29.4.17

Vorhátíð bifhjólafólks Bifhjólasamtök lýðveldisins


 Sniglarnir, halda í sinn árlega hópakstur 1. maí. Bifhjólafólk á um þúsund mótorhjólum af ýmsu tagi ekur þá hring í borginni til að fagna vorkomunni og minna á þau baráttumál sem helst brenna á samtökunum

Þessi árlega hópkeyrsla er orðin eins konar vorhátíð bifhjólafólks,“ segir Njáll Gunnlaugsson, formaður Sniglanna, en samtökin hafa staðið fyrir slíkum hópakstri í nærri þrjá áratugi, nánast frá stofnun Sniglanna. Hópurinn sem mætir hefur þó stækkað mikið undanfarin ár og nú stefnir í að um þúsund mótorhjól af öllu tagi af ýmsum stöðum á landinu fylli götur borgarinnar á mánudaginn.
„Hópkeyrslan verður með sama sniði og undanfarin ár. Hjólin safnast saman á Laugavegi upp úr klukkan 11 og leggur hópurinn af stað klukkan 12.30. Ekið er niður Bankastrætið og Lækjargötu til vinstri, inn Vonarstrætið og upp Suðurgötuna. Hringbraut er svo ekin í vestur og Ánanaustin yfir á Geirsgötu, fram hjá Hörpu,“ lýsir Njáll og bendir bifhjólafólki á að sýna sérstaka aðgæslu, bæði vegna framkvæmda sem þar standa yfir sem og hópa ferðamanna sem ekki viti af viðburðinum. „Hópurinn þræðir svo Sæbraut að Kringlumýrarbraut þar sem hún beygir inn á Kirkjusandinn frá Sundlaugarvegi,“ segir Njáll en þetta verður í síðasta sinn sem endastöðin verður á Kirkjusandi vegna fyrirhugaðra framkvæmda þar.

 Húllumhæ á Kirkjusandi 

„Á Kirkjusandi verður skemmtileg dagskrá. Gestum og gangandi er boðið að skoða mótorhjólin og svo verða ýmsar skemmtilegar uppákomur. Til dæmis ætlar Pólverjinn Damien Sarapuk að sýna listir sínar á götuhjóli og vonir standa til að nokkrir íslenskir strákar á klifurmótorhjólum mæti á svæðið. Sú dagskrá hefst klukkan 13.30.“ Njáll bendir á að þeir sem komi á bíl geti lagt á malarplaninu næst Laugarnesvegi. „Bestu staðirnir fyrir þá sem vilja fylgjast með hópkeyrslunni eru við Sæbraut og þá sérstaklega á hljóðmönunum nálægt Sólfarinu.“
  Mikil vinna liggur að baki skipulagningu svo stórs hópaksturs en Njáll segir um 40 til 50 manns koma að vinnunni, bæði við undirbúning og á daginn sjálfan. „Við munum til dæmis njóta aðstoðar bifhjólaklúbbsins Gaflara úr Hafnarfirði við stjórn akstursins en gæslumenn og -konur verða á öllum þeim gatnamótum þar sem farið er um auk þess sem hópurinn fær lögreglufylgd.“
   Hópaksturinn hefur gengið vel síðustu ár en Njáll biður ökumenn þó að sýna bifhjólafólkinu tillitsemi meðan á akstrinum stendur.
  „Auk þess vorum við svo heppin í ár að hópkeyrslan var tilefni til gerðar verkefnaáætlunar í vinnuhópi nema í verkefnastjórnun hjá Háskólanum í Reykjavík. Úr var greinargóð skýrsla og áætlunargerð sem mun nýtast til frambúðar.“

Vilja breyta umferðarlögum

    Hópakstrinum þann 1. maí er fyrst og fremst ætlað að minna aðra ökumenn á að bifhjólin séu komin á göturnar, en einnig til að skerpa á þeim fjölmörgu baráttumálum sem samtökin berjast fyrir.
  „Sniglar hittu nýskipaðan ráðherra samgöngumála, Jón Gunnarsson, fyrir nokkrum vikum og fóru yfir hagsmunamál sín. Á síðastliðnum árum hafa Sniglar eytt miklu púðri í að fá drögum að umferðarlögum breytt til hagsbóta fyrir bifhjólafólk og náð góðum árangri í þeim efnum. Þess vegna er okkur farið að lengja eftir að þau líti dagsins ljós en ráðherra lofaði að fari að sjá til sólar í þeim efnum og að þau verði að öllum líkindum lögð fram á haustþingi,“ segir Njáll.

Betri tryggingar og breytt skoðunarhandbók 

  Tryggingamál hafa lengi verið bifhjólafólki hugleikin. „Sífellt er verið að skilgreina skilmála tryggingarfélaganna, eins og að bifhjólafólk megi ekki lána hjólin sín og svo framvegis. Þá þarf engan að undra þótt við spyrjum hvort breyta megi öðrum þáttum í tryggingarskilmálum. Sem dæmi má nefna að margir eiga fleiri en eitt mótorhjól, og ef viðkomandi má ekki lána hjólið sitt þarf hann þá nokkuð að borga slysatryggingu ökumanns og eiganda nema einu sinni, en ekki af öllum hjólunum? Sú trygging er stærsti hluti tryggingariðgjaldsins og skiptir eigendur bifhjóla verulegu máli.“
  Njáll nefnir einnig endurskoðun skoðunarhandbókar fyrir mótorhjól sem bið hefur orðið á. „Við lýsum yfir vilja okkar til að setjast niður með Samgöngustofu til að klára þessi mál. Má þar nefna tillögu um minni gerð skráningarmerkja sem passar betur aftan á mótorhjólin en þessi stóru merki sem eru í sömu stærð og á mörgum bílum í dag.“

 Er illa við víravegrið 

  Sniglar hafa verið í góðu samstarfi við Vegagerðina á undanförnum árum og samið meðal annars handbækur um bifhjólavænt vegumhverfi og skilað skýrslu um núllsýn á Þingvallavegi en þar varð dauðaslys í fyrra þegar ungur bifhjólamaður lét lífið eftir árekstur við vegrið. „Okkur er farið að lengja eftir áþreifanlegum aðgerðum eins og undirakstursvörnum. Tökum sem dæmi Kambana þar sem notast er við víravegrið í alltof þröngum aðstæðum. Bifhjólafólki er mjög illa við víravegrið þar sem stólpar þeirra eru mjög illa varðir og við viljum helst ekki sjá þau á vegunum. Það er því algjört lágmark að notast við undirakstursvarnir á stöðum sem þessum að okkar mati.“

Ekkert prófsvæði í höfuðborginni 

Njáll bendir á að aksturskennslusvæði fyrir mótorhjól verði engin á höfuðborgarsvæðinu þegar Kirkjusandur verður lagður af sem prófsvæði. „Eina skipulagða kennslu- og prófsvæði fyrir mótorhjól verður þá á Akureyri. Það finnst okkur að sjálfsögðu ótækt og nauðsynlegt að gera úrbætur í þeim efnum með öryggi próftaka í huga.“ Mörg önnur mál eru í deiglunni hjá Sniglum, líkt og réttindamál og hinar svokölluðu gangstéttarvespur. „Við viljum hvetja fólk til að skoða heimasíðuna okkar á sniglar.is og þar má meðal annars finna samantekt á baráttumálum okkar síðustu þrjá áratugina. Besta leiðin til að styrkja samtökin er að ganga í þau en á forsíðunni er umsóknarform. Einnig verða haldnir vikulegir fundir á miðvikudagskvöldum klukkan 20 í félagsheimili Sniglanna í Skeljanesi, yst í Leiðin sem hópakstur Sniglanna mun fara þann 1. maí. Skerjafirði.“

Fréttablaðið
29.4.2017

Fer oftast varlega (2017)

Það er eitthvað við mótorhjól,
hljóðin, 
lyktina og
stemninguna í 
kringum þau
 sem heillar 
mig mikið.

Ásrún Mjöll Stefánsdóttir veit ekkert betra en að ferðast um ókunn lönd á mótorhjólinu með óljóst ferðaplan og lítið annað en hengirúm í farangrinum.

Ég tók prófið í lok sumars 2014, og keypti svo hjól vorið 2015. Núna á ég hjól af gerðinni Honda Shadow, en það væri gaman að skipta því út og eignast annað í staðinn sem ég gæti jafnvel dundað mér við að breyta. Enn sem komið er hjóla ég mest á götunni, en stefni á að æfa mig í motocrossi til þess að geta síðan farið í ferðalög hvert sem er,“ segir Ásrún Mjöll Stefánsdóttir, mótorhjólakappi með meiru.
Ásrún er stödd í Taílandi þar sem hún nýtur þess að ferðast um á mótorhjólinu og borða góðan mat. „Á ferð minni núna í Taílandi hef ég notið þess að prófa hin ýmsu mótorhjól og farið í nokkrar ferðir um landið. Það sem stendur upp úr er vikuferð um norðurhluta landsins á hjóli af  gerðinni Kawasaki Versys. Þetta er í annað sinn sem ég hjóla hér en við mamma komum hingað þar síðustu jól og hjóluðum aðeins,“ segir Ásrún. Þetta er þó fjarri því hennar fyrsta mótorhjólaferð. „

27.4.17

Aftur fjölgun á slysum hjá bifhjólamönnum

Slysum á bifhjólamönnum hefur fjölgað.

Bifhjólamenn héldu fund á fimmtudagskvöld þar sem Einar Magnús Magnússon, sérfræðingur hjá Samgöngustofu, lagði fram tölur um slys hjá bifhjólamönnum.

 Þar kom fram að á síðasta ári jókst fjöldi slasaðra og látinna bifhjólamanna og er það um 42% fjölgun á milli ára. Árið 2016 urðu 47 slys á bifhjólamönnum en þau voru 33 árið 2015. Átján manns létust í umferðinni á síðasta ári og af þeim voru tveir bifhjólamenn. Skráðum þungum bifhjólum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Bifhjólamönnum sem slasast alvarlega eða látast á slíkum hjólum hefur fækkað hlutfallslega ef tekið er mið af heildarfjölgun þeirra sem aka slíkum hjólum. Í útreikningum Samgöngustofu kemur fram að flest slysin verða í júní, júlí og ágúst. Af þeim 78 sem slösuðust á léttu bifhjóli á árunum 2007-2016 voru 16 sem slösuðust alvarlega eða létust, það er 21%. Hlutfallið er hærra, eða 41% þegar kemur að þungum bifhjólum en samtals slösuðust 626 ökumenn þungra bifhjóla en 259 þeirra slösuðust alvarlega eða létust. Á fundinum var brýnt fyrir ökumönnum bifhjóla að vera vel útbúnir, sjáanlegir og tillitssamir.
Fréttablaðið greindi frá

22.4.17

Frá Formanni


Eins og flestir vita þá er Aðalfundur okkar þann 6 maí n.k. kl 13:00

Og erum við að taka við framboðum á tian@tian.is eins verður tekið við framboðum á fundinum.Í ár eru að losna 3-4 pláss. Eru 2 búnir að bjóða sig fram og þökkum við Trausta Friðrikssyni og Tryggva Guðjónssyni fyrir framboð sitt. En okkur langar að sjá fleiri til að bjóða sig fram.

17.4.17

Stórsýning Rafta og Fornbílafjelagsins verður 13. maí



Hin árlega stórsýningu Bifhjólafjelagsins Rafta og Fornbílafjelags Borgarfjarðar í Brákarey í Borgarnesi verður laugardaginn 13. maí klukkan 13 til 17. 

Sýningin hefur fyrir margt löngu skapað sér verðugan sess meðal áhugafólks um bíla og mótorhjól. Þessi dagar er til að mynda sá sem margir viðra fáka sína fyrst úr vetrargeymslunni. Af þeim sökum má sjá hundruði óvenjulegra ökutækja á ferðinni og á leið í Borgarnes.

„Það er góðæri í landinu þannig að við höfum aldrei fengið jafn marga sýningaraðila til að verða með okkur og nú. Þeir verða alls 16 talsins. Þetta er bæði hjólaumboð, útivistaraðilar og sölufólk með verkfæri og vörur af ýmsu tagi. Fjórhjól og sexhjól verða fyrir bændur og búalið auk t.d. smurefna og efna til að hreinsa ryð og lakk,“ segir Unnar Bjartmarsson sem undirbýr nú hátíðina af krafti ásamt fleirum Röftum og fornbílafélögum. Unnar segir að Hilmar Lúthersson Snigill númer eitt verði í Raftaheimilinu með brot af þeim hjólum sem hann hefur gert upp um ævina, en þau eru orðin æði mörg og gaman að geta heiðrað karlinn aðeins. Þá er Latabæjarökutækin komin í Borgarnes og verða þau til sýnis. Á vel við að þau séu komin í Borgarnes þar sem Magnús Scheving íþróttaálfur og frumkvöðull sleit barnsskónum. „Camaro verður 50 ára á árinu og munum við að sjálfsögðu halda upp á það. Svifnökkvi verður á Borgarfirðinum þennan dag og mun hann taka með sér farþega á rúntinn. Háfjara er um klukkan 13:30 svo það verða kjöraðstæður til að kynna nökkvann bæði á sjó og sandi,“ segir Unnar.

Hann segir að sjálfsögðu vonast við til þess að veðrið verði gott svo fornbílar og mótorhjól flykkist til þeirra í Borgarnes, það sé eiginlega partur af sýningunni líka. „Við höfum verið að reyna að breikka flóruna á sýningunni til þess að fólk sjái eitthvað nýtt og ferskt á hverju ári. Aðgangur er að sjálfsögðu ókeypis en kaffi og vöfflusala verður á staðnum,“ segir Unnar. Aðstaða klúbbanna í Brákarey er sífellt að batna enda töluverð vinna búin að fara fram. Unnar segir mörg handtök þó eftir fram á sýningardag en kveðst hlakka til góðs dags.

Skessuhorn 17 apríl 2017