4.3.03

25.000 kílometrar á mótorhjóli

Í lok sumars ætlar Jakob Þór Guðbjartsson í fjögurra mánaða ferðalag um Evrópu, V-Asíu og N-Afríku. Hann ætlar að ferðast um Noreg til Svíþjóðar og Danmerkur. Þaðan til Litháens, Hvíta-Rússlands, Úkraínu, Rúmeníu, Búlgaríu, Grikklands, Tyrklands, Sýrlands, Jórdaníu, Líbanon, Egyptalands, Líbýu, Túnis, Alsírs og Ítalíu. Jakob segist ætla að vera fjóra mánuði á ferðinni og að á þeim tíma leggi hann tuttugu og fimm þúsund kílómetra að baki.


Ég fékk þá flugu í höfuðið fyrir rúmu ári að fara í langt ferðalag með það að markmiði að ferðast um Sahara-eyðimörkina," segir Jakob Þór Guðbjartsson, mótorhjólakappi og ævintýramaður. Jakob var þá nýkominn úr mótorhjólaferð um Marokkó þar sem hann hjólaði um Atlasfjöllin og vesturhluta Sahara. „Þegar ég hjólaði um Marokkó, haustið 2001, fékk ég nasaþefinn af eyðimerkurferðalögum á mótorhjólum, Marokkó var dýrmætur skóli fyrir það sem koma skal." Jakob segir að þrátt fyrir að margir félagar hans viti af áætluninni hafi enginn þeirra sýnt áhuga í verki. „Fjórir mánuðir eru langur tími frá fjölskyldu og vinum. Ég skil þá að vissu leyti og tekst því á við verkefnið einn. Það er alveg sérstök tilfinning að ferðast einn og ég lít á þessa ferð sem andlega og líkamlega hleðslu. Fólk skortir oft snertingu við sjálfið og veit ekki hvað það getur boðið sjálfu sér. Ég mun fljótlega komast að því hvað í mér býr. Það sem hópar líta á sem sjálfsagðan hlut getur orðið að heljarinnar höfuðverk fyrir sólóista, til dæmis það að skilja við hjólið í vafasömu hverfi, bæta dekk, eða gista einn úti í svartri eyðimörkinni. Í hóp ertu öruggari en ókosturinn við hópa er aftur á móti sá að þeir eru oft sjálfum sér nógir og þrífast á vernd gagnvart utanaðkomandi áreiti. Þetta verður til þess að hópur kynnist heimamönnum síður en þeir sem ferðast einir og reynslan hefur kennt mér að 98% af því fólki sem ég hef hitt á ferðalögum er heiðarlegt og gott fólk sem réttir fram hjálparhönd ef þess gerist þörf. Það er því nánast ekkert að óttast."

Vandræði með vegabréfsáritanir 

Að sögn Jakobs hefur leiðarvalið verið að taka á sig skýrari mynd á undanförnum mánuðum og gengur hann út frá því að friður haldist fyrir botni Miðjarðarhafs þannig að tækifæri fáist til að kynnast löndum eins og Líbanon, Sýrlandi, Jórdaníu og Egyptalandi. „Ef það brýst út strið í Írak gæti farið svo að ég þyrfti að fara beint til Norður-Afríku frá Grikklandi, með viðkomu á Ítalíu. Pólitískt og efnahagslegt ástand í Norður Afríku og fyrir botni Miðjarðarhafs er stórbrotið og því mikilvægt að fylgjast vel með fréttum og frásögnum annarra ferðalanga áður en haldið er á þær slóðir. Alsír var til dæmis lengi lokað fyrir ferðamönnum og skæruliðar ógnuðu þeim sem á annað borð hættu sér inn í landið.
 Í dag er talið óhætt að ferðast í suðurhluta Alsírs án teljandi vandræða. Helsta vandamálið í Alsír þessa stundina eru krakkar sem henda grjóti í ferðamenn." Jakob segir að stjórnvöld í Líbíu hafi nýlega hert reglur vegna inngöngu í landið. „Til að fá vegabréfsáritun þurfa að minnsta kosti fjórir einstaklingar að sækja um í einu og gildir einu hvort þeir koma inn í landið á sama tíma eða ekki. Þetta hefur valdið mér nokkrum vandræðum því ég á ekki séns að fá vegabréfsáritun einn og verð því að leita uppi ferðalanga í svipaðri aðstöðu og ég. Egyptar sjá einnig ofsjónum yfir sjálfstæðum ferðamönnum sem ferðast á eigin farartækjum. Þeir hreinlega kaffærra ferðamenn í pappírsvinnu og stimplafargani."   Að sögn Jakobs tekur þó steininn úr þegar sótt er um vegabréfsáritun til Hvíta-Rússlands og Úkraínu. „Þar þarf að fyrirframbóka allar gistinætur eða þekkja heimamann sem sækir um visa fyrir mann. Maður þarf einnig að tilgreina hvenær komið er til landsins og farið þaðan." Jakob segist reyndar hafa heyrt að kerfinu sé stjórnað af mafíunni og ákveðnar ferðaskrifstofur fái leyfi til að fyrirframbóka þannig að ferðamenn skipti aðeins við „valin" hótel.

Hjólin hafa marga kosti 


„Í Austur-Evrópu ferðast margir um hlykkjótta fjallavegi á götuhjólum, eða liðast um láglendið á fjólskyldubílnum. Flestir sem fara um Norður-Afríku ferðast á jeppum, þó að mótorhjólið hafi verið að koma sterkt inn á undanförnum árum. í Sahara er sérstaklega horft til burðargetu farartækjanna og jeppar því algengastir þó að mótorhjólin fari hraðar yfir." Að sögn Jakobs er mun betra að ferðast um á mótorhjóli í Sahara en jeppa. „Vandamálið er bara hvað hjólin hafa litla burðargetu. Oft ferðast mótorhjól og jeppar því saman í eyðimörkinni. Hjólin eru notuð til að finna góðar leiðir gegnum sandöldurnar en jepparnir sjá um burðinn." Jakob segir að kostirnir við að ferðast á mótorhjóli séu fjölmargir. „Nálægðin við umhverfið er til dæmis mun meiri en þegar ferðast er í bíl, nálægðin getur reyndar orðið allt of mikil og yfirþyrmandi eins og í slæmum sandstormi. Hjólin hafa líka þann kost að rekstrarkostnaður þeirra er lágur miðað við bíl, hvort sem litið er til viðgerða, tolla eða flutningsgjalda."

Tæki og búnaður 


„Reyndir ferðalangar ráðleggja öllum sem fara um Sahara að ferðast létt og tryggja sér áreiðanlegt farartæki. Það hafa margir brennt sig á því að fara með of þung hjól út á sandinn og lent í miklu basli með að stjórna þeim þar. Bilanir eru ekki æskilegar í Sahara, því engin er þjónustan, og það geta liðið margir dagar þangað til næsta farartæki fer hjá." Jakob segist hafa valið Suzuki DR650SE til fararinnar. „Almennt er talað um að eins strokks, fjórgengismótorar séu bestir í ferðalög í eyðimörkinni, en þeir eru nokkuð léttari og eyðslugrennri en tveggja strokka mótorarnir. Venjuleg mótorhjól eru ekki ætluð fyrir þau átök sem fylgja langferðum í eyðimörk, ekki einu sinni hjól sem eru sérstaklega gerð fyrir langferðir, og gangast flest hjól því undir einhverjar breytingar." Jakob segist ætla að setja álkistur á hjólið og stækka tankinn þannig að hjólið fari sex til sjö hundruð kílómetra án þess að þurfa að fylla á. Hann ætlar einnig að setja staðsetningartæki á stýrið, koma fyrir vatnsbrúsum, verkfærum, varahlutum og ýmsu fleira á hjólið. „Vatn er mjög mikilvægur þáttur í ferðalagi um Sahara. Yfir vetrarmánuðina þarf að innbyrða átta til tólf lítra af vatni á dag til að halda vatnsbúskapnum í jafnvægi. Þetta gerir það að verkum að í þriggja daga ferð í óbyggðum Sahara, þar sem engar bensínstöðvar né brunnar er að finna, þarf ég að bera rúmlega fjörutíu lítra af bensíni og rúma þrjátíu lítra af vatni, auk alls annars búnaðar." Jakob segir að oft sé vandratað um óbyggðir Norður-Afríku og því hafi legið beinast við að hafa staðsetningartæki með. „Staðsetningartækin eru svo sem ekki nauðsynleg á ferðalagi sem þessu en öryggið sem fylgir því að hafa GPS er svo mikið að það borgar sig ekki að sleppa því. Tækið gerir það að verkum að mistök í leiðarvali verða smávægileg og sparar þannig tíma, eldsneyti og vatn."
 „Vatn er mjög mikilvægur þáttur í ferðalagi um Sahara. Yfir vetrarmánuðina þarf að innbyrða átta til tólf lítra af vatni á dag til að halda vatnsbúskapnum í jafnvægi. Þetta gerir það að verkum að í þriggja daga ferð í óbyggðum Sahara, þar sem engar bensínstöðvar né brunnar er að finna, þarf ég að bera rúmlega fjörutíu lítra af bensíni og rúma þrjátíu lítra af vatni, auk alls annars búnaðar." Jakob segir að oft sé vandratað um óbyggðir Norður-Afríku og því hafi legið beinast við að hafa staðsetningartæki með. „Staðsetningartækin eru svo sem ekki nauðsynleg á ferðalagi sem þessu en öryggið sem fylgir því að hafa GPS er svo mikið að það borgar sig ekki að sleppa því. Tækið gerir það að verkum að mistök í leiðarvali verða smávægileg og sparar þannig tíma, eldsneyti og vatn."

Fjallgöngur og hellaferðir 


„Ég tók snemma þá ákvörðun að halda mig fjarri öllum stórborgum, söfnum, kirkjum og kóstulum í ferðinni og einbeita mér frekar að göngu- og hellaferðum. Það er óopinbert markmið ferðarinnar að klífa alla hæstu tinda þeirra landa sem ég fer um og fljótt á litið ætti það að takast. Það getur þó átt eftir að breytast vegna veðurs og annara hindrana sem verða á veginum." Jakob hefur stundað hellamennsku í nokkur ár og þykkir því tilvalið að leita uppi hellamenn í þeim löndum sem hann heimsækir og fá þá til að fylgja sér um heimahagana. „Sum hellakerfin í Líbanon og Líbíu eru víst fagurlega skreytt og hafa verið rannsóknarefni hellaog fornleifafræðinga í fleiri áratugi." Jakob heldur úti heimasíðu þar sem hægt er að lesa um undirbúning ferðarinnar og þar verður hægt að fylgjast með ferðalaginu eftir að hann leggur af stað. Slóðin er www.simnet.is/geokobbi.

Dagblaðið
4.3.2003




https://timarit.is/