22.8.98

Tórðu til að tæta - tættu til að tóra!

Harley Davidson 95 ára  

Goðsagnablær bandarísku mótorhjólanna Harley-Davidson jaðrar við klisju. Geir Svansson komst þó að því að hún er ekki innantóm og að á Íslandi er til fólk sem lifir sig inn í hana.

MÓTORHJÓL eru ekki bara eitt helsta karlmennskutákn aldarinnar heldur líka og einkum tákn fyrir frelsi og uppreisn gegn borgaralegum gildum. Ímynd ístöðulausa uppreisnarmannsins á 6. og 7. áratugnum, t.d. í holdgervingu James Deans (Rebel Without a Cause), Marlon Brando (The Wild One), og Peter Fonda og Dennis Hooper í Easy Rider, er ekki fullkomin án mótorhjólsins. Hjólið er andstæða fasteignarinnar og allra skuldbindinga, lykill að frelsinu en líka afsökun og ávísun á eirðarleysi.
   En útlaginn getur ekki setið hvaða hjól sem er. Hvort sem ofantaldir kappar hafi setið sömu gerð mótorhjóla eða ekki er samt víst að í goðsögninni og í hugum flestra er það ein tegund sem kemur upp í hugann þegar á þá er minnst: Harley-Davidson,  erkitákn amerískrar einstaklingshyggju.

Ern öldungur

    Harley-Davidson mótorhjólið er næstum jafnaldra öldinni og á 95 ára afmæli í ár. En-Davidson-bræðurnir, William D,  Walter og Arthur og vinur þeirra, William S. Harley settu saman fyrsta mótorhjóiið árið 1903, í skúr í bakgárði Davidson fjölskyldunnar tMilwaukee.
   Öldungurinn er ern þrátt fyrir aldur og hefur frægðarljómi hans sjaldan verið sterkari en einmitt í dag. Hann hefur reynt ýmislegt um dagana. Uppgangur í árdaga var mestur í fyrri heimsstyrjöldinni en kreppan mikla, á fjórða áratugnum, reið honum næstum að fullu. Af yfir eitthundrað fyrirtækjum lifðu aðeins tvö: Harley-Davidson og Indian mótorhjólafyrirtækið.
   Annað uppgangstímabil varð í seinna stríði en Harley-Davidson framleiddi meira en 90 þúsund hjól fyrir bandamenn. Árið 1953 lagði Indian fyrirtækið upp laupana og var þá Harley-Davidson eini mótorhjólaframleiðandinn á bandarískum markaði. Upp úr þessu varð HarleyDavidson hjólið óumdeildur konungur götunnar og heldur þeim titli enn.
   Vinsældir myndarinnar The Wild One, með Marlon Braindo í hlutverki mótorhjólatöffara sem setur allt á annan endann í litlu þorpi ásamt mótórhjólagengi sínu, kom þeirri hugmynd inn hjá venjulegu fólki að mótórhjólafólk væri „útlagar" og illvirkjar upp til hópa. Svarti leðurjakkinn og buxurnar urðu á sama tíma ekki eingöngu tískumerki heldur órækt tákn ákveðins lífsstíls. 
   Þessar hugmyndir hafa loðað við síðan og hefur íslenskt mótorhjóiafólk ekki farið varhluta af því. Atök Heljarengla og Bandíta á Norðurlöndum og einkum í Danmörku hafa svert önnur mótorhjólasamtök í álfunni og einnig hér heima.
   Ógrundaðar sögusagnir um tengls og ítök Heljarengla hérlendis koma upp annað veifið og slíkar getgátur hafa jafnvel birst í blöðum. En hvað sem meintum tengslum einstakhnga við erlend glæpasamtók líður þá eru viðlíka vangaveltur, alhæfingar og sleggjudómar afar óréttlátir gagnvart heiðvirðu hjólafólki lýðveldisins.

Goðsagnir og staðreyndir

Ekki verður fram hjá því litið að ofangreind atriði, útlegð, uppreisn, eirðarleysi og andfélagsleg hegðun, eru þættir í goðsögninni sem fylgir mótorhjólalíferni eins og skuggi og Harley-Davidson hjólinu kannski sérstaklega. En þó goðsögur séu lífseigar og geymi í sér sannleikskorn er ekki þar með sagt að þær standist tölfræðilega skoðun í veruleikanum. Þannig hafa kannanir í Bandaríkjunum sýnt að hinn dæmigerði Harley-Davidson eigandi þar í landi er rúmlega fertugur karlmaður með um 5 milljónir í árstekjur, eða ríf 400 þúsund á mánuði, og notar hjólið til tómstunda en ekki tómhyggjulegra uppreisna. Og er þá fokið í flest skjól fyrir uppreisnarsegginn rótlausa og Heljarengilinn ógurlega!
   Sennilega verður þessi mynd raunsannari á íslandi með hverju góðærinu. Undanfarin misseri hafa t.d. þó nokkrir nafntogaðir forstjórar stórfyrirtækja í yngri kantinum eignast Harley-Davidson mótorhjól. Liggur við að hægt sé að tala um eins konar „forstjóratísku" í þessu sambandi. Þar sem forstjórar á íslandi eru eflaust alþýðlegri en kollegar þeirra erlendis er eins víst að þeir tilheyri Bifhjólasamtökum Lýðveldisins og hjóli með þeim um helgar. Sem hópur skera þeir sig þó úr að þvi leyti að þeir keyra um á nýjum eða nýlegum árgerðum hjólanna hérlendis en það er ekki á allra færi þar sem Harley-Davidson hjólin eru rokdýr.

Á vettvang

En ofangreindar upplýsingar fengnar úr bók gefa lítið til kynna um hinn raunverulega „mótorhjólatöffara", hvað það þýðir þegar mótorhjólið er ekki bara tómstundagaman heldur lífsstíll. Til þess að fá nasasjón af því fór undirritaður á vettvang og ræddi við tvo íslenska Harley-Davidson eigendur sem „tóra til að tæta" og „tæta til að tóra" svo notuð sé heldur groddaraleg þýðing á Harley-Davidson mottóinu: „Live to ride. Ride to live."

Gunnar Þór Jónsson, kallaður Gunni í Gullsport, er 32 ára gamall sérfræðingur í mótorhjólum. Mér verður á að spyrja hann hvenær hann hafi byrjað á dellunni og fæ fyrirsjáanlegt svar: „Þetta er ekki della, heldur lífsstfll," segir Gunni með ýktum áherslum og brosir að klisjunni sem hann var að láta út úr sér. En klisjan á samt við rök að styðjast. Að minnsta kosti í hans tilviki.
   Hann byrjaði að dytta að mótorhjólum 11 ára gamall. „Pabbi gaf mér snemma hjól en til að halda aftur af mér var það allt í pörtum. Hann vonaðist til að ég væri endalaust að vinna í því svo ég kæmist ekki á götuna. Það dugði ekki til því eftir tvær vikur var ég farinn að fræsa göturnar."
   Gunni byrjaði fyrir alvöru að vinna í hjólum árið 1989. Árið 1995 byrjaði hann svo að vinna á verkstæðinu í Mótorhjólaversluninni Gullsporti. Hann segist hafa átt alls konar mótorhjól í gegnum tíðina og prófað allt sem hægt er að prófa í þeim efnum. Harley-Davidson eignaðist hann ekki fyrr en seint og síðarmeir. „í gamla daga gat maður ekki hugsað sér að eiga Harley-Davidson. Maður gerði grín að þessum köllum sem voru alltaf skítugir úti í vegarkanti að gera við. Manni fannst Harlinn þungur, máttlaus og svo komst hann ekki hratt. Núna, eftir að maður er búinn að kynnast hjólinu, hefur maður komist að raun um að það besta við hjólið er að það er þungt, máttlaust og kemst ekki hratt!"






Breytt hugarfar

Að sögn Gunna verður alger hugarfarsbreyting. „Eftir að maður er búinn að keyra af sér hornin, búinn að gera allt sem hægt er að gera á hjóli þá er bara eftir að setjast á hjól til að hafa það notalegt. Ókei, maður er alltaf grútskítugur, með tannfeiti á milli puttanna en helmingurinn af nautninni er að dunda í hjólinu sínu."
   Þótt skringilegt megi virðast hafa Harley-Davidson hjólin haft á sér orð fyrir að vera dyntótt og alls ekki gallalaus. Þetta álit má sumpart rekja til hjóla sem framleidd voru í lok 7. og í byrjun 8. áratugarins en á því tímabili var óstjórn í fyrirtækinu og ýtrustu gæðakröfum ekki fylgt. En Harley-fólk lætur þetta ekki á sig fá og segir hjólin einungis hafa meiri sál en önnur hjól. Viðgerðin, stillingin, er hluti af lífsstílnum. Og eins og Robert Pirsig benti á í bók sinni, Zen and the Art of Motorcycle Maintenance, þá verður maður að hlusta á hjólið sitt; það er ekki eingöngu dauð vél.

Of heimsk til að bila


„Harlinn bilar ekki," segir Gunni. „Ef þau stoppa þá er það vegna þess að þau þarf að stilla. Vélin er of heimsk, of einfóld, til að bila. Þetta er knastás, sveif, stimplar og ef maður hefur þjöppun, neista og bensín, þá gengur þetta. En það verður að stilla mótorinn reglulega, ef maður gerir það ekki þá geta þau auðvitað bilað. Ef maður hlustar á hjartað í hjólinu sínu þá bilar það ekki."
   Gunni telur að elsta hjólið á íslandi sé sennilega frá 1925. Harlinn hans Gunna er frá 1944. Algengust á íslandi eru hjól frá '72-73. En á íslandi eru u.þ.b. 60 hjól á skrá en þau eru ekki öll á götunni. Splunkuný hjól eru fá vegna verðsins.
   Að lokum verður mér á að spyrja nánar út í „mótorhjólalífsstílinn" almennt og það leynir sér ekki í svipnum á Gunna að spurningunni er ofaukið. „Það er fjöldinn allur af Sniglum (þ.e. meðlimum í Bifhjólasamtökum Lýðveldisins) sem er í þessu stuttan tíma. Hjá þeim er þetta hobbí, della sem gengur yfir. Hjá öðrum er þetta lífsstíll þar sem menn lifa og hrærast í þessu ...
   Ég veit ekki af hverju ég er að reyna að svara þessari spurningu. Það er ekki hægt. Ef þú ert ekki á hjóli þá getur þú ekki skilið hvað um er að ræða. Eins og þegar það er spurt hvað sé svona töff við að vera á mótorhjóli. Ef þú ert „húkkt" þá er það ekkert töff að vera á hjóli en það er fáránlegt að vera það ekki!"

Draumahjólið

Jón Ingi Hannesson er einn þeirra sem lifir sig inn í lífsstílinn títtnefnda. Hann starfar sem leiðbeinandi í fræðsludeild hjá Iðntæknistofnun. En þar fyrir utan er það „bækið", eins og hann kemst að orði, eða hjólið. Hann er búinn að eiga mótorhjól síðan 1991. Harley-Davidson hjólið sitt eignaðist hann síðasta vetur. „Ég hef átt japönsk hjól áður en hef stefnt að því alla tíð að komast á Harley og nú er toppnum náð. Draumurinn rættist."
   Hjólið hans er '87 módel. „Það var til hér á landi. Eg hef breytt því mikið. Ég lengdi t.d. gaffalinn, teygði á honum, til að fá svona aðeins meira „Easy Rider" útlit. Setti líka stærri tank."
   Jón Ingi kveðst vera búinn að selja gömlu hjólin og hann geti ekki hugsað sér að fara aftur á þannig hjól. En af hverju? „Veit það ekki. Þetta er bara allt öðruvísi. Þetta er náttúrlega frumgerðin, má segja. Það er líka allt öðruvísi að keyra þessi hjól. Þau eru miklu meira lifandi og hafa miklu sterkari sál. Maður er miklu fljótari að tengjast þessu hjóli heldur en öðrum.
   Harlinn endist mun betur með réttri meðferð. Maður sér það í erlendum blöðum að það er búið að keyra þau 4-5 hundruð þúsund mílur sum hver! Það þarf auðvitað að gera einhverjar eðlilegar endurbætur á þeim. Það eru margir sem eru að keyra á '30-'40 módelunum enn þá.
   Svo er það líka kúlturinn í kringum þetta. Þinn lífsstíll mótast af þessu. Þú getur ekki bara keyrt Harley-Davidson og verið samur á eftir. Ósjálfrátt þá fer þinn karakter að taka mið og mark af þessu hjóli. Þú ferð að klæða þig í samræmi það og vilt fá eitthvað á hjólið eða tengt því í gjöf o.s.frv.
   Ég var búinn að stefna að þessu svo lengi að félagarnir voru farnir að hlæja að mér. Eg átti alla fylgihlutina og allt draslið," segir Jón Ingi og sýnir mér hring, kveikjara og úrið sitt sem allt er merkt Harley-Davidson í bak og fyrir. „Það vantaði ekkert nema hjólið. Það var stundum svolítið bjánalegt að keyra um á Hondu og vera allur merktur HD. Nú smellpassar allt saman inn í myndina! Ég sé fram á það að þetta getur þess vegna orðið mitt síðasta hjól. Að það fylgdi mér bara það sem eftir væri," segir Jón Ingi hlæjandi, setur 1.300 kúbika (rúmsentimetra) Harlann sinn í gang með látum og ekur svo af stað í mestu makindum.
Morgunblaðið
22.8.1998