28.10.09

Frábær félagsskapur

„Þetta er rosalega flottur hópur og félagsskapurinn er frábær. Félagarnir eru samrýndir og verulega skemmtilegir, bæði strákar og stelpur,“ segir Sigurjón Andersen, smiður og formaður Gaflara, mótorhjólaklúbbs Hafnarfjarðar. 
Mótorhjólaklúbbur Hafnarfjarðar, Gaflarar, var formlega stofnaður árið 2006 og í dag eru skráðir hundrað og tíu meðlimir, þar af tugur kvenna. Yngsti meðlimur klúbbsins er tæplega þrítugur á meðan sá elsti er ríflega sjötugur. Öll þriðjudagskvöld hittast meðlimir og þeysa um götur borgarinnar á mótorhjólunum. Á vorin hittast þeir á þartilgerðum smurdegi þar sem hjólin eru öll yfirfarin fyrir komandi hjólavertíð sumarsins. Þá er alltaf farið í eina langferð út á landsbyggðina þar sem félagarnir ferðast saman í nokkra daga á mótorhjólunum.

 Sjötugur heiðursfélagi 

Björn Hermannsson, gjarnan kallaður Húni innan klúbbsins, hlaut heiðursnafnbót Gaflara á síðasta ári. Hann er elsti meðlimur mótorhjólaklúbbsins, sjötíu og eins árs gamall í ár. Björn átti mótorhjól er hann var tvítugur að aldri en tók margra ára hlé. Það var ekki fyrr en fyrir áratug sem hann fjárfesti í vespu og það kveikti mótorhjólaáhugann á nýjan leik. Í dag ekur Björn um á Harley Davidson og segir það æðislegt. „Það er engin spurning að þetta er mikill heiður. Að vera félagi í Göflurunum er alveg meiri háttar því þessi félagsskapur er fínn. Ég fór hringinn, ásamt félögum mínum, í sumar. Eftir að ég eignaðist eldgamla vespu þá kveikti það í mér aftur. Nú er ég kominn á  stærra hjól, keypti mér Harley því það þýðir ekkert annað,“ segir Björn. „Ég er kallaður Húni því ég þyki ekkert mjög hár í loftinu og félögunum fannst ég ekki nógu stór til að vera kallaður Björn. Það er frábært að hjóla á flottum hjólum. Að finna skítalyktina frá sveitabæjunum er frábært.“

 Kraftur á milli fótanna 

Lógóið Gaflarar, mótorhjólaklúbbur
Hafnarfjarðar, var stofnaður árið 2006.
Sigurjón segir klúbbfélagana hafa ferðast víða um Norðurland síðastliðið sumar. Aðspurður segir hann fjölbreytta flóru mótorhjóla að finna hjá klúbbfélögum, hjóla af öllum stærðum og gerðum. Sjálfur ekur hann um á Suzuki Bandit 1200 og hefur átt mótorhjól síðustu þrjá áratugi. Gælunafn Sigurjóns innan klúbbsins er Castro, sem er tilvísun í einræðistilburði í stjórnarháttum.
„Ætli ég sé ekki kallaður Castro þar sem ég er formaður? Ferðirnar okkar hafa verið mjög  skemmtilegar og vel heppnaðar. Nokkrir tugir meðlima taka þátt hverju sinni og góð stemning ríkir,“ segir Sigurjón. 


„Ég er búinn að vera innviklaður í sportið mjög lengi, enda hrikalega skemmtilegt. Tilfinningin að þeysa um göturnar er einfaldlega mesta frelsi sem hægt er að upplifa. Maður
gleymir öllu öðru, það er mjög töff og skemmtilegt að hafa mikinn kraft á milli fótanna.“

Trausti@dv.is
DV 28.10.2009