2.3.03

Triumph framleiðir stærsta mótorhjól í heim


Þessi fyrsta mynd af sleggjunni frá Triumph birtist nýlega í MCNmótorhjólablaðinu í Bretlandi. 

Hún staðfestir að sagnir af þvi að Triumph sé að hanna stærsta mótorhjól í heimi séu líklega sannar. Búist er við að hjólið verði kynnt á næsta ári og verði kallað „Twenty Two" sem vísar til stærðar vélarinnar, en einnig tilvísun til fortíðar því að á fimmta og sjötta áratugnum framleiddi Triumph vinsælt 350 rúmsentímetra hjól sem hét „Twenty One."

Mótorinn langsum 


Hjólið á myndinni er í fyrstu raunútgáfu sinni en ekki er búist við að það breytist mikið áður en það fer í framleiðslu. Heimildarmaður MCN segir að vélin hafi stækkað nokkuð frá upphaflegum áætlunum. „Upphaflega átti hún að vera „aðeins" tveggja lítra en þar sem Triumph vildi smiða stórt mótorhjól fannst mönnum að þeir gætu alveg eins haft það aðeins stærra svo þeir ákváðu að hafa það 2,2 lítra." Vélin er þriggja strokka línumótor og verður hún langsum í grindinni, líkt og sást í Indian- og Nimbus-hjólum millistriðsáranna. Eina nútímahjólið með mótorinn langsum í grindinni eru K-hjólin frá BMW en þar er hann á „hliðinni" langsum í grindinni. Þetta byggingarlag hefur BMW notað lengi með góðum árangri, bæði með þriggja og fjögurra strokka vélum. Kosturinn við að hafa hann langsum er sá að hægt er að koma við helmingi stærri vél í sama plássi og ef um V2- vél væri að ræða. Auk þess fæst meiri veghæð þannig en ef línumótorinn er þversum eins og oftast í hjólum nútímans.

Það stærsta fjöldaframleidda 


„Twenty Two" verður einfaldlega stærsta fjöldaframleidda mótorhjól í heiminum og mun skila hvorki meira né minna en 203 Newtonmetrum af togi. Það er álíka mikið og í tveimur Honda FireBlade-hjólum. Triumph neitar enn tilvist hjólsins en heimildarmenn innan verksmiðjunnar segja að það fari í sölu vorið 2003 og muni kosta vel á aðra milljón í Bretlandi.
 -NG  

2.3.2003