8.8.01

Tvær hollenskar ævintýrakonur:

Þeysast á mótorhjólum um landið

Það er sjaldgæf sjón að sjá ungar stúlkur á mótorhjólum á vegum landsins, alla vega íslenskar, en það virðist vera vinsælt hjá erlendum stúlkum, að minnsta kosti þeim frá Hollandi.
 DV rakst á tvær hollenskar yngismeyjar, Marlies Weggemans og Marian Splinter, sem voru að koma til landsins í annað sinn og fara um landið á stórum mótorhjólum eins og strákarnir.
  Þær sögðust hafa tekið ástfóstri við mótorhjólið fyrir um ellefu árum og það væri mjög vinsælt hjá stúlkum í Hollandi að þeysa um á mótorhjólum. Þær sögðu þetta vera í annað skiptið sem að þær þeysast um landið á mótorhjóli. Þær fóru fyrir þremur árum um þjóðveg 1 og á Vestfirðina og eftir það hugsuðu þær með sér að ef þær ætttu kost á því að koma aftur myndu þær gera það og tækifærið kom þegar þær fengu 4 vikna sumarfrí.
 „Við komum fyrir um þremur vikum til Seyðisfjarðar og höfum keyrt 1000-1500 km en ferðin öll á að vera um 3000 kílómetrar. Við höfum farið til margra landa á mótorhjóli, meðal annars til Frakklands, Austurríkis, Italíu, Noregs, Svíþjóðar og fleiri landa og það er alltaf gaman að koma til íslands því það er svo fallegt hérna. Verðlagið mætti vera aðeins lægra, þá kæmum við oftar," sögðu hollensku mótorhjólakonurnar við DV og þær hvöttu íslenskar stúlkur til að fá sér mótorhjól, það væri alveg yndislegt að þeysa um þjóðvegina á þeim.
-DVÓ
DV 8.8.2001