23.6.06

Mótorhjól njóta ört vaxandi vinsælda

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að mótorhjólum hefur fjölgað mikið á götunum hin
síðari ár. Árið í fyrra var metsöluár og það lítur sömuleiðis út fyrir góða sölu í ár.
Blaðamanni bílablaðs Morgunblaðsins varð ljóst að það eru uppgrip hjá umboðunum þessa dagana. Símalínurnar virðast vera rauðglóandi og það heyrist á mönnum að þeir hafi mikið að gera en mesti kúfurinn í sölu sumarsins er einmitt núna.

Umboðin flest öll að slá sölumet fyrri ára

 Hjá Ducati hefur sumarið verið fremur rólegt enda er ekki um magnsöluhjól að ræða. Þeir gera þó ráð fyrir að selja um 10 hjól í sumar og hægt og bítandi eykst fjöldi hjólanna á götunni og virk spjallsíða Ducati-eigenda á Íslandi virðist ýta undir mikinn áhuga á hjólunum. Salan var örlítið meiri í fyrra en merkið er tiltölulega nýtt á Íslandi og það má búast við því að það taki tíma að byggja upp kaupendahóp að hjólunum þó nú þegar séu um 60 hjól á götunum. Sturla Sigurðsson hjá Ducati-umboðinu tók þó fram að þeirra hjól væru keypt til þess að keyra þau og þau væru fremur notuð á þjóðvegum landsins en á rúntinum. Það gæti því farið svo að salan tæki kipp ef verður af brautaráformum á Reykjanesi á næsta ári.

 Hjá Yamaha voru menn bjartsýnir. Salan hefur farið betur af stað en í fyrra og búið er að selja flest þau hjól sem umboðið fær til sölu í sumar. Björgvin Njáll Ingólfsson, sölustjóri hjá Yamaha umboðinu, segir að mikið sé um að menn séu að koma til baka núna, rúmlega fertugir eftir að hafa verið hjólalausir síðan á tvítugsaldri og því séu  engin mörk sett hvað höfðar til manna, þeir selji öll R1 og R6 hjól sem þeir fái og uppítökuhjól seljast sömuleiðis eins og heitar lummur. Salan er þó að stórum hluta bundin við mótorkrosshjólin en þau  eru oft í kringum helmingur af sölu umboðanna.

Nitro, sem meðal annars er með umboðið fyrir Kawasaki og Husaberg, hefur ekki undan sölunni. Arne Kristinn, sem var fyrir svörum, sagði allt seljast, alveg sama hvað það væri og í ár væri salan þrefalt meiri en á sama tíma í fyrra. Þar er sömuleiðis stór hluti sölunnar í mótorkrosshjólum en götuhjól njóta samt vinsælda sem aldrei fyrr enda eru skærgrænir Kawasaki-fákar og stórir „hippar“ orðnir algengari sjón en áður var á götunum.

Hjá Hondaumboðinu sagði Hlynur Pálmason sölustjóri að þegar í maí hefði verið búið að selja sama magn og allt árið í fyrra en sala hjá þeim væri að stórum hluta í óskráðum torfærumótorhjólum eða um 60 til 70%. Honda götuhjól njóta samt alltaf talsverðra vinsælda enda eitt af rótgrónustu mótorhjólamerkjum landsins.

Harley Davidson umboðið hefur notið stöðugs vaxtar síðan það var opnað og slegið sölumet á hverju ári síðan að sögn Hildar Jónsdóttur,
annars eiganda Harley Davidson á Íslandi. Hildur sagði að áhuginn væri mjög mikill, salan hefði verið mikil og gífurleg aukning væri í ökukennslu en Harley Davidson umboðið býður upp á  skráningu tilvonandi bifhjólafólks til ökukennslu. Frá áramótum hafa um hundrað manns tekið bifhjólapróf í gegnum Harley Davidson umboðið og margir enda svo á nýjum mótorhjólum frá Harley Davidson.

Síðustu 11 ár hefur KTM á Íslandi mestmegnis verið í boði fyrir mótorkross og torfæru og hafa KTM mótorhjól jafnan átt stóran hluta af markaðnum. Nú ber svo við að KTM býður upp á hrein götuhjól og hefur salan aðeins verið að fara af stað á þeim. Guðmundur Jóhannsson hjá
KTM sagði að salan hefði almennt stigið um 25% en styrkur KTM lægi í því að þeirra mótorhjól,
krossararnir þar á meðal, væru framleidd í Evrópu og hentuðu því vel til götuskráningar þrátt fyrir að
þau væru notuð mest utan vega. Nú er byrjað að taka við pöntunum í 2007-árgerðirnar en þær eiga
koma um miðjan júlí og munu nýju gerðirnar anna eftirspurn á tvígengishjólum sem hafa verið  uppseld síðan í maí.

Sömu sögu var að segja hjá Suzuki-umboðinu en að sögn Péturs Bjarnasonar á þeim bænum er hjólasalan í ár mun meiri en í fyrra. Þó merkir hann meiri aukningu í sölu á götuhjólum en áður og finnur að margir sem átt hafa mótorhjól áður en höfðu lagt það á hilluna
hafa tekið upp hanskana og hjálminn aftur og keypt sér mótorhjól. Suzuki selur hin öflugu  Hayabusamótorhjól sem hafa náð því að verða eins konar goðsögn en þessi mótorhjól búa yfir 175 hestafla vél sem myndi teljast sómasamlegt í flestum fjölskyldubílum.

Mikil vakning eftir ládeyðu síðustu ára 

Það virðist því sem mótorhjól seljist á Íslandi sem aldrei fyrr.
Flest umboðin hafa nú þegar jafnað eða aukið við sölutölur frá því í fyrra og eru heldur ekki í neinum vandræðum með að selja notuð mótorhjól. Flest virðist ýta undir áhuga á mótorhjólum, innflutningur er ennþá nokkuð mikill þar semmótorhjól eru ekki eins viðkvæmfyrir gengisfalli krónunnar og tryggingafélög sjá orðið vaxandi viðskiptahóp en fram til þessa hafa háar tryggingar verið einn helsti þröskuldur í vegi fyrir því að eignast mótorhjól.
Morgunblaðið 23.júní 2006
TENGLAR 
..............................................
www.ducati.is
www.yamaha.is
www.nitro.is
www.honda.is
www.harley-davidson.is
www.ktm.is
www.suzuki.is