27.6.07

Svíarnir unnu á Klaustri

Yfir 500 manns kepptu í gær í stærstu akstursíþróttakeppni á Íslandi fyrr og síðar. Um er að ræða alþjóðlegu þolaksturskeppnina Trans Atlantic off road challenge sem haldin var í 6. sinn.

Um 70 keppendur voru í unglinga- og kvennaflokkum og 450 í sjálfri Trans Atlantic keppninni. Keppnin var mjög spennandi þó svo Svíarnir Marcus Olsen og Robert Forsell höfðu nokkuð forskot. Fyrstir Íslendinganna urðu þeir Einar Sigurðarsson og Ragnar Ingi Stefánsson og því í öðru sæti í heildina. Á eftir þeim komu Valdimar Þórðarson og Gunnlaugur Rafn Björnsson.

Í fyrsta skipti voru sérstök kvennalið í aðalkeppninni og fengu þær að vera 3 í liði á meðan karlarnir eru 2 í liði. 4 lið mættu til leiks og unnu þær Anita Hauksdóttir, Karen Arnardóttir og Aðalheiður Birgisdóttir.

Aðstæður á Klaustri voru hinar bestu og fengu keppendur og áhorfendur sýnishorn af fjórum árstíðum yfir daginn. Sól og blíða var um morguninn en eftir hádegið þykknaði upp, snjóaði smá og rigndi svo heil ósköp. Rykið sem yfirgnæfði allt í upphafi hvarf skyndilega og drulla myndaðist víðsvegar í brautinni.



Úrslit urðu annars sem hér segir:

Trans Atlantic off road challenge
Markus Olsen og Robert Forsell
Einar S. Sigurðarson og Ragnar Ingi Stefánsson
Gunnlaugur R. Björnsson og Valdimar Þórðarson
Gunnar Sigurðsson og Jóhann Ögri Elvarsson

Einstaklingsflokkur
Jónas Stefánsson
Kristófer Finnsson
Gunnar Atli Gunnarsson

Kvennalið
Anita Hauksdóttir, Karen Arnarson og Aðalheiður Birgisdóttir
Sandra Júlíusdóttir, Guðbjörg S Friðriksdóttir og Margrét Júlíusdóttir
Ásdís Olga Sigurðardóttir, Laufey og Jónína

Unglingakeppni 85cc
Eyþór Reynisson
Viktor Guðbergsson
Kjartan Gunnarsson



Unglingakeppni 125cc
Björgvin Jónsson
Jón Bjarni Einarsson
Heiðar Ingi Ársælsson



Kvennakeppni 85cc
Bryndís Einarsdóttir
Signý Stefánsdóttir
Guðfinna Gróa Pétursdóttir



Kvennakeppni 125cc
Hafdís Svava Níelsdóttir
Sandra Júlíusdóttir
Margrét Erla Júlíusdóttir

motocross.is 2007

16.6.07

Bifhjólamenn fordæma ofsaakstur


SAMTÖK bifhjólamanna hafa hver á fætur öðrum sent frá sér yfirlýsingar þar sem þau fordæma háskaakstur, hvort sem er á bifhjólum eða öðrum farartækjum. Þau benda á að hraðakstur á mótorhjólum sé ekki einkamál þeirra sem þessa iðju stunda heldur hafi hann áhrif á bifhjólamenn um allt land.

 Yfirlýsingarnar koma í kjölfar þess að tveir mótorhjólamenn, sem reynt höfðu að stinga lögreglu af, lentu í árekstri á Breiðholtsbraut aðfaranótt mánudags en við hann hálsbrotnaði annar mannanna. Síðdegis í gær fengust þær upplýsingar á gjörgæsludeild að hann væri enn sofandi í öndunarvél. Hinn maðurinn slasaðist ekki alvarlega. Aðeins um tveimur sólarhringum eftir þetta hörmulega slys mældist stór hópur mótorhjólamanna á um 174 km hraða á Þingvallavegi en þegar lögregla gaf þeim merki um að nema staðar stungu þeir af. Ekki kom til eftirfarar í það skiptið og eru mennirnir ófundnir, eftir því sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sagði í gær.


Gríðarleg fjölgun

Sylvía Guðmundsdóttir, varaformaður Sniglanna, bifhjólasamtaka lýðveldisins, sagði samtökin fordæma allan hraðakstur. Nú færi mikið fyrir fréttum af hraðakstri mótorhjólamanna en hún taldi líklegt að það stafaði einfaldlega af þeirri fjölgun sem orðið hefur í þessum hópi á síðustu árum. 

Í Morgunblaðinu í gær var greint frá því að sýslumaðurinn á Selfossi hyggst krefjast þess að hjólin sem mennirnir tveir voru á verði gerð upptæk, en við þá kröfu styðst hann við nýtt ákvæði í umferðarlögum. Annað hjólið er reyndar talið nánast ónýtt en það hefur engin áhrif á kröfugerðina. Til að forðast misskilning er rétt að taka fram að hið sama mun ganga yfir ökumenn bifreiða sem verða staðnir að ofsaakstri. 

Sylvía sagði að Sniglarnir gætu ekki lýst sig andvíga þessari ákvörðun sýslumanns enda væri heimildin bundin í lög. Þá vonaðist hún til þess að þessi stefna hefði sem mest forvarnargildi. Hún hefði hins vegar heyrt frá nokkrum bifhjólamönnum að þetta yrði til þess að þeir myndu alls ekki stöðva hjólin ef þeir ættu á hættu að glata hjólunum í hendur lögreglu. 

Morgunblaðið hefur áður fjallað um þá sprengingu sem hefur orðið í innflutningi á bifhjólum eins og sést í töflunni hér að ofan. Um leið hefur þeim fjölgað gríðarlega sem hafa tekið mótorhjólapróf eða úr rúmlega 200 árið 1998 í ríflega 1.000 í fyrra. 

Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði að þrátt fyrir of mörg dæmi um ofsaakstur mætti ekki gleyma því að stærstur hluti bifhjólamanna væri til fyrirmyndar. 




Eftir Rúnar Pálmason
runarp@mbl.is

 https://timarit.is/files/42497224

Meira en hundrað bifhjól á sérstakri sýningu í dag


BIFHJÓLASAFN
er væntanlegt í flóru safnanna á Eyjafjarðarsvæðinu og í dag fer fram sérstök fjáröflun til styrktar því. Hún fer þannig fram að haldin er sérstök bifhjólasýning í Toyota-húsinu á Akureyri á Baldursnesi frá 10-19. Á annað hundrað mótorhjóla frá öllu landinu verða til sýnis. Að auki verður tekið við frjálsum framlögum til að setja safnið á fót. Safnið er stofnað í minningu Heiðars Þ. Jóhannssonar sem lést í bifhjólaslysi 2. júlí á síðasta ári. 

„Bifhjólasafnið mun spanna hundrað ára sögu bifhjólsins,“ segir Jóhann Freyr Jónsson sem unnið hefur að því að stofna safnið. „Við höfum yfir 50 hjól í langtímageymslu sem eiga eftir að fara í safnið, þannig að nú vantar bara húsnæði undir það. Af þessum hjólum skildi Heiddi sjálfur eftir sig ein 22.“


Fannst í Grímsárvirkjun


Meðal hjóla safnsins er eitt af gerðinni BSA Lightning 650cc ’71-árgerð, sem áður var í eigu Heiðars Þ. Jóhannssonar. „Þetta er fyrsta stóra hjólið sem hann eignaðist og hann varð frægur fyrir alls konar kúnstir á því. Hjólið komst bara nýlega í okkar hendur. Stuttu eftir andlát hans gerðist nefnilega sú ótrúlega tilviljun að hjólið fannst í góðu standi í Grímsárvirkjun. Þannig að við fengum það að sjálfsögðu í safnið.“ Hjólið er vel ökufært og var í gær ekið til Akureyrar fyrir sýninguna.




15.6.07

Tían sýnir á Akureyri


 Meðlim­ir Bif­hjóla­sam­taka Lýðveld­is­ins Snigl­anna standa nú fyr­ir mik­illi mótor­hjóla­sýn­ingu á Ak­ur­eyri. Stofnað hef­ur verið mótor­hjóla­safnið Tían sem sam­an­stend­ur að mestu leyti af þeim 50 bif­hjól­um sem voru í eigu Heiðars Jó­hanns­son­ar snigils núm­er tíu sem lést í bif­hjóla­slysi fyr­ir tæpu ári síðan. Bif­hjóla­menna hafa fjöl­mennt á sýn­ing­una sem stend­ur fyr­ir utan hús­næði Toyota á Ak­ur­eyri í blíðskap­ar veðri og stend­ur hún til klukk­an sjö í kvöld.




6.6.07

Hvers vegna heilsast mótorhjólafólk þegar það mætist á vegum?

Allir sem aka mótorhjólum hafa tekið eftir því þegar mótorhjólafólk mætist á vegunum að það réttir upp vinstri hönd og heilsast líkt og riddarar forðum.


Allir sem aka mótorhjólum hafa tekið eftir því þegar mótorhjólafólk mætist á vegunum að það réttir upp vinstri hönd og heilsast líkt og riddarar forðum. Færri hafa kannski velt því fyrir sér hvað er eiginlega á seyði og af hverju mótorhjólafólk heilsast sérstaklega og á þennan hátt. Er það bræðralagið eða eitthvað annað og dýpra sem liggur að baki – og heilsast allir eða bara sumir?
Bílablaðið kynnti sér málið aðeins betur enda engin vanþörf á að líta á jákvæðari hliðar mótorhjóladellurnar eftir fremur dapurlega umræðu um mótorhjólafólk síðustu vikurnar.

Flóknara en virðist við fyrstu sýn

Það er óhætt að segja að handabendingar mótorhjólafólks séu flóknari en virðist við fyrstu sýn og má þá helst líta á tvo þætti sem eru ráðandi, líkurnar á því að heilsast sé og hvernig er heilsast.
Til að byrja með eru í það minnsta þrír þættir sem ráða því hvort ökumaður mótorhjóls heilsar og hvort honum er heilsað til baka.

*Tegund hjólsins skiptir máli. Ef ökumaður mótorhjóls mætir öðrum ökumanni á sömu tegund mótorhjóls, t.d. Honda, eru miklar líkur á að þeir tveir heilsist og meiri líkur en t.d. að ökumenn BMW-mótorhjóls heilsi einhverjum sem er á skellinöðru.

*Stíllinn skiptir líka máli. Ef þessir tveir ökumenn aka samskonar gerðum af mótorhjóli, t.d. svokölluðum hippum, aukast líkurnar á því að þeir heilsist enn frekar. Því lengra sem ber á milli í stíl hjólanna og ökumanna því ólíklegra er að viðkomandi heilsist. Þannig mætti segja að minnstar líkur væru á því að töffarar á "racer" heilsi töffurum á "hippum".

*Útbúnaður og klæðnaður. Ef þeir sem mætast eru í samskonar klæðnaði, t.d. báðir í litríkum leðurgöllum og með lokaða hjálma aukast líkurnar á að ökumennirnir heilsist. Ef hinsvegar annar reiðmaðurinn er með gamlan opinn stálhjálm með spíru upp úr toppnum og íklæddur rifnum gallabuxum og stuttermabol og hinn er með nútíma koltrefjahjálm og íklæddur skrautlegum leðurgalla minnka líkurnar á því að viðkomandi heilsist.

Hvernig er heilast?

Þegar einn ökumaður mótorhjóls mætir öðrum getur svo ýmislegt gerst þegar annar þeirra réttir höndina út í loftstrauminn og heilsar. Það eru reyndar í það minnsta fimm leiðir til að taka á móti kveðjunni.
*Fyrsta leiðin er að gera ekki neitt. Sitja sem fastast með höndina á stýrinu og getur það þýtt allt frá því að móttakandi kveðjunnar hafi ekki tekið eftir henni til þess að honum finnist hann ekki eiga neitt sameiginlegt með þeim sem hann var að mæta og vilji því ekki endurgjalda kveðjuna, samanber reglurnar sem voru nefndar hér að ofan.

*Algengast er þó að móttakandi kveðjunnar lyfti tveimur fingrum, vísifingri og löngutöng, til að taka á móti kveðjunni en þó er höndin höfð áfram á stýrinu. Það mætti segja að hér sé tekið á móti kveðjunni á hversdagslegan máta og tilvist þess sem upprunalega heilsaði er þar með viðurkennd og fallist á að þeir tveir sem mættust eigi eitthvað sameiginlegt, allt frá því að vera báðir á mótorhjóli til þess að vera með sama smekk í mótorhjóladellunni.

*Þriðja leiðin er að lyfta hendinni af stýrinu, færa hana niður á við og reka vísifingur og löngutöng út í loftið. Ef móttakandi kveðjunnar svarar á þennan hátt er hann að senda skýr skilaboð um að hann virði þig á einn eða annan hátt. Ef einhver heilsar á þennan máta að fyrra bragði er ljóst að sá telur sig eiga mikið sameiginlegt með þeim sem hann er að mæta og líklegt er að hann yrði móðgaður ef honum yrði ekki svarað í sömu mynt.

*Fjórða leiðin er beinlínis til þess fallinn að sýna lítilsvirðingu en þá er sérstaklega haft fyrir því að taka höndina af stýrinu og leggja hana á lærið til marks um það að kveðjan hafi verið móttekin en alls ekki tekið undir hana. Þessi handabending á rætur sínar að rekja til bernskuára mótorhjólagengja og þá var algengt að óvinagengi sýndu hvort öðru vanvirðingu á þennan hátt. Í dag má þó ekki taka þetta of hátíðlega því ökumenn mótorhjóla hvíla einnig oft kúplingshöndina á lærinu.

*Fimmtu kveðjuna má kalla nýliðann en þá er hendinni lyft af stýrinu og beint út í loftið líkt og sagt sé "hæ!". Þetta gera nýir ökumenn mótorhjóla sem eru í skýjunum yfir því að vera loksins komnir á mótorhjól og vilja heilsa öllum öðrum sem líka njóta þessa skemmtilega sports sem það er að keyra mótorhjól.

Fleiri útfærslur

Í dag eru mótorhjól hinsvegar víða orðin mjög algeng sjón og því getur verið þreytandi að vera að heilsa í sífellu án þess þó að ökumaður vilji endilega móðga þann sem hann mætir. Til að bregðast við auknum fjölda mótorhjóla í umferðinni hafa margir því brugðið á það ráð að lyfta einfaldlega lófanum stutt á meðan höndin er höfð á stýrinu.
Öðrum finnst einfaldast að kinka einfaldlega kolli og er það orðin algeng kveðja í dag og oft notuð t.d. þegar óheppilegt er að taka höndina af stýrinu, t.d. í beygjum eða við gírskiptingar.

Einnig tíðkast það að ökumenn ákveðinna gerða mótorhjóla heilsist á ákveðinn hátt. Má þar t.d. nefna ökumenn BMW-mótorhjóla sem láta stundum höndina niður í loftstrauminn og láta svo vindinn bera hana aftur á stýrið.

Fleiri bendingar eru til eins og að slá létt á hjálminn en sú bending á að gefa til kynna að viðkomandi hafi séð lögreglu í nágrenninu, öðrum til viðvörunar.

Það er því ljóst að það eitt að heilsast er ekki eins einfalt og það lítur út fyrir í fyrstu og á ferðalögum erlendis gæti verið skemmtilegt að kynna sér siði heimamanna áður en lagt er af stað – það er jú óþarfi að móðga annað mótorhjólafólk óafvitandi.

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1153912/