Mótorhjólasamtök í 30 ár
Í dag, þriðjudaginn 1. apríl, eru nákvæmlega 30 ár síðan stofnfundur félagsskapar sem við í daglegu tali köllum Snigla var haldinn. Fyrsti fundurinn var reyndar haldinn daginn áður, en honum var framhaldið daginn eftir og þar fékk barnið líka nafnið, Bifhjólasamtök lýðveldisins, Sniglar.
Fundarstaðurinn var félagsheimilið Þróttheimar og í tilefni að þessu stórafmæli halda Sniglar þar Sniglaveislu í kvöld á gamla fundarstaðnum. En hver skyldi nú hafa verið tilgangurinn með stofnun þessa félagsskapar? Í upphafi var tilgangurinn einfaldlega sá að sameina mótorhjólafólk og fá það til að taka niður hjálmana þegar það hittist. Fljótlega vatt það þó upp á sig og óhætt er að segja að Sniglar hafi komið að mörgu verkinu á 30 ára ferli sínum.
Þróttmikið félagsstarf
Fyrstu árin var starfið félagsmiðað að mestu og mikið púður fór í að skipuleggja skemmtilegar ferðir vítt og breitt um landið. Var farið á götuhjólum í Landmannalaugar og um Vestfirði svo eitthvað sé nefnt. Landsmót var skipulagt árið 1987 og á það mót mættu um 120 gestir, margir þeirra á hjólum. Óslitin hefð hefur verið fyrir landsmóti fyrstu helgina í júlí síðan þá. Sniglar sinntu lengi vel gæslu víða og kom það fyrst til vegna neyðarástands sem kom upp við ferjuna Smyril á Þjóðhátíð 1986. Mikill mannfjöldi reyndi að ryðjast um borð en Sniglar sem þarna voru komnir til að taka þátt tóku sig til og pössuðu að hleypa inn á bryggjuna í skömmtum svo að enginn træðist undir. Sú röggsemi spurðist út og fljótlega höfðu Sniglar nóg að gera við gæslu.Fyrst og fremst hagsmunasamtök
Hagsmunagæsla hefur þó löngum verið það sem að starf Bifhjólasamtaka lýðveldisins snýst um. Sniglar hafa löngum beitt sér fyrir slysavörnum á einn eða annan hátt. Fyrst kom það til með árlegum vorfundum Snigla og lögreglunnar með Ómar Smára Ármannsson í forsvari. Árið 1992 gáfu svo Sniglar út fyrsta forvarnarefni sitt en það voru fimm sjónvarpsinnskot sem einnig voru sýnd í bíóhúsum. Vakti efnið athygli og þá einnig út fyrir landsteinana. Sama ár urðu líka miklar hækkanir á bifhjólatryggingum og Sniglar gagnrýndu bifhjólakennslu sem var lítil sem engin. Þegar samtökin urðu 10 ára var haldinvegleg afmælissýning í Laugardalshöll þar sem um 200 mótorhjól voru til sýnis. Árið 1995 gengu Sniglar í Evrópusamtök bifhjólafólks (FEMA) og eru þar enn. Umferðarátak hefur verið nánast
árlegur viðburður hjá samtökunum og 1997 voru gerð fleiri sjónvarpsinnskot. Sniglar létu gera slysarannsókn árið 2001 sem náði yfir öll slys á 10 ára tímabili, frá 1991- 2000. Nokkrum árum seinna fengu Sniglar fulltrúa í Umferðarráði sem þeir hafa haldið síðan. Síðustu ár hafa Sniglar látið enn meira til sín taka í hagsmunastarfi bifhjólafólks og haft áhrif á breytingu á umferðarlögum, átt í góðu samstarfi við Vegagerðina um betri vegi fyrir bifhjólafólk og haft fulltrúa í starfshópi innanríkisráðuneytis um umferðaröryggi, Decade of Action.
Trúarjátning bifhjólamannsins:
Ég trúi á bifhjólið, tákn frelsisins.
Ég trúi á heilagt tvíeyki, bifhjólið
og manninn.
Ég trúi á lífið og bensínið,
bremsurnar og dauðann
og inngjöf að eilífu.
njall@mbl.is
morgunblaðið 1.apríl 2014
morgunblaðið 1.apríl 2014