13.8.08

Vetn­i­svæddi mótor­hjólið

Sveinn Hrafns­son, starfsmaður hjá Air Atlanta í London, hef­ur vakið at­hygli í ensk­um fjöl­miðlum fyr­ir vetn­istilraun sem hann gerði á sínu eig­in Harley Dav­idson-mótor­hjóli í þágu orku­sparnaðar hjá fyr­ir­tæk­inu. Hann byggði á hug­mynd frá seinna stríði en þekkt er að Spitfire- og Mu­stang-herflug­vél­ar voru bún­ar vetn­is-/​bens­ín­mótor til að spara bens­ínið og fækka áfyll­ing­um.

Hjá Air Atlanta hef­ur farið fram umræða um hvernig megi spara eldsneytið á flutn­inga­bíla fyr­ir­tæk­is­ins sem dag­lega aka um 300 km.

Brá Sveinn á það ráð að prófa vetn­is­hug­mynd­ina og notaði Har­ley­inn sem til­rauna­dýr. „Ég var mjög ánægður með út­kom­una, hjólið brenn­ir bens­ín­inu mun bet­ur fyr­ir vikið og auk þess er það kraft­meira,“ seg­ir hann.

Morg­un­blaðið | 13.8.2008 |

2.8.08

Góður fyrir útilegugræjurnar

Dagrún Jónsdóttir hefur verið leiðtogi í Vélhjólafjelagi gamlingja í hátt í tíu ár. Hún býr á
Odds parti í Þykkvabæ og er titluð mótorhjólabóndi í símaskránni.

Dagrún á fjögur mótorhjól, þar af þrjú Harley Davidson, en hjólið sem hún sést oftast á er Triumph P 160 sem er 750 kúbik og með hliðarvagni. „Þetta er aðalhjólið mitt,“ segir hún og sýnir það. „Mér finnst svo gott að ferðast á því og hef þvælst um allt land á því. Ég er búin að eiga það síðan 2001 en átti hliðarvagninn fyrir. Hann var á öðru hjóli og ég færði hann yfir.“
Auðvelt er að sjá Dagrúnu fyrir sér skutlast í „kaupfélagið“ á hjólinu og flytja varninginn heim í vagninum. Hún segir þá mynd hárrétta. „Vagninn er einmitt ástæða þess að ég nota þetta hjól mest. Hann er svo góður undir farangur, passar til dæmis rosa vel fyrir útilegugræjurnar og bjórinn,“ segir hún hlæjandi en kveðst líka geta tekið farþega í hann. Dagrún flutti austur í Þykkvabæ fyrir tveimur árum. Þar hefur hún komið sér upp hjólaverkstæði ásamt vini sínum og svo er hún með mótorhjólatengda ferðaþjónustu eins og hún orðar það. „Ég er búin að útbúa tjaldstæði með klósettum og get tekið á móti litlum hópum vélhjólafólks,“ útskýrir hún. En er hún með braut sem hægt er að spæna á? „Bara fyrir krakka,“ svarar hún. „Svo er fjaran auðvitað endalaus braut.“
   Hvernig skyldu svo nágrannarnir taka því að fá mótorhjólagengi yfir sig? „Heyrðu, þegar það fréttist að ég væri að flytja í Þykkvabæinn varð ég vör við mikinn skjálfta. Nú væru Hells Angels bara að taka yfir plássið. En svo hafa íbúarnir verið mér mjög vinsamlegir og ég veit ekki annað en þeir séu bara hrifnir af því sem ég er að gera.“
     -Eitt í lokin. Ræktar þú kartöflur? „Nei, ég labba bara í næstu hús og kaupi þær þvegnar og tilbúnar í pottinn!“
gun@frettabladid.is

1.8.08

Myndræn svaðilför


 Starfsmenn mótorhjólaleigunnar Biking Viking eru nýkomnir af hálendinu þar sem þeir hjóluðu um í góðviðrinu ásamt ástralska mótorhjólakappanum Simon Pavey. 


Sá er helst þekktur fyrir að vera þjálfari Ewan McGregor og Charley Boorman fyrir Long Way Round og að hafa tekið þátt í Race to Dakar með þeim síðarnefnda.
Tilefni ferðarinnar upp á íslenska hálendið var myndaöflun fyrir bók sem útgáfufyrirtækið Haynes gefur út um ævintýraferðir á mótorhjólum, en myndir frá Íslandi munu bera uppi bókina. Margir þekkja Haynes-bækurnar sem fjalla um viðhald bifreiða og mótorhjóla. Íslenski ljósmyndarinn Þorvaldur Örn Kristmundsson var fenginn til verksins.

Simon Pavey er 41 árs gamall en hann var aðeins 14 ára þegar hann tók þátt í sinni fyrstu motocross keppni í Appin í Ástralíu þar sem hann er fæddur og uppalinn. Ári seinna vann hann sínu fyrstu keppni þar og síðan þá hefur hann tekið þátt í fjölda keppna. Meðal annars París Dakar-rallinu sex sinnum, sem hann hefur klárað fjórum sinnum. Simon hefur nýlega lokið þátttöku í Transorientale-rallinu sem byrjaði í Sankti Pétursborg og endaði Beijing í Kína.

BMW horfir til Íslands

Biking Viking-mótorhjólaleigan er að færa út kvíarnar og ætlar í samstarf við World of BMW sem Simon er meðal annars aðili að í gegnum ferðahjólaskóla sinn. Að sögn Eyþórs Örlygssonar, framkvæmdastjóra Biking Viking, er útlit fyrir að hægt verði að bjóða upp á ferðir víða um heim á BMW mótorhjólum á næstunni og er ferð til Marokkó í burðarliðnum í vetur.
„„World of BMW“ er að skipuleggja ferðir til Íslands á næsta ári og sjáum við fram á mikið og gott samstarf við þá á næstu árum,“ segir Eyþór en ferðir þeirra til Íslands verða kynntar á NEC mótorhjólasýningunni í Birmingham í nóvember. „Ferðin með þremenningana var hreint út sagt frábær og fórum við með þá víða um suðvesturhálendið, meðal annars upp í Krakatinda, yfir Heklu og Markarfljót og meðfram Svörtufjöllum niður á Dómadalsleið. Sögðu þeir ferðina eina þá albestu sem þeir höfðu nokkru sinni farið á mótorhjólum og hafa þeir þó allir farið víða. Hrósuðu þeir helst landslaginu og þeim fjölbreytileika í akstri við erfiðar aðstæður sem landið býður upp á.“
1. ágúst 2008 | Bílablað |