24.6.06

Eldsnemma út í umferðina

         Árni Fríðleifsson, mótorhjólalögga, gætir þess að ökumenn á höfuðborgar svæðinufari að settum reglum.
          Hann segir mótorhjólalöggur  hafa mikinn áhuga á öllu því sem viðkemur mótorhjólum.

„Ég hef mikla ánægju af starfi mínu og er ekkert á því að hætta," segir Árni Friðleifsson, mótorhjólalögga. Árni hefur unnið í 16 ár sem lögreglumaður hjá umferðardeild Lögreglunnar í Reykjavík. Hann segir vaktirnar byrja venjulega með kaffibolla eldsnemma á morgnana en eftir það er farið útí umferðina. „Við leggjum af stað upp úr klukkan átta á morgnana. Við reynum að dreifa mannskapnum sem mest um borgina og í kringum þessi stærstu gatnamót. Sérstaklega í morgunsárið og í síðdegisumferð inni. Við erum fyrst og fremst í umferðarmálum. Það er sérsvið lögreglumanna á mótorhjólum. Hjólin eru sýnilegri og menn eru meira á ferðinni."




Lögreglan í Reykjavík hefur nú yfir að ráða fimm mótorhjólum og flest öll af gerðinni Harley Davidson. Samkvæmt Árna er þó ráðgert að bæta við einu hjóli til viðbótar. Árni segir litlu máli skipta af hvaða gerð hjólin eru og mestu máli skipti að þau séu örugg. Þá segir hann hjólin notuð allt árið um kring svo lengi sem götur séu þurrar. „Þegar ekki er hægt að hjóla út af hálku á veturnar þá förum við á bílana. Annars hjólum við í frosti og nánast hvaða veðri sem er svo lengi sem götur eru þurrar." 
Að sögn Árna hefur umferðarmenning á íslandi tekið stórstígum framförum á þeim tíma sem hann hefur starfað hjá lögreglunni. „Það eru margir góðir ökumenn á Íslandi en svo eru alltaf svartir sauðir inn á milli. Á þessum sextán árum finnst mér þó á heildina litið að umferðarmenningin hér heima hafi batnað til muna."