Allir sem aka mótorhjólum hafa tekið eftir því þegar mótorhjólafólk mætist á vegunum að það réttir upp vinstri hönd og heilsast líkt og riddarar forðum.
Allir sem aka mótorhjólum hafa tekið eftir því þegar mótorhjólafólk mætist á vegunum að það réttir upp vinstri hönd og heilsast líkt og riddarar forðum. Færri hafa kannski velt því fyrir sér hvað er eiginlega á seyði og af hverju mótorhjólafólk heilsast sérstaklega og á þennan hátt. Er það bræðralagið eða eitthvað annað og dýpra sem liggur að baki – og heilsast allir eða bara sumir?
Bílablaðið kynnti sér málið aðeins betur enda engin vanþörf á að líta á jákvæðari hliðar mótorhjóladellurnar eftir fremur dapurlega umræðu um mótorhjólafólk síðustu vikurnar.
Flóknara en virðist við fyrstu sýn
Það er óhætt að segja að handabendingar mótorhjólafólks séu flóknari en virðist við fyrstu sýn og má þá helst líta á tvo þætti sem eru ráðandi, líkurnar á því að heilsast sé og hvernig er heilsast.Til að byrja með eru í það minnsta þrír þættir sem ráða því hvort ökumaður mótorhjóls heilsar og hvort honum er heilsað til baka.
*Tegund hjólsins skiptir máli. Ef ökumaður mótorhjóls mætir öðrum ökumanni á sömu tegund mótorhjóls, t.d. Honda, eru miklar líkur á að þeir tveir heilsist og meiri líkur en t.d. að ökumenn BMW-mótorhjóls heilsi einhverjum sem er á skellinöðru.
*Stíllinn skiptir líka máli. Ef þessir tveir ökumenn aka samskonar gerðum af mótorhjóli, t.d. svokölluðum hippum, aukast líkurnar á því að þeir heilsist enn frekar. Því lengra sem ber á milli í stíl hjólanna og ökumanna því ólíklegra er að viðkomandi heilsist. Þannig mætti segja að minnstar líkur væru á því að töffarar á "racer" heilsi töffurum á "hippum".
*Útbúnaður og klæðnaður. Ef þeir sem mætast eru í samskonar klæðnaði, t.d. báðir í litríkum leðurgöllum og með lokaða hjálma aukast líkurnar á að ökumennirnir heilsist. Ef hinsvegar annar reiðmaðurinn er með gamlan opinn stálhjálm með spíru upp úr toppnum og íklæddur rifnum gallabuxum og stuttermabol og hinn er með nútíma koltrefjahjálm og íklæddur skrautlegum leðurgalla minnka líkurnar á því að viðkomandi heilsist.
Hvernig er heilast?
Þegar einn ökumaður mótorhjóls mætir öðrum getur svo ýmislegt gerst þegar annar þeirra réttir höndina út í loftstrauminn og heilsar. Það eru reyndar í það minnsta fimm leiðir til að taka á móti kveðjunni.*Fyrsta leiðin er að gera ekki neitt. Sitja sem fastast með höndina á stýrinu og getur það þýtt allt frá því að móttakandi kveðjunnar hafi ekki tekið eftir henni til þess að honum finnist hann ekki eiga neitt sameiginlegt með þeim sem hann var að mæta og vilji því ekki endurgjalda kveðjuna, samanber reglurnar sem voru nefndar hér að ofan.
*Algengast er þó að móttakandi kveðjunnar lyfti tveimur fingrum, vísifingri og löngutöng, til að taka á móti kveðjunni en þó er höndin höfð áfram á stýrinu. Það mætti segja að hér sé tekið á móti kveðjunni á hversdagslegan máta og tilvist þess sem upprunalega heilsaði er þar með viðurkennd og fallist á að þeir tveir sem mættust eigi eitthvað sameiginlegt, allt frá því að vera báðir á mótorhjóli til þess að vera með sama smekk í mótorhjóladellunni.
*Þriðja leiðin er að lyfta hendinni af stýrinu, færa hana niður á við og reka vísifingur og löngutöng út í loftið. Ef móttakandi kveðjunnar svarar á þennan hátt er hann að senda skýr skilaboð um að hann virði þig á einn eða annan hátt. Ef einhver heilsar á þennan máta að fyrra bragði er ljóst að sá telur sig eiga mikið sameiginlegt með þeim sem hann er að mæta og líklegt er að hann yrði móðgaður ef honum yrði ekki svarað í sömu mynt.
*Fjórða leiðin er beinlínis til þess fallinn að sýna lítilsvirðingu en þá er sérstaklega haft fyrir því að taka höndina af stýrinu og leggja hana á lærið til marks um það að kveðjan hafi verið móttekin en alls ekki tekið undir hana. Þessi handabending á rætur sínar að rekja til bernskuára mótorhjólagengja og þá var algengt að óvinagengi sýndu hvort öðru vanvirðingu á þennan hátt. Í dag má þó ekki taka þetta of hátíðlega því ökumenn mótorhjóla hvíla einnig oft kúplingshöndina á lærinu.
*Fimmtu kveðjuna má kalla nýliðann en þá er hendinni lyft af stýrinu og beint út í loftið líkt og sagt sé "hæ!". Þetta gera nýir ökumenn mótorhjóla sem eru í skýjunum yfir því að vera loksins komnir á mótorhjól og vilja heilsa öllum öðrum sem líka njóta þessa skemmtilega sports sem það er að keyra mótorhjól.
Fleiri útfærslur
Í dag eru mótorhjól hinsvegar víða orðin mjög algeng sjón og því getur verið þreytandi að vera að heilsa í sífellu án þess þó að ökumaður vilji endilega móðga þann sem hann mætir. Til að bregðast við auknum fjölda mótorhjóla í umferðinni hafa margir því brugðið á það ráð að lyfta einfaldlega lófanum stutt á meðan höndin er höfð á stýrinu.Öðrum finnst einfaldast að kinka einfaldlega kolli og er það orðin algeng kveðja í dag og oft notuð t.d. þegar óheppilegt er að taka höndina af stýrinu, t.d. í beygjum eða við gírskiptingar.
Einnig tíðkast það að ökumenn ákveðinna gerða mótorhjóla heilsist á ákveðinn hátt. Má þar t.d. nefna ökumenn BMW-mótorhjóla sem láta stundum höndina niður í loftstrauminn og láta svo vindinn bera hana aftur á stýrið.
Fleiri bendingar eru til eins og að slá létt á hjálminn en sú bending á að gefa til kynna að viðkomandi hafi séð lögreglu í nágrenninu, öðrum til viðvörunar.
Það er því ljóst að það eitt að heilsast er ekki eins einfalt og það lítur út fyrir í fyrstu og á ferðalögum erlendis gæti verið skemmtilegt að kynna sér siði heimamanna áður en lagt er af stað – það er jú óþarfi að móðga annað mótorhjólafólk óafvitandi.
https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1153912/