1.7.01

Aldrei verið hnakkskraut

Bóas Jónsson og Sævar Jónsson  kíktu
á Sigríði á Skellinöðrunum
Hin hliðin: Sigríður Gunnarsdóttir :

Aldrei verið hnakkskraut

Hvað langar þig til að gera en hefur ekki þorað?
„Ég myndi vilja sjá miklu fleiri konur gera það sem þær langar til. Ég er viss um að það er stór hluti kvenna sem langar að gera ýmislegt sem þær láta ekki verða af." Þetta segir Sigríður Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur á lýtalækningadeild LSH við Hringbraut, en hún lét ekkert aftra sér frá því að gera það sem hana langaði til. Og hvað var það? Jú, það er að vera „mótorhjólatöffa" (þ.e. kvenkynsmótorhjólatöffari). Hvað annað er hægt að kalla konu sem í vetur átti fjögur mótorhjól. Við ætlum hér að leita skýringa á því að þessa hægláta og fremur smávaxna kona, sem á þrjár nær uppvaxnar dætur og er þar að auki orðin amma, hefur það áhugamál að þeysa um á mótorhjóli.
„Líklega má segja að mitt áhugamál sé ekki dæmigert fyrir konur á mínum aldri. Mér finnst að þegar konur eru komnar á ákveðinn aldur fari þær allar að klæða sig á ákveðinn hátt og hafa ákveðnar tómstundir, s.s. golf, brids eða eitthvað í þeim dúr, svona allt frekar fyrirsjánlegt og niðurnjörvað. Það á einhvern veginn ekki við mig. Og þar að auki má segja að þegar maður hefur einu sinni kynnst
því að ferðast um á mótorhjóli þá er það eitthvað sem mann langar alltaf að gera aftur."
- Hvað er svona frábært við það?
„Kannski er hægt að lýsa því þannig að það sé eins og að vera í yndislegu veðri á svigskíðum að skíða niður brekku; það fylgir því eitthvert æðislegt frjálsræði."

Tryggingarnar fæla frá 

- Hvenær byrjaði þessi áhugi þinn?
„Ég tók próf árið 1976. Ég var reyndar ein af þeim sem var hrifin af flottum bílum, svona amerískum köggum, en ég átti bróður og marga frændur sem voru á hjólum og þeir kveiktu áhugann. Ekki samt á þann hátt að ég væri „hnakkaskraut", en það kallast þær/þeir sem sitja aftan á, heldur vegna þess að ég fékk svo góða kennslu hjá frænda mínum. Það varð til þess að ég keypti mér hjól áður en ég tók próf en það var líka fjárhagslega hagstæðara þá að eiga hjól heldur en bíl."
- Er það ekki þannig lengur? 
„Núna eru það tryggingarnar sem fæla marga frá því að kaupa sér hjól. Þeir sem eru að byrja þurfa kannski að borga 330-380.000 kr. í tryggingar á ári og það er afar óréttlátt því hér á landi er yfirleitt ekki hægt að vera á hjólunum nema örfáa mánuði á ári. Ef maður er á ferð í stór borgum erlendis, t.d. London, er aftur á móti frábært að sjá hversu margir eru á hjólum. Þar er gert er ráð fyrir beim í umferðinni, t.d. með stöðum til þess að leggja hjólunum, þannig að þar virðast menn sjá kosti þess að vera með fleiri hjól í umferðinni og þar af leiðandi færri bíla."
- Er jafnhættulegt að vera á mótorhjóli í umferðinni og virðist?
„Umferðin er orðin mjög hröð og alltaf þarf að vera á varðbergi og vita hvaðan bíll er að koma. Þegar bíll og mótorhjól skella saman þá er það ökumaður hjólsins sem verður fyrir skaða. Sjálf hef ég alveg sloppið enda ek ég mjög varlega og forðast að vera á hjólinu þegar ég er þreytt eða illa upplögð og þegar veðurskilyrðin eru ekki góð, s.s. í rigningu en þá getur hjólið runnið til í beygjum og svo eru auðvitað ekki þurrkur á hjálminum. Hlífðarfatnaðurinn skiptir mjög miklu máli enda er hann okkar vörn. Núna er goretex fatnaður að vinna á gagnvart leðrinu enda er goretexið vatnshelt, léttara og liprara. Núna eru komnir jakkar með loftpúðum í sem blása jakkann upp ef maður dettur. Hlífðarfatnaðurinn er dýr en hann dugar líka í mörg ár. Að vísu ekki hjálmarnir. Þá þarf að endurnýja á um 4-5 ára fresti; eftir þann tíma veitir efnið í honum ekki þá vörn sem til er ætlast."

Fordómar í garð mótorhjólafólks 

- Hefurðu þá verið á mótorhjóli í umferðinni alveg frá því þú tókst prófið 1976?
„Nei, þegar ég var orðin móðir og búin að eignast mínar þrjár stelpur, þá var bara einhver tilfinning sem gerði það að verkum að ég gat ekki hugsað mér að stíga á hjól. Það gerði ég í raun ekki aftur fyrr en árið 1997."
- En maðurinn þinn, er hann líka á mótorhjóli?
„Já, hann hefur verið á hjóli frá því hann var 16 ára. í raun voru það mótorhjól og bílar sem urðu til þess að við kynntumst, því hann var vinur frænda míns sem var að kenna mér á hjól. Núna er þetta vinahópur sem fer oft saman í ferðir, þ.e. við hjónin, frændi minn og vinahjón okkar en þar lét konan mótorhjóladrauminn rætast fyrir 4 árum og sú er núna þreföld amma. Ég held að áhuginn sé vaxandi, t.d. var Merkúr með sýningu á hjólum í maí og þeir töluðu um að stærsti kaupendahópurinn væri fólk á miðjum aldri. Reyndar höfum við kynnst einu dálítið einkennilegu en það eru fordómar í garð þeirra sem eru á mótorhjóli. Flest hjólafólk hefur svipaða sögu að segja en þetta lýsir sér einkum á þann hátt að karlmenn, oftast í eldri kantium, aka bílum sínum viljandi í veg fyrir þann á mótorhjólinu. Við
vitum ekki af hverju þetta stafar; öfund, illska eða hvað? En hjólafólkið er líka misjafnt. Ég hef oft heyrt að bílstjórum gremjist það að hjólað er á milli bílaraða, oft á töluverðum hraða. Þetta kemur óorði á hjólafólk."

Mótorhjólaklúbbur hjúkrunarfræðinga 

- Hvað sögðu svo dæturnar þegar mamma þeirra fór að þeysast um á mótorhjóli?
„Þær urðu ekkert hissa. Það hefur alltaf verið margt fólk í kringum okkur sem áhuga hefur á mótorhjólum og ég held að þær hafi í raun alltaf reiknað með þessu. Sú í
miðið, sem er tvítug, er reyndar að læra núna.
Margar konur hafa svo verið að spyrja mig: „Hvernig
þorirðu?" og maður heyrir samt á þeim að þetta er eitthvað sem kitlar. Vonandi fara fleiri að þora."
- Þá skipta hjólin sjálf væntanlega töluverðu máli.
Ég heyrði að þú ættir mörg hjól, er það satt?
„Hjól endast yfirleitt vel því þau eru mikla minna notuð en bílar og það skal viðurkennt að í vetur áttum við fjögur hjól: tvö Triumph 900; Yamaha Virago 750, sem er hippari, rosalega flott, mikið krómað, með flottum speglum, töskum og fleiri fylgihlutum; Suzuki DR 400 sem er „enduro" hjól (drullumallari). Núna eigum við Triumph hjólin, sem eru '93 og '96 árgerð, en seldum hin. Að keyra þau hjól er eins og að keyra „limma" en ég myndi vilja fá mér Virago aftur og eiga hann þá með hinu."
 - Þekkirðu fleiri hjúkrunarfræðinga sem eru á mótor hjóli? 
Sjálf heyrði ég að Rikka Mýrdal, svæfingahjúkrunarfræðingur á LSH í Fossvogi, væri í þeim hópi. „Er það. Hefðirðu ekki átt að tala við hana líka svo þetta fengi meiri vægi? Annars er hjúkrunarfræðingur á deildinni með mér sem lét sinn gamla draum rætast og fór í próf í fyrrasumar. Þetta er hún Inga Þóra. Hún er meira að segja búin að kaupa sér galla og prófaði Víragóinn hjá mér síðasta haust. Nú þarf hún bara að fara að drífa í að kaupa hjól; ég skora hér með á hana. Annars væri mjög gaman að koma á fót Mótorhjólaklúbbi hjúkrunarfræðinga og ég nota tækifærið hér og lýsi eftir þeim sem áhuga hafa."
BK
Tímarit Hjúkrunafræðinga 

77. árg  2001