23.10.14

Á 85 hestafla þýskum gæðingi í löngum prufuakstri (2014)

Á Lambeyri við Tálknafjörð er vegslóðinn
 í grófu sjávargrjóti, þar bárum við aksturseiginleika
 hjólanna saman. 
Myndir / HLJ

BMW F800 GS mótorhjól árgerð 2014:

Í ágúst síðastliðinn tók ég lengsta prufuakstur sem ég hef tekið á nýju ökutæki með það í huga að fjalla um tækið í Bændablaðinu. Mér var boðið í 10 daga mótorhjólatúr að prufa BMW F800 GS árgerð 2014 af umboðsaðila BMW mótorhjóla á Íslandi.


Reykjavík Motor Center bauð mér að fara sem öryggis fylgdarmaður með nokkrum erlendum ferðamönnum 3.500 km hringferð um landið.

Í boði var vel útbúið hjól Hjólið sem mér var boðið var með aukabúnaði sem er veltigrind, festingar fyrir farangurstöskur á hliðum og svokölluð topptöskufesting fyrir aftan farþegasætið. Hlífar fyrir framan hendurnar til varnar grjótkasti, virkar vel sem vind- og regnhlíf líka, einnig var hlífðarplata
undir mótornum til varnar fyrir púst og vél á torfærum, grýttum vegslóðum. Mér bauðst að hafa töskur allan hringinn fyrir farangur, en kaus að fara bara með eina tösku fyrir aftan farþegasætið (topptösku). Öll BMW mótorhjól eru útbúin með ABS-bremsubúnaði, tveggja þrepa hita í handföngum, einnig er komið í sumar tegundir BMW-hjóla spólvarnarbúnaður sem er í F800 hjólunum.

10 dagar við misjöfn akstursskilyrði

Fyrstu tveir dagarnir voru í ágætis veðri, en fóru að mestu í að kenna einum ferðafélaganum að keyra
mótorhjól á malbiki. Ferðahraðinn byrjaði í 40 til 50 á Nesjavallavegi og var kominn í 90 kílómetra hraða á miðjum öðrum degi ferðarinnar. Á degi þrjú voru malarvegir, fyrst Hellisheiði eystri, brattur upp úr Berufirðinum og er hlykkjóttur  malarvegur með tilheyrandi holum.Þarna passaði vel að finna réttu stillinguna fyrir mitt aksturslag á malarvegi. Eftir nokkurt fikt í fjöðruninni taldi ég mig vera
kominn með þægilega stillingu. Mjúkleiki tölvustýrðrar fjöðrunar var á miðstillingu (norm) og
spólvörnin stillt á „enduro“, sem leyfði aðeins meira átak og smá spól á afturdekkið áður en sjálfvirk
spólvörnin tók kraftinn úr vélinni ef gefið var of mikið í. Áfram var ekið og á malbiki að  Grímsstöðum, en þaðan og niður í Ásbyrgi hefur löngum verið með eindæmum vondur vegur. Þarna naut BMW F800 hjólið sín best af hjólum ferðarinnar hvað fjöðrun varðar. Oft hef ég ekið þennan veg, en aldrei eins mjúklega og á þessu hjóli.

Kom á óvart í miklum hliðarvindi

F800 hjólið hafði betri aksturseiginleikana fram yfir önnur hjól í ferðinni á slæmum malarvegum.
Sérstaklega þar sem farið var upp brekkur með mikilli lausamöl og þvottabrettum. Þar naut spólvörnin sín vel og ef undirlag er einstaklega laust er hægt að taka spólvörnina af með því að ýta á takka í stýrinu á broti úr sekúndu. Eitt kvöld ferðarinnar á leggnum um Vestfirði, tókum við fjögur hjól og fórum slæman og grýttan slóða frá botni Tálknafjarðar að hvalstöðinni á Suðureyri. Við bárum saman hjólin á vegstubb við Lambeyri, handan fjarðarins þar sem þorpið í Tálknafirði stendur. Við vorum allir sammála um að BMW F800 hjólið hafi verið best við svona aðstæður. Hin hjólin voru BMW 700 og BMW 1200.
Síðustu þrjá daga ferðarinnar, frá Patreksfirði til Reykjavíkur, var einstaklega mikið rok. Mesti vindur
samkvæmt sjálfvirkum vindmælum Vegagerðarinnar á bilinu 18 til 25 metrar á sek. og meira í  kviðum. Að keyra þetta hjól í miklum vindi kemur glettilega á óvart og hefði ég ekki viljað vera á öðru hjóli í svona miklum vindi. Á Snæfellsnesi fuku útlendingar á mótorhjóli út af veginum og slösuðust nokkuð. Samkvæmt vindmælum var minni vindur þann dag en þegar við fórum þarna um.

BMW-mótorhjól eru góð til að keyra mikið
 standandi sem er mikill kostur á malarvegum.

Borgar sig að kaupa hjólið með megninu af aukaútbúnaðinum

Vélin er tveggja strokka 800cc og á að skila 85 hestöflum við 7.500 snúninga. Sætishæðin er 88 cm, þyngd hjólsins með fullan bensíntank (17 lítrar) er 214 kg. Bensíneyðsla er á bilinu 4,4–4,8 lítrar á hundraðið. Umboðsaðilinn Reykjavík Motor Center, Kleppsvegi hefur verið að bjóða hjólið með hlífðarpönnu undir vél, töskufestingum, handarhlífum og veltibogum á hliðar (krassvörn). Þessi búnaður kostar nálægt 150.000 aukalega og er góð fjárfesting sem borgar sig strax við fyrsta fall. Grunnverð á BMW F800 GS er 2.800.000. Eftir 3.300 km reynsluakstur þá hef ég aldrei keyrt hjól sem hentar betur til ferðalaga fyrir íslenskar aðstæður. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Reykjavík Motor Center Kleppsvegi á vefsíðunni www.rmc.


Bændablaðið | 
 23.10.2014

21.10.14

Íslendingar sigursælir á Scandinavian Motorshow East 2014

Ólafur Sveinsson var að vonum ánægður
 með bikarinn sem hann hlaut fyrir
annað sætið í flokkinum Best Old School.

Íslendingar sigursælir á Scandinavian Motorshow East 2014

Tvö íslensk mótorhjól í öðru sæti

Scandinavian Motorshow East 2014 var haldin í Bella Center í Kaupmannahöfn síðustu helgina í september síðastliðnum en hún er sú stærsta á Norðurlöndunum. Þar eru ekki sýndir nýir bílar heldur sérútbúnir bílar og hjól af öllum kaliberum og sem nöfnum tjáir að nefna. Um 800 þáttakendur eru yfirleitt skráðir og alls komu um 40.000 gestir alla helgina. Bestu og athyglisverðustu hjólin og bílarnir bítast um verðlaunasæti í alls konar flokkum, frá bestu felgur undir bíl og í klikkaðasta hjólið og allt þar á milli.

Sigldi út með hjólið

Hjól Erlu var þetta glimmerrauða Harley
 hjól en hún hlaut einnigannað sæti  í flokki
 óbreyttra Harley-Davidson mótorhjóla.
Íslendingar áttu fulltrúa á sýningunni og rötuðu tveir Íslendingar á verðlaunapall umrædda helgi í Kaupmannhöfn. Ólafur Sveinsson myndlistarmaður sigldi hjóli sínu út með Eimskip, en hjól Ólafs er Honda CB750K frá 1980. „Hjólið er svokallaður Café Racer og hefur verið í smíðum og sköpun síðastliðin þrjú ár,“ segir Ólafur. „Eimskip styrkti ferðina með flutningnum út og Honda á Íslandi lagði til kassa undir hjólið. Flogið var út á miðvikudegi, hjólið sett saman aftur og því ekið á sýninguna. Gaman er að því að Íslandingar nær og fjær sýni á alþjóðlegum grundvelli og hvað þeir eru að brasa í skúrum sínum. Þessi sýning er fyrir alla aldurshópa og er geysigaman að skoða. Elstu farartækin voru frá um 1920 og þarna voru kvartmílubílar, uppgerðir gamlir bílar og mótorhjól, Hot Rod-bílar og loks mótorhjól sem eru hrein og klár listaverk.“ Hjól Ólafs lenti í öðru sæti í Best Old School-flokknum, en fyrsta sætið þar hlaut gamalt Indian frá 1939. Tveir aðrir Íslendingar áttu hjól á sýningunni en tvær íslenskar konur búsettar í Danmörku voru þarna með hjólin sín. Önnur þeirra heitir Erla Sveinbjörg Sævarsdóttir sem sýndi tvö hjól, léttbreytt Suzuki Savage og Harley Davidson Sportster 883, málað með knallrauðu glimmereffektlakki. Erla tók líka annað sæti fyrir besta óbreytta Harleyhjólið. Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér þessa sýningu má skoða www.streetfire.dk en þar má sjá öll úrslit í öllum flokkum og einnig fyrri sýningar.
njall@mbl.is
mbl.is
21.10.2014

15.10.14

Haustógleði frestað


Af óviðráðanlegum orsökum neyðumst við til að fresta haustógleðinni sem átti að vera 8. nóvember.

Ný dagsetning verður sett inn þegar allt er komið á hreint. Endilega haldið áfram að fylgjast með

10.10.14

Margar frumsýningar (2014)

Intermot mótorhjólasýningin 2014 

Margar frumsýningar nýrra mótorhjóla

Rétt eins og bílasýningar trekkja að áhugamennum víða veröld lætur áhugafólk um mótorhjól sig
ekki vanta á mótorhjólasýningarnar. 

Mótorhjólasýningin í Köln kallast Intermot og er orðin árlegur viðburður sem markar flest það nýjasta sem á boðstólum er í mótorhjólageiranum ásamt EICMA sýningunnni í Mílanó sem haldin er mánuði seinna. Talsvert var um frumsýningar að þessu sinni og þá sérstaklega hjá japönsku framleiðendunum, þótt að þeir evrópsku hafi einnig verið duglegir við hituna.

300 hestafla keppnishjól

Eitt af þeim hjólum sem vöktu mesta athygli bæði fyrir sýninguna og á henni sjálfri var Kawasaki Ninja H2 sem sýnt var í keppnisútgáfu sinni. Með forþjöppunni sem í því er, er það gefið upp 296 hestöfl og þótt hámarkshraði sé ekki gefinn upp er hann áætlaður nálægt 350 km hraða. Allt við hjólið kallar á hraða og aksturseiginleika og eflaust geta margir ekki beðið eftir að prófa gripinn. Grindin er af svokallaðri Trellis gerð og megnið af kápu hjólsins er úr koltrefjum. Eins og sjá má eru engin ljós á hjólinu enda götuútgáfunnar ekki að vænta fyrr en í næsta mánuði þegar hún verður frumsýnd á EICMA sýningunni í Mílanó. Þrátt fyrir allt aflið er afturgaffallinn aðeins einfaldur svo  að sterkur hlýtur hann að vera. Hjólið er hannað í samvinnu við flugvéladeild Kawasaki enda má sjá litla vængi þar sem venjulega eru speglar, en þeir eiga að bæta aksturseiginleika hjólsins. Kawasaki  lét ekki þar við sitja og frumsýndi nýja gerð Versys 650 hjólsins auk þess að sýna nýtt útlit Versys 1000. 650 hjólið fær meira afl og stærri bensíntank og framrúðu.

Honda lítt áberandi 

Lítið var að gerast hjá Honda en frá Honda kemur þó nýr VFR800X Crossrunner sem fær meira afl, nýrra útlit og meiri búnað eins og spólvörn, díóðuljós og upphituð handföng. Honda frumsýndi einnig nýjan skúter sem heitir Forza 125 og er sá öflugasti í þessum flokki. Þótt öll 125 hjól séu miðuð við 15 hestöfl á þetta hjól að skila mestu upptaki og hámarkshraða í flokknum.

Yamaha með tilraunahjól

 Meðal þess sem vakti mesta athygli á bás Yamaha var GEN01 tilraunahjólið. Þar er um að ræða alvöru mótorhjól með tvöföldu framdekki. Dekkin eru stór og fjöðrunin löng og á hjólið að ráða jafnt við torfærur sem malbik. Einnig sýndi Yamaha tvö ný XJR1300, með og án vindkúpu en þau voru endurhönnuð með þátttöku aðila sem venjulega sérhæfa sig í breytingum mótorhjóla, Keino og Deus Ex Machina. Að auki var sýnd ný útgáfa MT-07 í svokallaðri stöntútgáfu. Hægt er að fá hjólið með sérstökum verndarbúnaði líkt og stönthjól nota og er útlitið fært í þann stíl.

 Rafknúið KTM hjól 

Ólíkt því sem venjulega er á döfinni hjá KTM frumsýndi austurríski framleiðandinn að þessu sinni rafknúið mótorhjól. Um er að ræða Freeride E-SM sem stendur fyrir SuperMoto og er götuútgáfa af  torfæruhjóli. Rafgeymirinn er 300 volta og rafmótorinn skilar 21,4 hestöflum. Það þýðir að það er löglegt fyrir flokk A1 í ökuskírteini, en rafhjól mega skila meira afli en bensínhjól í þeirri flokkun.  Hjólið er aðeins 106 kíló og ætti því að skila sér vel áfram í upptakinu. KTM sýndi einnig í fyrsta skipti KTM 1290 Super Adventure sem aðeins hafði verið sýnt á myndum hingað til. Vélin er nú 1.301 rsm og skilar 160 hestöflum. Vindkápan er endurhönnuð og upphituð handföng og sæti eru staðalbúnaður. Einnig verður hægt að fá hjólið með svokölluðu brekkuviðnámi sem aukabúnað.

Suzuki með tvö ný hjól 

Suzuki frumsýndi tvö alveg ný hjól, nýtt V-Strom 650 og GSXS1000. V-Strom 650 fær nú sama útlit og gogg og 1000 hjólið, teinafelgur fyrir meiri torfærueiginleika
og meiri búnað eins og harðar áltöskur. S1000 hjólið var frumsýnt í tveimur útgáfum, S1000 sem er nakin útgáfa og S1000F sem er með lítilli vindkápu. Bæði hjólin eru 155 hestöfl og fást með spólvörn með þremur akstursstillingum. Frá Suzuki kom svo aðeins uppfærsla af gamla GSX-R1000 hjólinu og þurfum við að bíða fram á næsta ár eftir nýju hjóli úr þeirri deild. Hjólið er þó betur búið og nú með ABS sem staðalbúnað en hjólið skilar 182 hestöflum. Önnur hjól sem Suzuki frumsýndi voru nýtt útlit á Bandit 1250 S og ný gerð Inazuma 250 F.

Þrjú alveg ný BMW

 BMW frumsýndi þrjú ný hjól, R1200RS, R1200R og S1000RR. Ný útgáfa S1000RR var aðalnúmer BMW og ofurhjólið skilar nú 199 hestöflum í götuútgáfu sinni og hefur lést um 5 kíló, niður í 204 kíló með fullan tank af bensíni. Vélin er sú sama í grunninn en efsti hluti hennar hefur verið endurhannaður. Pústkerfið er alveg nýtt og þótt það virki fyrirferðameira léttir það hjólið um þrjú kíló. Nýja hjólið fær spólvarnarpakkann úr HP4 hjólinu ásamt tölustýrðri fjöðrun og flýtiskipti. Endurkoma RS hjólsins  vakti verðskuldaða athygli og þá sér í lagi hjá aðdáendum BMW hjólanna, sem kallað hafa aftur á þessa gerð síðan að hún var lögð af árið 2005. Vélin er vatnskæld og sú sama og í GS hjólinu og skilar 125 hestöflum. Hjólið er búið spól- og skrikvörn sem staðalbúnaði, líkt og R1200R hjólið. Það er einnig með sömu vél en er með hlífalaust útlit og hefðbundið fjöðrunarkerfi í stað Telelever fjöðrunarinnar í RS hjólinu.

Nokkur ný ítölsk 

Ducati frumsýndi hið margumtalaða Scrambler hjól á Intermot en framleiðandinn hafði verið duglegur að leka myndum sem sýndu hjólið að hluta fyrir sýninguna. Nýja hjólið er með gamaldags útliti Scrambler hjólanna frá sjöunda áratugnum og fæst í þremur útgáfum, Full Throttle, Classic og Urban Enduro. Vélin er sú sama og í Monster 796 og skilar 75 hestöflum í tiltölulega léttu hjóli. Meðal annarra ítalskra hjóla sem frumsýnd voru á sýningunni var nýtt Moto Guzzi V7 og Aprilia Caponord ferðahjólið.
njall@mbl.is

Morgunblaðið 
10.10.2014

7.10.14

Ökuþórahjónin Unnur og Högni

Tuttugu lönd, 147 dagar og yfir 30 þúsund eknir kílómetrar á tveimur mótorhjólum, þetta var yfirferð þeirra hjóna Högna Páls Harðarsonar og Unnar Sveinsdóttur eftir ferðalag sumarsins. Tilgangur þeirra var þó alls ekki sá að hala inn svona magnaðan montlista, heldur að upplifa hvert land fyrir sig og allt það sem það hafði uppá að bjóða. Unnur og Högni eru heldur engir aukvisar þegar kemur að mótorhjólaferðum, Högni hafði farið fimm sinnum áður í reisur erlendis og þetta var þriðja