14.7.06

Örninn er sestur 2006



HYOSUNG Aguila, eða GV650 eins og það heitir líka, hefur fengið nafn sitt úr spænsku en Aguila þýðir örn og eins og sjá má er örninn lentur á Íslandi. Spurningin er bara sú hvort varpið heppnist en um er að ræða alveg nýja tegund á markaðnum.

    Hyosung mótorhjól hafa notið mikilla vinsælda í Suður-Evrópu og nágrannar okkar Danir hafa sömuleiðis tekið Hyosung fagnandi enda hjólin verðlögð þannig að þau eru mjög samkeppnisfær á markaði sem annars er plagaður af ofurtollum. Eiríkur Hans Sigurðsson sem bauð landsmönnum fyrstur manna upp á Ducati mótorhjól hefur tekið við umboði fyrir Hyosung og hefur til prófunar nokkrar gerðir af þessum hjólum, öll á samkeppnisfæru verði.
    Bílablað Morgunblaðsins fékk til prófunar hjól sem í flestum tilfellum yrði flokkað sem „kraftkrúser“ og tók það til kostanna í blíðskaparveðri.

Létt og lipurt en ekki látlaust

    Myndir sýna þetta mótorhjól ekki í réttu ljósi. Það virkar fremur ýkt, sem það reyndar er, en þó ekki á slæman máta. Það mætti segja að þetta mótorhjól sé léttúðugt eða frískt og hönnun þess ber þess merki að hafa verið gerð án nokkurrar fælni við augljósar tengingar til annarra og mun dýrari mótorhjóla eins og Harley Davidson V-rod sem augljóslega er fyrirmyndin hvað útlitið varðar. Útlitið er eins og áður sagði frísklegt og nýtískulegt og einungis dregið niður af fölsku krómi sem er óþarft og myndi jafnvel koma betur út í sama lit og hjólið er sprautað í. Hjólið er útbúið breiðum dekkjum að hætti kraftkrúser hjóla með tvöföldum diskabremsum að framan og einfaldri að aftan, lágu sæti og háu stýri. Á prófunarhjólinu er vindhlíf sem aukabúnaður ásamt baki og bögglabera og pústið, sem er fremur breitt og hljómar hreint ágætlega, er 2 í 1 á hægri hlið. Stjórntæki öll eru hefðbundin og mjög auðveld í notkun og akstursstaða hin prýðilegasta eins og oft er á krúserum.
    Við fyrstu viðkynningu er hjólið mjög létt og þægilegt í meðförum og auðvelt að ímynda sér að það henti byrjendum. Reyndar hentar þetta hjól sérlega vel byrjendum þar sem hægt er að fá fyrir það búnað til að draga úr aflinu með 25kw takmörkun, sem er leyfilegt hámarksafl fyrir yngri ökumenn bifhjóls en 21 árs. Hægt er síðan að fjarlægja þessa takmörkun og gefa hjólunum fullt afl þegar viðkomandi hefur öðlast réttindi, eða hjólið selt og hjólið skilar þá sínum 79 hestöflum með tilheyrandi þjósti.  
Þar sem hjólið er mjög létt og meðfærilegt í akstri er hætt við því að ökumenn muni reka hjólið niður í beygjum. Sem betur fer er það fyrsta sem rekst niður ístöðurnar fyrir fæturna og fæst því tímanleg tilkynning um það að tímabært sé að hægja ferðina og kreppa beygjuna örlítið – þó mun þetta fara eftir ökustíl fólks en sumir munu líklega draga hælana á undan ístöðunum vegna framstæðrar stöðu þeirra.
Í bæjarumferð nýtur mótorhjólið talsverðar athygli og merkilegt nokk jafnvel meiri athygli en nafntogaðri mótorhjól í sama stíl. Kannski er þar um að kenna óþekktu nafni hjólsins, útliti þess eða hins skæra ljósbláa litar sem er líklega sjaldséður á hjólum af þessari gerð sem alla jafna eru svört. Vegfarendur kunnu allavega vel að meta hjólið og ökumaður sömuleiðis þar sem það var með eindæmum meðfærilegt. Það er vel hægt að keyra hjólið meira á toginu en hásnúning og sennilega munu flestir kunna að meta það betur þar sem titringur frá vélinni er talsverður þegar hærri snúningi er náð. Vissulega er ekkert mál að gíra niður eða upp og þannig draga úr titringnum enda þótti blaðamanni best að keyra á lágum snúningi og nota togið og spretta svo úr spori og leyfa nálinni að hendast upp hraðamælinn einstaka sinnum án þess að skipta um gír strax.

Hlykkjóttir og þröngir þjóðvegir góð skemmtun

Það var ekki síður gaman að keyra til Þingvalla í góða veðrinu. Þröngur vegurinn, hæðóttur og hlykkjóttur dró fram góða aksturseiginleika hjólsins og sýndi hve jafnvægi þess var gott. Bremsur virkuðu traustvekjandi og gírkassinn var þýður og þægilegur og aldrei missti blaðamaður úr gírskiptingu. Togið var yfirdrifið fyrir afslappaðan þjóðvegaakstur og aflið feikinóg til framúraksturs þegar á þurfti að halda – þó ekki án titringsins sem fylgdi hærri snúningi. Vindhlífin gerði talsvert gagn og er eiginlega nauðsynleg þar sem akstursstaðan á krúserhjóli er einungis til þess fallin að fanga sem mestan vind. Sætið var þægilegt til lengri aksturs og hægt að hagræða sér og breyta um stellingu án nokkurra vandræða.
    Þegar komið var til Þingvalla var mál að prófa hjólið með farþega en það reyndist lítið erfiðara að keyra hjólið þannig og hvorki fjöðrun né afl létu af sér draga þrátt fyrir aukafarþegann og má því draga þá ályktun að aukatöskur gætu gert þetta mótorhjól að fínasta hjóli til daglegs brúks og jafnvel lengri ferða ef menn vilja.
   Á heildina litið er Hyosung GV 650 létt og þægilegt hjól sem býður upp á talsvert afl fyrir þá sem það vilja en er jafnframt hentugt fyrir byrjendur. Í því sambandi má nefna afltakmörkunina sem er fáanleg og svo einfalda hluti eins og að ekki er hægt að setja hjólið í gír án þess að setja standarann upp fyrst – nokkuð sem allir byrjendur kunna örugglega að meta. Útlit hjólsins vakti fremur góð viðbrögð en stíll þess er um margt óvenjulegur þó ekki séu farnar ótroðnar slóðir í hönnun þess. Hvað notkun hjólsins varðar var hægt að finna fáa galla á því og helst hægt að kvarta yfir krómuðu plasti sem hefði mátt sleppa og titringnum í vélinni sem yrði ansi hvimleiður en kom ekki að sök þar sem auðvelt er að gíra sig framhjá því vandamáli. Blaðamaður bjóst reyndar við að stafrænt mælaborð hjólsins yrði erfitt aflestrar í sólinni og þá sérlega ljósið fyrir hlutlausan gír en það reyndist ekki vera nokkuð vandamál – reyndar var mælaborðið auðlesið og fljótlegt að sjá hraðann og þær upplýsingar aðrar sem voru í boði. Þó var þess saknað að hafa ekki snúningshraðamæli. Einn helsti kostur hjólsins hlýtur að vera verðið en 860 þúsund telst nokkuð gott verð fyrir 79 hestafla krúsermótorhjól sem er nógu sprækt til að skilja margan krúserinn eftir í rykinu. Það má reyndar minnast á það að á leiðinni í bæinn var kíkt í heimsókn hjá nýbökuðum eiganda að Hyosung GT 650R en grunntýpan af þeirri gerð, GT650, kostar aðeins 666 þúsund krónur.

Tegund: Hyosung GV650 Sports Cruiser
Vél: Tveir strokkar V2 90° vél, 647 rúmsentimetrar, 8 ventlar, yfirliggjandi knastásar, vatnskælt.
 Afl: 79 hestöfl við 9.000 snúninga á mínútu.
Tog: 68,1 Nm við 7.500 snúninga á mínútu.
Gírskipting: 5 gíra beinskiptur. 1. gír niður, 4 upp.
Bensíntankur: tekur 16 lítra.
Hröðun: Ekki vitað.
 Hámarkshraði: 195 km/klst.
Drifbúnaður: Hljóðlátt koltrefja belti.
Hemlar framan: Diskabremsur. Tvöfaldir diskar. Hemlar aftan: Diskabremsur. Stór, 270 mm diskur.
Hjólbarðar og felgur framan: 120/70-ZR18 59W. Hjólbarðar og felgur aftan: 180/55-ZR17 73W.
Lengd: 2.430 mm. Breidd: 840 mm.
Hæð: 1.150 mm. Sætishæð: 695 mm. Hæð undir lægsta punkt: 160 mm.
 Eigin þyngd: 218 kg. Heildarþyngd 410 kg.
Litir: svart – silfurgrátt – blátt og silfurgrátt.
Eyðsla: 5 lítrar í blönduðum akstri.

Verð: 860.000 kr. Umboð: Renta ehf. Hyosung Aguila
ingvarorn@mbl.is 
Morgunblaðið 14.07.2006