22.5.02

OffRoad Challenge" á Klaustri 2002

103 keppendur á fyrstu OffRoad Challenge-keppninni á íslandi:


Einar og Helgi Valur urðu fyrstir eftir mikla spennu



OffRoad Challenge"-keppnin á Íslandi fór fram á Kirkjubæjarklaustri um liðna helgi.
Þar voru 103 keppendur mættir í 6 klukkutíma þolaksturskeppni á torfærumótorhjólum.
Mun þetta vera fjölmennasta akstursíþróttakeppni á Íslandi í a.m.k. 20 ár og allavega langfjölmennasta mótorhjólakeppni frá upphafi hér á landi. Keppnisform var þannig að tveir voru í liði og skiptust á að aka í braut sem lá um holt, hæðir og út á sand í landi ferðaþjónustunnar á Efri-Vík. Einnig voru nokkrir harðjaxlar sem voru ekki með neinn til að leysa sig af og óku því einir alla 6 tímana.
Það var Kjartan Kjartansson, keppnisstjóri og aðalskipuleggjandi keppninnar, sem ræsti keppendurna og með þrumugný eins og orrustuþota í lágflugi þustu keppendur af stað í sinn fyrsta hring. Sú upplifun að finna hvernig jörðin skalf og nötraði þegar 55 mótorhjól, öll með bensíngjöfina í botni, æddu af stað samtímis var einfaldlega þannig að ekki er hægt að lýsa á prenti.
Það var Einar Sigurðarson sem kom fyrstur eftir 1 hring en hann keppti með Helga Vali Georgssyni í liði og var forysta þeirra strax orðin rúm mínúta. Í öðru sæti var Reynir Jónsson, en með honum í liði var Þorvarður Björgúlfsson. Þriðji var svo Viggó Viggósson og ók hann með Sölva Árnasyni.
Eftir 2 hringi var forysta Einars og Helga komin í rúmar 3 mín. og var þá um klukkutimi liðinn af keppninni. Svona var staða efstu manna allt fram í miðja keppni, en þá sóttu Reynir og Þorvarður nokkuð á og var forusta Einars og Helga minnst um 30 sek. Þegar um klukkustund var eftir af keppninni hafði Sölvi náð Þorvarði og var þar með kominn upp í 2. sætið, en þá tók Reynir við af  Þorvarði og náði Sölva fljótlega og byrjaði að pressa á hann. Sölvi gerði þá mistök og datt í tvígang og missti Reyni fram úr sér. Það var mikil spenna við endamarkið,
Á slaginu 6 var Kjartan keppnisstjóri mættur með lokaflaggið, en eftir að fyrsti keppandi var flaggaður út var ljóst að aðeins 3 efstu liðin voru á 16. hring og baráttan var verulega spennandi. Fyrir síðasta hring skipti Sölvi við Viggó og ætlaði hann að freista þess að ná Reyni á lokasprettinum, en Reynir með sína reynslu lét hann ekki ná sér og kom sínu liði í mark aðeins 2,36 mín á eftir Einari og Helga. 40 sek á eftir þeim kom svo Viggó og voru þessi þrjú lið þau einu sem náðu að aka 16 hringi. í 4. sæti voru svo þeir Steini Tótu og Ragnar Ingi Stefánsson á Kawasaki með 15 hringi. Hraðasta hring keppninnar átti Eínar Sigurðarson, 21,39 min.
Í einstaklingskeppninni voru 7 keppendur og var Haukur Þorsteinsson eflaust hetja dagsins á Yamaha. Hann var allan tímann með örugga forystu og ók hann 14 hringi. Annar var Þorgeir Ólason með 12 hringi, en í þriðja sæti var elsti keppandinn, Heiðar Þ. Jóhannsson, 48 ára gamall með 11 ekna hring  Að sögn keppanda var brautin verulega krefjandi og erfið, en hún bauð upp á allt er góð braut á að gera. Hún var hæg, hröð, beygjur, hólar, börð,  brekkur, þungur sandur og fleira.
Að keppni lokinni voru keppendur sammála um að brautin hefði verið mjög erfið en keppnin afar skemmtileg.

Haukur Þorsteinsson sem var að keppa einn var svo þreyttur að hann varð að standa síðustu 4 hringina, þvl ef hann settist niður fékk hann krampa í vöðva bæði 1 síðunum og lærunum. Á síðustu 4 hringjunum datt hann úr 10. sæti yfir heildina i það 18. og var hann af mörgum talinn sigurvegari dagsins. 
Björgvin Guðleifsson á TM 300 hjóli flýtti sér svo mikið aö koma hjólinu í gang eftir einn hringinn að hann braut startsveifina í látunum. 


Elli pipari er hann kallaður, en hann var með tvo syni sína í keppninni, en þeir voru hvor í sínu liðinu, pabbinn hlaupandi á milli drengjanna allan daginn og var sennilega þreyttastur af þeim feðgum eftir dag


Kjartan keppnisstjóri hefur verið 1-2 mánuði að leggja brautina og fóru í hana 2000 stikur og miðað við að 5 högg hafi þurft á hverja eru þetta 10.000 hamarshögg. 


Keppendur voru með spjald um hálsinn og var það gatað eftir hvern hring til að telja hringina. Í lok keppninnar fóru margir keppendur á eftir liðsfélaganum til að tryggja að síðasti hringur yrði örugglega talinn með.

 Hörður Davíðsson, landeigandi á landinu þar sem keppnin fór fram, var mjög ánægður með daginn og taldi miklar líkur á að þarna yrði keppni aftur að ári, en hann rekur ferðaþjónustuna að Efri-Vík. 


Sjaldan hafa verið svona margir í sundi á Kirkjubæjarklaustri, en svitalyktin í karlabúningsklefanum mun hafa verið svo óbærileg að hörðustu karlmenn þoldu ekki við. 


Sjónvarpsmyndatökuliðið sem tók upp keppnina notaði m.a. flugvél við upptökurnar fyrir Ríkissjónvarpið og Eurosport. 


Það slasaðist enginn af öllum þessum keppendum meðan á keppni stóð, en að sögn keppnisstjóra frétti hann af einum keppanda sem skar sig á fingri við að setja hjólið á kerru eftir keppnina.
 Það voru keppendur af öllu landinu auk 5 útlendinga sem mættu í þessa keppni, en þeir sem lengst höfðu ekið komu frá Húsavík og voru þar á ferð Birkir Viðarsson og Gisli Arnar Guðmundsson. 


Brautarstarfsmenn keppninnar voru útbúnir með band með krók á endanum við bröttustu brekkurnar. Þessi búnaður var til að húkka í hjólin og draga þau upp þegar kepþendur duttu í miðjum brekkunum eða áttu í erfileikum með að komast upp.


 Eitt helsta vandamál keppenda var að keppnisstjórn hafði notað baggabandsspotta við að marka brautina, en þegar á keppnina leið voru böndin úti um alla braut og hjólin gripu böndin með grófum dekkjunum og þau flæktust í gjörðinni. Þá kom sér vel að vera með skæri og hníf  í verkfæratöskunni. 


Það var erfitt að fá gistingu í nágrenni við keppnissvæðið og má áætla að þessum 103 keppendum hafi fylgt um 500 manns, og að á keppnissvæðinu hafi verið um 1000 manns þegar mest var.


 Heiðar Jóhannsson var elsti keppandinn og var einn að keppa. Hann. ók 11 hringi þrátt fyrir að vera orðinn 48 ára gamall og spurður hvort hann væri þreyttur kvað hann ekki svo vera, bara gaman enda gekk allt upp. Hondan virkaði vel og brautin hentaði honum þrátt fyrir að sandurinn hafi verið fjandi erfíður, en yfir 30 ára reynsla á mótorhjóli hlýtur að hafa hjálpað eitthvað. 

Karl Gunnlaugsson, sem flestir landar kannast við úr formúluþáttunum í Ríkissjónvarpinu, var þarna með vini sínum, Stephen Hague frá Bretlandi, en Stephen þessi hefur meðal annars keppt í Paris Dakar rallinu og verið Bretlandsmeistari í mótorkrossi með hliðarvagni. Þeir félagar voru þarna aðallega ánægjunnar vegna og enduðu í 33. sæti með 12 ekna hringi.


 Það voru á ferð tveir breskir blaðamenn á mótinu á Klaustri, þeir Sean Leawless og Robin Bayman frá Breska mótorhjólablaðinu Dirt Bike magasine. Voru þeir að reynsluaka Honda CRV 450 og með þeim ók Þórir Kristinsson, ritstjóri og flugmaður.














https://timarit.is/files/13118060#search=%22m%C3%B3torhj%C3%B3l%22