10.10.14

Margar frumsýningar (2014)

Intermot mótorhjólasýningin 2014 

Margar frumsýningar nýrra mótorhjóla

Rétt eins og bílasýningar trekkja að áhugamennum víða veröld lætur áhugafólk um mótorhjól sig
ekki vanta á mótorhjólasýningarnar. 

Mótorhjólasýningin í Köln kallast Intermot og er orðin árlegur viðburður sem markar flest það nýjasta sem á boðstólum er í mótorhjólageiranum ásamt EICMA sýningunnni í Mílanó sem haldin er mánuði seinna. Talsvert var um frumsýningar að þessu sinni og þá sérstaklega hjá japönsku framleiðendunum, þótt að þeir evrópsku hafi einnig verið duglegir við hituna.

300 hestafla keppnishjól

Eitt af þeim hjólum sem vöktu mesta athygli bæði fyrir sýninguna og á henni sjálfri var Kawasaki Ninja H2 sem sýnt var í keppnisútgáfu sinni. Með forþjöppunni sem í því er, er það gefið upp 296 hestöfl og þótt hámarkshraði sé ekki gefinn upp er hann áætlaður nálægt 350 km hraða. Allt við hjólið kallar á hraða og aksturseiginleika og eflaust geta margir ekki beðið eftir að prófa gripinn. Grindin er af svokallaðri Trellis gerð og megnið af kápu hjólsins er úr koltrefjum. Eins og sjá má eru engin ljós á hjólinu enda götuútgáfunnar ekki að vænta fyrr en í næsta mánuði þegar hún verður frumsýnd á EICMA sýningunni í Mílanó. Þrátt fyrir allt aflið er afturgaffallinn aðeins einfaldur svo  að sterkur hlýtur hann að vera. Hjólið er hannað í samvinnu við flugvéladeild Kawasaki enda má sjá litla vængi þar sem venjulega eru speglar, en þeir eiga að bæta aksturseiginleika hjólsins. Kawasaki  lét ekki þar við sitja og frumsýndi nýja gerð Versys 650 hjólsins auk þess að sýna nýtt útlit Versys 1000. 650 hjólið fær meira afl og stærri bensíntank og framrúðu.

Honda lítt áberandi 

Lítið var að gerast hjá Honda en frá Honda kemur þó nýr VFR800X Crossrunner sem fær meira afl, nýrra útlit og meiri búnað eins og spólvörn, díóðuljós og upphituð handföng. Honda frumsýndi einnig nýjan skúter sem heitir Forza 125 og er sá öflugasti í þessum flokki. Þótt öll 125 hjól séu miðuð við 15 hestöfl á þetta hjól að skila mestu upptaki og hámarkshraða í flokknum.

Yamaha með tilraunahjól

 Meðal þess sem vakti mesta athygli á bás Yamaha var GEN01 tilraunahjólið. Þar er um að ræða alvöru mótorhjól með tvöföldu framdekki. Dekkin eru stór og fjöðrunin löng og á hjólið að ráða jafnt við torfærur sem malbik. Einnig sýndi Yamaha tvö ný XJR1300, með og án vindkúpu en þau voru endurhönnuð með þátttöku aðila sem venjulega sérhæfa sig í breytingum mótorhjóla, Keino og Deus Ex Machina. Að auki var sýnd ný útgáfa MT-07 í svokallaðri stöntútgáfu. Hægt er að fá hjólið með sérstökum verndarbúnaði líkt og stönthjól nota og er útlitið fært í þann stíl.

 Rafknúið KTM hjól 

Ólíkt því sem venjulega er á döfinni hjá KTM frumsýndi austurríski framleiðandinn að þessu sinni rafknúið mótorhjól. Um er að ræða Freeride E-SM sem stendur fyrir SuperMoto og er götuútgáfa af  torfæruhjóli. Rafgeymirinn er 300 volta og rafmótorinn skilar 21,4 hestöflum. Það þýðir að það er löglegt fyrir flokk A1 í ökuskírteini, en rafhjól mega skila meira afli en bensínhjól í þeirri flokkun.  Hjólið er aðeins 106 kíló og ætti því að skila sér vel áfram í upptakinu. KTM sýndi einnig í fyrsta skipti KTM 1290 Super Adventure sem aðeins hafði verið sýnt á myndum hingað til. Vélin er nú 1.301 rsm og skilar 160 hestöflum. Vindkápan er endurhönnuð og upphituð handföng og sæti eru staðalbúnaður. Einnig verður hægt að fá hjólið með svokölluðu brekkuviðnámi sem aukabúnað.

Suzuki með tvö ný hjól 

Suzuki frumsýndi tvö alveg ný hjól, nýtt V-Strom 650 og GSXS1000. V-Strom 650 fær nú sama útlit og gogg og 1000 hjólið, teinafelgur fyrir meiri torfærueiginleika
og meiri búnað eins og harðar áltöskur. S1000 hjólið var frumsýnt í tveimur útgáfum, S1000 sem er nakin útgáfa og S1000F sem er með lítilli vindkápu. Bæði hjólin eru 155 hestöfl og fást með spólvörn með þremur akstursstillingum. Frá Suzuki kom svo aðeins uppfærsla af gamla GSX-R1000 hjólinu og þurfum við að bíða fram á næsta ár eftir nýju hjóli úr þeirri deild. Hjólið er þó betur búið og nú með ABS sem staðalbúnað en hjólið skilar 182 hestöflum. Önnur hjól sem Suzuki frumsýndi voru nýtt útlit á Bandit 1250 S og ný gerð Inazuma 250 F.

Þrjú alveg ný BMW

 BMW frumsýndi þrjú ný hjól, R1200RS, R1200R og S1000RR. Ný útgáfa S1000RR var aðalnúmer BMW og ofurhjólið skilar nú 199 hestöflum í götuútgáfu sinni og hefur lést um 5 kíló, niður í 204 kíló með fullan tank af bensíni. Vélin er sú sama í grunninn en efsti hluti hennar hefur verið endurhannaður. Pústkerfið er alveg nýtt og þótt það virki fyrirferðameira léttir það hjólið um þrjú kíló. Nýja hjólið fær spólvarnarpakkann úr HP4 hjólinu ásamt tölustýrðri fjöðrun og flýtiskipti. Endurkoma RS hjólsins  vakti verðskuldaða athygli og þá sér í lagi hjá aðdáendum BMW hjólanna, sem kallað hafa aftur á þessa gerð síðan að hún var lögð af árið 2005. Vélin er vatnskæld og sú sama og í GS hjólinu og skilar 125 hestöflum. Hjólið er búið spól- og skrikvörn sem staðalbúnaði, líkt og R1200R hjólið. Það er einnig með sömu vél en er með hlífalaust útlit og hefðbundið fjöðrunarkerfi í stað Telelever fjöðrunarinnar í RS hjólinu.

Nokkur ný ítölsk 

Ducati frumsýndi hið margumtalaða Scrambler hjól á Intermot en framleiðandinn hafði verið duglegur að leka myndum sem sýndu hjólið að hluta fyrir sýninguna. Nýja hjólið er með gamaldags útliti Scrambler hjólanna frá sjöunda áratugnum og fæst í þremur útgáfum, Full Throttle, Classic og Urban Enduro. Vélin er sú sama og í Monster 796 og skilar 75 hestöflum í tiltölulega léttu hjóli. Meðal annarra ítalskra hjóla sem frumsýnd voru á sýningunni var nýtt Moto Guzzi V7 og Aprilia Caponord ferðahjólið.
njall@mbl.is

Morgunblaðið 
10.10.2014