Einar og Sverrir Þorsteinssynir
Bræðurnir munu fara hringinn í kringum hnöttinn á mótorhjólum. |
Bræðurnir Sverrir og Einar Þorsteinssynir lögðu fyrr í mánuðinum af stað í heimsreisu á mótorhjólum. Báðir eru þeir þaulvanir mótorhjólamenn og á leið sinni koma þeir meðal annars við í Finnlandi, Eystrasaltslöndunum, Rússlandi, Kasakstan og Mongólíu. Þessa stundina eru þeir staddir í Suður-Rússlandi, rétt austan við Moskvu. Herdís Jónsdóttir, eiginkona Sverris, greindi DV frá ferðalagi þeirra bræðra.
Bræðurnir Sverrir og Einar Þorsteinssynir lögðu nýverið upp í risaferð umhverfis hnöttinn á mótorhjólum. Bræðurnir lögðu af stað 8. maí frá Reykjavík og fóru á hjólunum til Seyðisfjarðar. Þaðan sigldu þeir til Færeyja og síðan til Noregs, þar sem þeir komu í land 11. maí. Þaðan fóru þeir á hjólunum sem leið lá norður Noreg eftir strandlengjunni til Svíþjóðar og Finnlands, þaðan sem þeir óku suður þúsund vatna landið áleiðis til Eystrasalts. Bræðurnir fóru því næst í gegnum Eistland, Lettland og Litháen með viðkomu í höfðuborgum þessara landa. 19. maí komu bræðurnir að landamærum Móður Rússlands, eftir að hafa verið synjað um inngöngu í Hvíta-Rússland.
Þriggja mánaða ævintýri
Þeir bræður eru þessa stundina staddir í suðurhluta Rússlands, rétt austan við Moskvu. DV ræddi við Herdísi Jónsdóttur, eiginkonu Sverris. Herdís segir þá ekki geta gefið upp nákvæma staðsetningu, öll skilti séu á rússnesku en þeir haldi áfram sem leið liggur austur eftir Rússlandi, langt inn í hjarta þessa fyrrverandi heimsveldis. Þeir bræður munu keyra austur í gegnum Kasakstan og inn fyrir landamæri Mongólíu, þar sem þeir munu fara þvert yfir norðurhluta landsins. Þaðan munu þeir halda norður á leið og inn í suðausturhluta Síberíu, þaðan sem þeir munu seinna í sumar sigla frá Vladivostok til Japans. Frá Japan munu þeir sigla til Alaska. Þaðan aka þeir í gegnum Alaska, Kanada, austur í gegnum öll miðríki Bandaríkjanna, upp Vesturströndina og endastaðurinn verður New York-borg í lok sumars. Þaðan munu þeir pakka hjólunum upp í flugvél og fljúga heim til Íslands. Sverrir og Einar áætla að ljúka heimsreisunni á þremur mánuðum.Gamall draumur rætist
Sverrir hefur lengi gengið með þann draum í maganum að ferðast umhverfis jörðina á mótorhjóli.
Lengi stóð til að hann færi einn í ferðina, en í fyrravetur ákvað Einar að slást með í för. „Ég var auðvitað feginn þegar Einar ákvað að fara með honum,“ segir Herdís, eiginkona Sverris. Bræðurnir eru báðir vel tengdir inn í mótorhjólamenninguna á Íslandi og hafa auglýst eftir Íslendingum sem farið hafa sömu leið á mótorhjólum. Enginn hefur ennþá gefið sig fram og því eru allar líkur á því að þeir séu fyrstu Íslendingarnir til þess að ferðast þessa leið. Herdís segir allt hafa gengið að óskum hjá bræðrunum hingað til, þótt þeir séu stutt á veg komnir. „Það er hins vegar allt gríðarlega flókið austur í Rússlandi, til dæmis þurfa þeir að standa í mikilli pappírsvinnu hvar sem þeir gista, bráðlega koma þeir inn á svæði sem er utan farsímasambands og öll skilti og leiðarvísar eru á rússnesku. Þetta er gríðarlega ólíkt því sem þeir eru vanir heima á Íslandi, en á sama tíma rosalega spennandi og mikil upplifun. Að ferðast á mótorhjólum er alveg einstakur ferðamáti.“
Bræðurnir segja frá ævintýrum sínum í mótorhjólareisunni á vefsíðunni rtw.is.
DV
23. maí 2007