8.5.02

Íslandsmet í Hópkeyrslu


Bifhjólasamtök lýðveldisins, Sniglar, halda alltaf 1. maí hátíðlegan á þann hátt að aka í hópkeyrslu um bæinn og var dagurinn í ár engin undantekning. 


Að þessu sinni söfnuðust um 180 mótorhjól saman, sem er íslandsmet i hópakstri á mótorhjólum. Að sögn Dagrúnar Jónsdóttur, varaoddvita Snigla, er þessi hópkeyrsla farin til að minna ökumenn í umferðinni á að mótorhjólin séu komin á götuna. „Við höfum einnig hafið auglýsingaherferð sem sjá má aftan á strætisvögnum og á síðum blaðanna til að minna á það sama," segir Dagrún.
 Á eftir var grillað í sólskini og bliðu við nýtt félagsheimili Snigla í Skerjafirði þar sem olíustóð Shell var áður. Dagrún vildi einnig koma á framfæri þökkum til umferðardeildar lögreglunnar sem stjórnaði hópkeyrslunni af myndarskap.
-NG
Dagblaðið Vísir 2002