21.12.05

Á vélhjóli í jöklaferðir 2005


Jöklaferðir hafa á undanförnum árum verið vinsælar meðal jeppa-, skíða- og göngufólks. Færri stunda slíkar ferðir á vélhjólum en þeir eru þó til. Sveinn Birgisson er einn af þeim.

„Ég er búinn að vera að hjóla í 12 ár með hléum. Keypti skellinöðru þegar ég var 15 ára,“ segir Sveinn. „Það sem heillar mig við hjólin er hraðinn, góður félagsskapur, útiveran og snertingin við náttúruna.“
   Sveinn segist reyna að fara í tvö góð ferðalög hvert sumar á hjólinu en á veturna er stefnt á jöklana. En hvað er það sem heillar við jöklana og af hverju að fara þangað á mótorhjóli af öllum farartækjum? „Af sömu ástæðu og maður fer á vélsleða. Það er ómögulegt að láta græjurnar standa inni, það þarf að vera hægt að nota þetta yfir veturinn líka. Að komast á jökul er alltaf sérstakt, allt öðruvísi en að vera í Bláfjöllum til dæmis. Þeir toga alltaf í mann. Ef veðrið er gott er útsýnið og hreinleikinn svo mikilfenglegt að maður fær hálfgert víðáttubrjálæði. Maður veit líka að það komast ekki allir þangað. Þetta er ekki eins og að kaupa flugmiða til London,“ segir Sveinn með virðingarvotti í röddinni. Hann hefur líka reynslu af jeppa-, vélsleða- og gönguferðum á jökla svo það kemur kannski ekki á óvart að hann sæki þangað líka á vélhjóli.
   Jöklaferðir á vélhjólum eru ekki ýkja frábrugðnar vélsleðaferðum. Aðalatriðið er að vera vel klæddur og varinn. Maður finnur mikið fyrir veðrinu og snörpum hreyfingum. Hraðinn er meiri en í jeppaferðum og oft gefast fleiri tækifæri til að stökkva og leika sér. „Fyrir utan hlýjan fatnað þurfa allar hlífar að vera til staðar. Nýrnabelti og brynja eru skilyrði. Maður þarf líka enduro- eða krossaraskó, hjálm auðvitað og svo er alltaf að færast í vöxt að vera með hálskraga sem öryggisbúnað. Hvað hjólið varðar er gott að vera á ísdekkjum. Þau eru með nöglum sem eru mitt á milli nagla í bíldekkjum og nagla í sleðabeltum. Svo er mjög gott að vera með ískross ádrepara. Þá er snúra frá ádreparanum bundin í úlnlið ökumannsins. Ef hann dettur af hjólinu drepst á mótornum og hjólið skaðar engan,“ segir Sveinn og bætir við að gullna reglan um jöklaferðir eigi líka við ef maður stundar þær á vélhjóli: „Það er bannað að slasa sig.“
   Spurður um hvort vélhjólatímabilið sé ekki búið þennan veturinn svarar Sveinn: „Nei, nei, það er rétt að byrja. Hjólið mitt er á númerum og verður það fram undir páska alla vega.
Fréttblaðið 21.12.2005

15.12.05

JÓLAHJÓL

DÆGURLAGIР

Það var í gömlu góðu árdaga Sniglanna sem þetta klassíska jólalag kom í heiminn. Mótorhjólatöffarinn og leikarinn Skúli Gautason á heiðurinn af lagi og texta.

 „Ég átti afmæli og það var veisla heima hjá mér,“ svarar Skúli aðspurður hvernig lagið varð til. Þá leigði hann hús ásamt Þormari Þorkelssyni, öðrum mótorhjólatöffara, á Görðum við Ægisíðu.
„Þar var hálfgert félagsheimili fyrir mótorhjólabullur og oft gestkvæmt og glatt á hjalla,“ segir Skúli. Hann rifjar síðan upp það sem fór fram í örlagaríku afmælisveislunni.

 Börn og mótorhjól 

„Við vorum eitthvað að velta fyrir okkur hvernig hugsunarhátturinn hefði verið hjá mótorhjólatöffurunum þegar þeir voru börn, um hvað þeir voru að hugsa. Flestir voru á því að hafa átt draum að fá mótorhjól í jólagjöf. Svo fóru af stað vangaveltur um það hvort hann væri ekki svolítið áberandi pakkinn og hvort það væri eitthvað hægt að fela þann pakka því að jólagjafir eiga að koma á óvart, ekki satt?“ Upp úr þessum umræðum og vangaveltum spratt svo lagið „Jóla-hjól“ og þar sem þetta var afmælisveislan hans Skúla var honum gefið það loforð í afmælisgjöf að lagið skyldi koma út á plötu. Hann og Þormar mæta daginn eftir upp í stúdíó Mjöt til að taka upp tvö lög, þar á meðal lagið um jólahjólið. „Þetta var glamrað á kassagítar og við bara rauluðum þetta inn,“ segir Skúli.

Milljón dollara hugmynd

Ætlunin var að gera lítinn 45 snúninga vínil og fóru þeir með upptökurnar upp í plötupressuna Alfa sem þá var suður í Hafnarfirði.
 „Þá voru þeir í plötupressuninni í miðju jólaplötuflóðinu og voru einungis í því að pressa stóru 33 snúninga plöturnar. Til að koma okkar plötu inn hefði þurft að afgreiða allar stóru plöturnar fyrst og það var of mikið mál.“
 Á endanum varð platan þeirra á stærð við 33 snúninga plötu en spilanlegi hlutinn aftur á móti aðeins á stærð við 45 snúninga plötu. Meira en helmingur plötunnar var sem sagt auður. „Síðan gáfu þeir okkur hvítt umslag utan um og við Þormar handskreyttum þessi hvítu umslög eftir óskum hvers viðskiptavinar og seldum þetta bara úti á götu. Við sögðum auðvitað ekki frá því að auða svæðið á plötunni væri út af þessum vandræðum í plötupressunni heldur létum við í veðri vaka að þetta væri alveg sérhannað. Þetta væri svona handfang þannig að maður gæti alveg gripið um plötuna með fitugum fingrum án þess að það kæmi niður á hljómgæðunum. Alveg milljón dollara hugmynd. Við prentuðum plötuna í einhverjum fimm hundruð eintökum sem seldust upp þessi jól.“

Morgunblaðið 15.12.2005