27.4.17

Aftur fjölgun á slysum hjá bifhjólamönnum

Slysum á bifhjólamönnum hefur fjölgað.

Bifhjólamenn héldu fund á fimmtudagskvöld þar sem Einar Magnús Magnússon, sérfræðingur hjá Samgöngustofu, lagði fram tölur um slys hjá bifhjólamönnum.

 Þar kom fram að á síðasta ári jókst fjöldi slasaðra og látinna bifhjólamanna og er það um 42% fjölgun á milli ára. Árið 2016 urðu 47 slys á bifhjólamönnum en þau voru 33 árið 2015. Átján manns létust í umferðinni á síðasta ári og af þeim voru tveir bifhjólamenn. Skráðum þungum bifhjólum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Bifhjólamönnum sem slasast alvarlega eða látast á slíkum hjólum hefur fækkað hlutfallslega ef tekið er mið af heildarfjölgun þeirra sem aka slíkum hjólum. Í útreikningum Samgöngustofu kemur fram að flest slysin verða í júní, júlí og ágúst. Af þeim 78 sem slösuðust á léttu bifhjóli á árunum 2007-2016 voru 16 sem slösuðust alvarlega eða létust, það er 21%. Hlutfallið er hærra, eða 41% þegar kemur að þungum bifhjólum en samtals slösuðust 626 ökumenn þungra bifhjóla en 259 þeirra slösuðust alvarlega eða létust. Á fundinum var brýnt fyrir ökumönnum bifhjóla að vera vel útbúnir, sjáanlegir og tillitssamir.
Fréttablaðið greindi frá