Þegar Vilhjálmur Grímsson tók í fyrsta skipti litla vespu á leigu þar sem hann var staddur í sumarfríi á sólarströnd í útlöndum ásamt fjölskyldu sinni vissi hann ekki að þar með færi hann að láta sig dreyma um að þeysa um á mótorhjóli af stærstu gerð. Þetta væri varla í frásögur færandi nema fyrir það að nýlega lét Vilhjálmur drauminn rætast, 64 ára gamall að aldri. Í sumar leggja hann og 35 ára gömul dóttir hans, Inga María, á ráðin um ferðalög saman á tryllitækinu þar sem hann verður við stýrið og hún farþegi.„
Það er alltaf gaman að gera eitthvað skemmtilegt með pabba,“ segir Inga María
og útskýrir upphaf ævintýrisins aðeins betur. „Okkur fannst vespurnar frábærar því á þeim sér maður landið á annan hátt og upplifir allt aðra hluti en þetta venjulega baðstrandalíf. Pabbi varð hins vegar fyrstur til að taka þetta upp hér heima.“
Vilhjálmur byrjaði á því að fá sér vespu fyrir um einu og hálfu ári. „Hún er mjög lipur í innanbæjarakstri en smám saman fór ég að skoða stærri hjól enda kannski alltaf langað í svoleiðis grip frá því ég var strákur.“ Tækið atarna er engin smásmíði, 1.600 kúbika Kawasaki sem vegur um 400 kíló. „Það er með því stærsta sem gerist,“ viðurkennir Vilhjálmur. „En það kemur til af því að þetta er hugsað sem ferðahjól og sem slíkt er það mjög
voldugt, með hliðartöskur, farþegasæti með bólstruðu baki og góða vindhlíf fyrir framan. Ég hef gaman af því að ferðast og það á reyndar við um fleiri í fjölskyldunni þannig að það lá nokkuð beint við að velja hjól sem hentaði til ferðalaga.“
Sæmilega öruggt sæti | Hjólið kallaði á ákveðna „endurmenntun“ af Vilhjálms hálfu, sem þurfti að standast bæði bóklegt og verklegt próf til að fá réttindi til að stýra tryllitækinu. Eins var nauðsynlegt að „galla sig upp“ eftir kúnstarinnar reglum til að tryggja öryggi á mótorfáknum eins og frekast er unnt. Hnausþykkur leðurgalli og bakhlíf, sem líkist helst svartri skylmingabrynju, er til vitnis um að á þeim vettvangnum hefur Vilhjálmur ekkert til sparað. „Þótt eitthvað komi upp á og maður renni eftir götunni þá heldur þetta lengi við,“ segir hann og bendir á þung og svört leðurstígvél. „Svo þarf maður að vera í sæmilegum klossum því 70%
af öllum slysum eru á hné og niður að ökkla.“
Allur þessi búnaður er þó fenginn í ákveðnum tilgangi, nefnilega að verja líf og limi á ferðum um landið og í sumar er stefnan tekin á ferðir þeirra feðgina saman á hjólinu góða. „Já, pabbi er að reyna að plata mig til þess,“ segir Inga María stríðnislega. „Ég vil nú að hann æfi sig gamli maðurinn svo það verði nú óhætt fyrir mig að vera þarna fyrir aftan hann. Það hlýtur að koma síðar í sumar og þá getum við farið einhvern rúnt.“ Vilhjálmur brosir út í annað. „Ég er búinn að vera að æfa mig svolítið og til dæmis farið upp á Skaga, á Þingvelli, austur í Flóa, suður í Keflavík og víða og þá hefur sonur minn Garðar oft setið aftan á hjá mér. Núna finn ég að ég
er að ná ágætu valdi á þessu þannig að ég ætti að geta boðið Ingu Maríu upp á sæmilega öruggt aftursæti í sumar.“
Feðginin hafa augastað á að gista á farfuglaheimilum á ferðum sínum en áfangastaðurinn er enn óráðinn enda líklegt að hið íslenska veður verði haft með í ráðum þegar þar að kemur. „Við stefnum nú á styttri túra til að byrja með,“ segir Inga María. „En pabbi er strax farinn að gíra mig upp í að fá mér mitt eigið hjól og hver veit nema við getum þá farið eitthvað lengra næsta sumar.“
Ætlar í Sniglana | Vilhjálmur er fljótur að feykja þeirri ranghugmynd af borðinu að það sé óvenjulegt að maður á hans aldri taki upp á því að fá sér svona farartæki. „Bæði hér á Íslandi og í útlöndum eru mótorhjólaklúbbar með „gamlingjum“. Í þeim eru menn sem eru flestir komnir yfir sextugt. Margir þeirra eru nýir í sportinu því þegar krakkarnir eru farnir að heiman og búið er að borga húsið eiga menn kannski einhverjar krónur sem hægt er að leika sér með. Og þá hafa þeir látið
gamla drauminn um mótorhjól rætast. Það er ótrúlega algengt og miklu algengara en maður hefði haldið að fólk fyrir ofan miðjan aldur fái sér svona hjól.“
„Pabbi ætlar að ganga alla leið og fara í Sniglana,“ skýtur Inga María inn í og faðir hennar hreyfir engum mótbárum. „Það er partur af þessu að hitta gaurana sem eru í þessu,“ segir hann. „Reyndar held ég að það sé tvímælalaust til bóta að menn séu orðnir svolítið þroskaðir og búnir að hlaupa svolítið af sér hornin þegar þeir setjast á bak svona kraftmiklu verkfæri enda er lágmarksaldur til þess að taka bifhjólapróf 21 árs. Aflið er nánast ótakmarkað enda hægt að komast á þriðja hundraðið á svona hjóli. Þá er um að gera að kunna sér hóf í því að nota þetta afl.“
Inga María hlær við þegar gamla HLH-lagið um riddarann á mótorfáknum er rifjað upp og viðurkennir að líklega hafi hún ekki séð sjálfa sig aftan á hjóli fullorðins föður síns þegar hún raulaði það í denn. „En mér finnst frábært hjá honum að láta gamla drauma rætast og halda einhverjum áhugamálum gangandi hjá sér.“ Vilhjálmur tekur undir þetta. „Ég er fyrst og fremst að halda mér í formi með þessu enda byggir þetta mann upp og skerpir, bæði andlega og líkamlega. Það þýðir ekkert að vera eins og tuska á þessu – maður verður að hafa pínulítið „power“ – svo eiginlega yngist maður upp í stað þess að hníga niður og verða að dufti.“ En sér hann fyrir sér að þeysa ennþá um á Kawasaki um nírætt? „Það væri mjög gaman,“ segir hann og hlær. „Maður þakkar bara fyrir hvert ár sem maður hefur góða heilsu og svo ræður Guð og lukkan hvernig þetta fer.“ |
ben@mbl.is
Morgunblaðið
04.06.2006