18.6.09

„Kókapuffs" - Einn versti óvinur bifhjólamannsins





 Ágætu meðlimir og aðrir bifhjólamenn.

Nýlega fór ég rúnt um Egilsstaði á mínu ágæta hjóli. Fór um allmörg gatnamót, ætíð með í huga að þar gæti leynst möl, sandur og annað sem tilheyrir ekki okkar íslenska malbiki, þó malbikið okkar sé vissulega ekki á heimsmælikvarða. Skellti mér í heita pottinn og þegar ég var búinn þar, eftir ca. 1,5 klst, tók ég annan svipaðan hring þar sem veðrið bauð engan veginn upp á að fara beint heim.

 Nema hvað: Hefði ég ekki farið yfir með mín föstu varnarorð í huganum, em ég geri alltaf þegar ég sest á hjólið og set í gang, þá hefði ég verið í háum hættuflokki með að dúndrast á hliðina í sömu beygjunum sem voru þokkalegar hreinar tuttu áður.

Mitt fyrsta persónulega varnarorð er: KÓKAPUFFS!

Greinilegt var, að einhver ágætur/ágætir verktakar höfðu ekið sömu leið og ég, ekki með það í huga að hugsa um öryggi okkar, sem og annara vegfaranda, heldur hugsa um að koma sem mestu efni á trukkana á kostnað öryggis okkar og annara vegfarenda en sínum fjárhag til framdráttar, það er koma sem mestu efni með í hverri ferð. Skiljanlegt að hluta en allt hefur sín takmörk.


#29 Smári Sigurjónsson, meðlimur og stjórnarmaður Vélhjólaklúbbs Austurlands - DREKAR www.drekar.is

8.6.09

Vegagerðin og Sniglarnir eiga mörg sameiginleg hagsmunamál

Fundur um umferðaröryggi

(Þessi pistill birtist áður á vegagerdin.is 27.5.2009)
Sniglarnir, bifhjólasamtök lýðveldisins og Vegagerðin eiga mörg sameiginleg hagsmunamál. Þessi mál voru rædd á fundi í maí sl. að frumkvæði umferðarnefndar Sniglanna sem lætur sig varða umferðaröryggi og forvarnir sem og önnur hagsmunamál bifhjólamanna. Umferðaröryggi er einnig efst á lista Vegagerðarinnar. Til að fækka slysum eru menn sammála um að sameina kraftana til að ná sem bestum árangri. Fundurinn var haldinn að frumkvæði Sniglanna en samtökin eru 25 ára á þessu ári og hafa efnt til ýmissa uppákoma af því tilefni, s.s. hópaksturs, kynninga á samtökunum ásamt  átaki í fræðslu og upplýsingagjöf. Í dag eru um 9.000 bifhjól í notkun á landinu en þau voru um 2.000 fyrir tíu árum. Slysum á bifhjólum hefur einnig fjölgað en þó ekki í samræmi við fjölgun bifhjóla.  Fyrir 10 árum voru alvarleg slys á bifhjólum 16 en þau voru 36 í fyrra. Samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu er allt að því fimm sinnum meiri hætta á að lenda í bifhjólaslysi en bílslysi. Er þetta hlutfall sambærilegt við það sem gengur og gerist í öðrum vestrænum löndum. Fall af hjóli er ein algengasta ástæða bifhjólaslysa og má leiða líkur að því að skortur á þjálfun bifhjólamanna, ásamt ástandi slitlags sé aðalorsakavaldur slíkra slysa. Er því mikilvægt að þessir tveir þættir séu skoðaðir vandlega og leitað úrbóta.
Á fundinum benti umferðarnefnd Sniglanna á að víða eru hættulegir kaflar á vegakerfinu og þá einkum fyrir bifhjólafólk. Þá bentu Sniglarnir á að spor og samskeyti á bundu slitlagi, lausamöl í beygjum og við vegamót, lausamöl vegna blettaviðgerða á slitlagi væru mjög varhugaverð fyrir bifhjólafólk. Þá var einnig rætt um hættu sem getur stafað af hálum yfirborðsmerkingum, lágum skiltamerkingum (vegvísum) sem skyggja á bifhjól við gatnamót, hættulega sviptivinda við
brúarenda, yfirborð brúargólfa, sandskaflamyndun og fleiri þætti sem geta skapað hættu fyrir bifhjólafólk og aðra vegfarendur. Þá var einnig rætt um hvernig boðleiðir milli Vegagerðarinnar
og vegfarenda virkuðu best, hvernig best væri að koma ábendingum til vegfarenda og hvernig Vegagerðin gæti á sem bestan hátt komið boðum til bifhjólafólks, t.d. um fram­kvæmdir við
yfirlagnir, hættulega vegkafla o.s.frv. Var m.a. rætt um að nýta heimasíður Vegagerðarinnar og Sniglanna sem og aðra möguleika internetsins og annarra miðla.
Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar 2009