30.9.01

Vélhjólaklúbburinn Vík enn og aftur á hrakhólum:

Börn og fullorðnir svipt æfingasvæðinu 

Hætt við akstri utan vega ef engin er aðstaðan, segir stjórnarmaður

„Það er slæmt að æfingasvæðinu skuli hafa verið lokað. Þarna var eina vélhjólabrautin fyrir börn á höfuðborgarsvæðinu og nú er alls óvíst hvenær æflngar geta hafist á ný," segir Torfi Hjálmarsson, gullsmiður og vélhjólamaður. Hann hefur ásamt tveimur börnum sínum stundað æfingar hjá Vélhjólaklúbbnum Vík sem á dögunum missti æfingasvæði sitt við Lyklafell. Torfi segir á þriðja tug
barna og unglinga stunda vélhjólasportið að staðaldri og sífellt séu nýir félagar að bætast í hópinn.
Æfingasvæðið við Lyklafell er í eigu Kópavogsbæjar og var afhent vélhjólaklúbbnum fyrir tæpum
þremur árum, til bráðabirgða. „Allt frá stofnun klúbbsins 1978 hefur hvorki gengið né rekið að
finna klúbbnum framtiðarsvæði.
Yfirvöld virðast hafa skilning á málinu en svo ekki söguna meir," segir Heimir Bárðarson, stjórnarmaður í klúbbnum. Heimir segir klúbbinn hafa flutt rúmlega 15 sinnum frá stofnun og það sjái hver maöur að slíkt er óviðunandi. „Það kostar alltaf mikla vinnu, peninga og fyrirhöfn að koma upp æfingabrautum. Vélhjólaakstur telst vist ekki almenningsíþrótt og  það skýrir sjálfsagt af hverju yfirvöld vísa okkur í ýmsar nefndir þar sem ekkert gerist. Það má minna á að sífellt fleiri börn og unglingar sækja í þessa íþrótt og löngu orðið brýnt að finna málinu farveg," segir Heimir. Framtið Vélhjólaklúbbsins Víkur er með öllu óviss um þessar mundir og þeir Heimir og Torfi óttast báðir að finnist ekki æfingaaðstaða fari menn á hjólum sínum út fyrir vegina. „Markmið klúbbsins er að halda utan um vélhjólaakstur og koma i veg fyrir akstur utan vega. Á meðan menn hafa ekki æfingasvæði er hætt við að einhverjir fari út á vegina, lendi í árekstrum við hestamenn og valdi fólki truflun," segir Heimir Bárðarson. -aþ
Dagblaðið Vísir 3.09.2001
http://timarit.is/