19.9.88

Mótorhjólið er sautján árum eldra en eigandinn (BB1988)


- sem þó er ekkert unglamb lengur

Mótorhjól eru allmiklu sjaldséðari á Ísafirði á seinni árum en í gamla daga, þegar Matthías Bjarnason og aðrir járnkarlar voru upp á sitt besta og þeystu á fretandi vélfákum um götur Ísafjarðar, sjálfum sér og ungum stúlkum til yndisauka en eldri borgurum stundum til talsverðrar hrellingar.
 Á góðviðrisdögum um helgar má þó stundum enn í dag sjá mann á rauðu, fallegu og fornlegu mótorhjóli á fremur rólegri siglingu um götur bæjarins.
Þetta er Þorbergur Kjartansson, starfsmaður hjá Íslandspósti á Ísafirði og áhugamaður um gömul mótorhjól.  Hann er 36 ára að aldri en sparihjólið hans er miklu eldra, eða fimmtíu og þriggja ára gamalt, smíðað árið 1945 í Englandi, rétt í stríðslokin. Hjólið er af gerðinni Ariel og mun hafa komið mjög snemma hingað til lands, en hluti af því er reyndar úr hjóli af gerðinni Matchless.
Á tímum innflutningshafta á sjötta áratugnum hafa menn trúlega orðið að tjasla saman því sem til var. Það var búið að skeyta saman hluta úr grindum og í rauninni ómögulegt að gera það upp sem original á hvorn veginn sem var, segir Þorbergur.  Þegar  ég fékk hjólið var það í  því ástandi að um tvennt var að ræða, nota það í varahluti eða leggja talsverða vinnu í að gera  það upp eins og það hafði verið skeytt saman.
Áhugi Þorbergs á mótorhjólum vaknaði  ekki fyrr en hann var um tvítugt.  Þá prófaði ég hjól í eigu mágs míns úti í Þýskalandi, en hann hefur fengist við að gera upp gömul bresk hjól. Umræddur
mágur er Þjóðverji, en Frauke Eckhoff eiginkona Þorbergs er þýsk að uppruna. Þorbergur sjálfur er úr  Reykjavík en hefur búið á Ísafirði ásamt fjölskyldu sinni síðustu tólf árin. Hann hefur reyndar ekki átt mjög mörg hjól gegnum tíðina. Nú á hann tvö bresk hjól, Ariel-hjólið gamla og annað yngra af gerðinni Norton, en þriðja hjólið er Honda CL árgerð 1973. Yngri hjólin eru bæði sundurtekin í bílskúrnum um þessar mundir og bíða viðgerðar og yfirhalningar. Ég átti fyrst japanskt hjól af gerðinni Suzuki TS 400, en ég hafði meiri áhuga á breskum hjólum og fékk mér Norton-hjól og hef verið mest á því. Það er heppilegra til að ferðast á en Ariel-hjólið, sem er meira til spari.
 Krakkarnir hafa gaman af því að fara með mér á hjólinu. Annars hef ég alveg eins gaman af því  að stússa við þetta inni í bílskúr. Hondan er með 350 cc mótor og  Þorbergur er rétt byrjaður að koma henni saman. Þau hjól eru frekar ódýr en varahlutirnir dýrir,  þannig að í raun og veru borgar sig varla að gera það upp, segir hann. Ariel/Matchless-hjólið er tveggja sæta með  350 cc mótor. Þorbergur eignaðist það árið 1987.  Þá var að vísu rétt hægt að setja það í gang, en mótorinn var þannig mixaður að hann smurði sig ekki. Hann er skráður um 17 hestöfl og hjólið á að geta náð 110-120 km hraða, ef mikið liggur við. Þorbergur kveðst samt ekki hafa prófað það. Þetta er ekki þannig hjól að maður sé að flýta sér mikið á því. Hjólið er með svokallaðri magnettukveikju, eins og áður tíðkaðist, en ekki með platínukveikju, og sitthvað annað er með fornlegum hætti. Ekki veit Þorbergur hvað hann hefur varið miklu af  tíma og peningum til að gera gamla hjólið upp.  Ég hef stöðugt verið að stússa eitthvað í því þennan liðlega áratug sem ég er búinn að eiga það, en maður hefði getað verið langtum fljótari. Stundum þarf að kaupa varahluti að utan og þá þarf venjulega að bíða eftir góðu tækifæri. Ariel-reiðhjólaverksmiðjurnar byrjuðu að framleiða mótorknúin þríhjól fyrir síðustu aldamót en fyrirtækið hætti framleiðslu árið 1965 eða þar um bil. Í Bretlandi er mikill áhugi á svona gömlum farartækjum, þannig að stundum er auðveldara að verða sér úti um varahluti í þau en miklu yngri hjól og ýmsir varahlutir í þau eru framleiddir sérstaklega í dag.  Margt í þessum gömlu hjólum er sameiginlegt með ólíkum tegundum. Gírkassinn var t.d. notaður af a.m.k. tveimur eða þremur öðrum  mótorhjólaverksmiðjum og magnettukveikjan og blöndungurinn í svo til öllum breskum mótorhjólum á þessum tíma voru frá sama framleiðanda. Hluti sem þarf að endurnýja reglulega, eins og t.d. púströr, er yfirleitt auðvelt að fá, segir Þorbergur. Norton-hjólið er 850 cc, smíðað árið 1974, og þótti dálítið gamaldags á þeim tíma. Vélin og gírkassinn eru aðskilin og keðja á milli, svipað  og á Ariel-hjólinu, og hönnunin í meginatriðum eins og var í kringum  1950. Breskir mótorhjólaframleiðendur áttu margir í rekstrarerfiðleikum um og upp úr 1960 og breyttu lítið um hönnun og framleiðsluhætti og ýmsir fóru á hausinn.  Samt hafa þessi hjól ákveðinn sjarma, segir Þorbergur. Norton-hjólið er um þessar mundir sundurtekið vegna fremur smávægilegrar bilunar, en stykki úr því þarf ég að senda út til viðgerðar. Ég ætla að nota tækifærið á meðan og gera það flott í vetur. Það getur komist þó nokkuð hratt, eða upp í 200 km hraða. Ég hef aðeins prófað það í botni á hraðbrautunum úti í Þýskalandi, en ekki hérlendis. Hraðamælirinn sýndi 200 km en ég veit ekki hvort hann er alveg réttur. Mér leið nú ekkert allt of vel á þeim hraða.  Ef þú seldir gamla Ariel-hjólið, hvað fengir þú fyrir það?  Ég fengi nú meira fyrir Nortoninn. Ég gæti selt hann í Bretlandi fyrir 4-5 þúsund pund ef hann er í topplagi, en Ariel-hjólið færi kannski á 1.500 pund. Það er mikið til í Bretlandi af gömlum hjólum sem voru einkum notuð á sínum tíma til að fara í og úr vinnu.
Um 1930 voru þar fleiri mótorhjól en bílar.  Sýna bílstjórar hér mótorhjólamönnum tillitssemi?  Já, yfirleitt. Ef maður er alltaf viðbúinn hinu versta, þá á maður að sleppa þokkalega frá þessu. Þorbergur kveðst aðeins einu sinni hafa lent í óhappi.
Það var þegar bíll sem keyrði samhliða honum upp Hverfisgötuna beygði í veg fyrir hann, þannig að handfangið á handbremsunni straukst við hliðina á bílnum.  En ég slapp alveg og hjólið líka, en bíllinn skarst dálítið illa á hliðinni.

Bæjarins besta   16.09.1988