12.7.06

Um þúsund mótorhjólamenn við útför

HÁTT í þúsund mótorhjólamenn lögðu leið
sína til Akureyrar í gær til þess að kveðja
Heiðar Jóhannsson, Snigil nr. 10, sem lést í
umferðarslysi 2. júlí síðastliðinn, en útför
hans var gerð frá Glerárkirkju í gær.

Að sögn Ásmundar Jespersen, varaformanns Bifhjólasamtaka lýðveldisins, Sniglanna, tók kirkjan aðeins rúmlega 700 manns í
sæti og komust því færri að en vildu og beið
nokkur fjöldi fyrir utan kirkjuna meðan athöfnin fór fram. Í Bústaðakirkju voru um hundrað manns viðstaddir minningarathöfn um Heiðar, en jarðarförin var send beint í kirkjuna í gegnum netið. „Þetta var hugmynd sem kom upp því að allir mótorhjólamenn þekktu Heidda, en ég taldi víst að það ættu ekki allir heimangengt,“ segir Hjörtur L. Jónsson, sem skipulagði minningarathöfnina sunnan heiða. Ekki mun vera algengt að jarðarfarir séu sendar landshluta á milli með nýjustu tækni þótt örfá dæmi þekkist um slíkt, t.d. þegar ófærð hefur sett strik í reikninginn. Að athöfn lokinni í  Bústaðakirkju var hópkeyrsla að Perlunni, þar sem drukkið var kaffi. „Okkur fannst við hæfi að farið yrði í Perluna því Heiddi var perla af manni,“ segir Hjörtur og tekur fram að þar hafi verið rifjaðar  upp ýmsar góðar minningar og broslegar sögur af Heiðari.
Að sögn Ásmundar hefur þegar verið stofnaður minningarsjóður um Heiðar sem nota á
til að byggja upp akstursíþróttasvæði norðan
heiða. Einnig hefur á Akureyri verið stofnaður almennur bifhjólaklúbbur sem nefnist
Tían, til heiðurs Heiðari.



Hundruð mótorhjólakappa við fjölmennustu útför sem gerð hefur verið frá Glerárkirkju

Löng líkfylgd Sniglanna

FJÖLMENNASTA útför sem gerð hefur verið frá Glerárkirkju fór fram í gær, þegar borinn var til grafar, Heiðar Þórarinn Jóhannsson, sem lést í umferðarslysi sunnudaginn 2. júlí síðastliðinn. Að auki var sjónvarpað frá útförinni í Bústaðakirkju. Heiðar var Snigill númer 10 og fyrsti og eini   heiðursfélagi KKA akstursíþróttafélags. Félagsmenn settu mjög svip á útförina, en hundruð vélhjóla fóru fyrir líkfylgd frá kirkjunni niður á Hörgárbraut, Glerárgötu og Drottningarbraut og þaðan upp Þórunnarstræti að Kirkjugarði Akureyrar. Víða mátti sjá fólk í hópum á þessari leið sem vottaði  hinum látna virðingu sína. Félagar úr Bílaklúbbi Akureyrar höfðu stillt fornbílum við suðurenda Kirkjugarðs og þá fylgdu einnig þrjá flugvélar, sveimuðu yfir líkfylgdinni.
Talið er að allt að 800  manns hafi verið í Glerárkirkju, sæti voru fyrir um 600 manns innandyra eftir að búið var að fylla anddyrið af stólum og þá stóðu allt að 200 manns í blíðskaparveðri utan við kirkjuna.
Séra Arnaldur Bárðarson jarðsöng, Sniglabandið flutti nokkur lög en einsöngvarar voru
þau Óskar Pétursson, Þórhildur Örvarsdóttir,
Andrea Gylfadóttir, Kristján Kristjánsson og
Björgvin Ploder.

Morgunblaðið 12 júlí 2006