinnar glænýtt BMW 1250 GS hjól sem skilar 134 hestöflum og er jafnvígt sem malbikshjól og til aksturs á malarvegum. Alls voru 11 ökumenn að prófa hjólin, ýmist 750 eða 1250 hjól. Pabbi var farastjóri á sínu gamla BMW 1200, en við hinir 12 allir á glænýjum hjólum.
Kallinn tók þessa mynd, ég í stöðumælavarðarvestinu.
Kjötsúpan vel þegin við Deildartunguhver.
Lengra var ekki þorandi að fara á þessu hjóli
 þó svo að mig hafi langað.
Strax í Mosfellsbænum gaf einn ferðafélaginn merki um að mælaborðið í hjólinu segði að eitthvað væri að og kom ég þeim skilaboðum í fremsta hjól sem stoppaði við viktarskúrinn upp á Kjalanesi. Villan var þar lesin og reyndist vanta aðeins loft í framdekkið á hjólinu sem hafði staðið óhreyft síðan í maí. Eftir að pumpað hafði verið í “með Líklegum krafti” (ætli hann hafi pumpað svona hressilega í mömmu þegar ég var búinn til vill ég ekki fá að vita) var haldið af stað um Hvalfjörð, Dragháls, í Skorradal og stoppað við Deildartunguhver í kjötsúpu (pabbi borgaði). Eftir mat var haldið áfram og Hvítársíða ekin fyrir norðan Gráhraun og næsta stopp var við upphaf vegsins um Kaldadal fyrir ofan Húsafell.
Svalandi að keyra upp að Langjökli.
Síðasta stopp fyrir Kaldadal.
Hitinn var orðin töluvert meiri en spár höfðu gert ráð fyrir, en hæsta tala sem sást í mælaborðinu var 26 gráður þarna við Kallmannstungu. Menn drifu sig af stað til að fá smá loftkælingu, en við afleggjarann þar sem farið er upp á Langjökul stakk ég upp á því við “gamla” að ég og þeir ökumenn sem treystu sér færum upp að jöklinum í smá kælingu á meðan hann færi áfram með hina eftir Kaldadal. Það var ljúft að koma upp í svalandi átta gráðu vindinn við jökulröndina og geta fyllt vatnsflöskuna af nýbráðnuðu ísköldu vatni.
Leiðin kláruð um Grafning og Nesjavallaleið.
Á leið upp að Langjökli af Kaldadalsvegi.
Hjólin skiluðu Kaldadal á þéttri gjöf (kallinn farin á undan og var enginn til að hægja á yngri “inngjafa graðari” mótorhjólamönnum) svo að við keyrðum frekar þétt niður þar til að við náðum gamla og þeim þrem sem hann var með fyrir ofan Sandhvultarvatn. Þegar við komum niður á Þingvöll var smá kaffistopp fyrir loka kafla leiðarinnar um Grafning og Nesjavallaleið. Alls var ekið 310 km. og rétt tæplega helmingurinn á malarvegum. Fyrir mér var það mikill heiður að veta treyst sem barnapía fyrir fullorðna menn (gamla karla) í prufuakstri á nýjum leiktækjum. Fékk nýtt hjól til að prófa, frítt bensín og kjötsúpu á “tankinn”. Held að betri dagar séu ekki til (fyrir utan gula vestið, mér leið eins og ég væri á leið á grímuball klæddur eins og umferðarkeila),  væri allveg til í að gera þetta aftur (frétti af því að til standi að það verði ein ferð í viðbót upp úr miðjum september, ég er til ef vantar eftirfara).
Ólafur Arnar, Tome Cruise eða Gaston Raier, allir svipað stórir.
                                 Ólafur Arnar Hjartarson Nielsen (Óli Prik)
 P.S.  Tían hefur nokkuð áraðanlegar heimildir fyrir því að boðið verði upp á prufuakstur á þessum hjólum  laugardaginn 12. og sunnudaginn 13. September og svo aftur laugardaginn 19. og sunnudaginn 20. September.